Færsluflokkur: Íþróttir

Ég hélt að ég gæti ekki hlaupið

Saga úr Kaupmannahafnarmaraþoni

áður birt í Austurglugganum 19. júní.

Maraþonhlauparinn
Björn Magnússon læknir settist á borðið okkar á þorrablótinu og sagði við Tobbu vinkonu: "Kemur þú með mér í maraþon í kaupmannahöfn þann 18. maí?""Nei!" sagði Tobba. "Gummi er örugglega til í það" sagði hún og benti á mig. Ég kinkaði kolli í gríni en vissi um leið að ég væri á leiðinni.Síðan koma bakþankarnir: „Hvaða vitleysu er ég nú búin að koma mér út í.“ Eftir að ég er búinn að staðfesta við Björn nokkru síðar að ég ætli að skella mér með hringir síminn. Á línunni er Hálfdan Steinþórsson, Norðfirðingurinn góðkunni, vinur minn og tengdasonur Björns. Hann býður mig velkomin í hópinn og segist setja mig inn í tölvupóstsamskipti þar sem þeir félagarnir skiptist á æfinga- og reynslusögum. Hálfdan er skemmtilegur eins og alþjóð veit og eftir langt spjall við hann er ekki aftur snúið.

Ég var einn af þeim sem aldrei gat neitt í íþróttum á yngri árum, hafði hvorki áhuga né getu. Fór af stað haustið 2006 í ræktina og var nokkuð duglegur undir styrkri stjórn Vilborgar Stefánsdóttur. Ég mætti nokkuð fyrir tímana og hljóp á bretti og sá mér til furðu að ég gat bara hlaupið svolítið. Um vorið 2007 fór ég að hlaupa úti. Samt mest upp í fjalli því mér fannst þetta ekki vera þess eðlis að þessum tilraunum bæri að flagga mikið, frekar að halda leyndum. Samt var gamall draumur að hlaupa Barðsneshlaup, 27 km víðavangshlaup frá Barðsnesi um Viðfjörð og Hellisfjörð og heim til Norðfjarðar. Til að gera langa sögu stutta tókst það á Neistaflugi 2007 og því hélt ég að þá gæti ég kannski hlaupið maraþon. Sennilega væri samt best að gera það erlendis því þá bæri minna á því ef maður yrði sér til skammar.Ég fékk ráðgjöf sérfræðings í gegnum síðuna Hlaup.is. Fékk senda æfingaáætlun mánuð í senn þremur mánuðum fyrir hlaup. Einnig góð símtöl frá þjálfaranum sem fór yfir stöðuna og sagði mér til. Áætlunin byrjaði í 24 km á viku og svo smá lengdust hlaupin og síðustu alvöru vikuna átti ég að hlaupa 84 km. Lengsta einstaka hlaupið í þjálfuninni var 30 km. Ég reyndi eftir fremsta megni að halda áætlun en kvefpestir og vont veður settu oft strik í reikninginn. Ég náði að æfa c.a. 60-70% af því sem fyrir mig var lagt. Ég fann þó að allt þetta strit bar árangur.

Við hittumst svo félagarnir í Kaupmannahöfn á laugardegi, daginn fyrir hlaup. Gistum á sama hótelinu. Ég flaug frá Akureyri, Björn og kona hans frá Keflavík en Hálfdan og fjölskylda komu með lest frá Jótlandi en þar dvöldu þau við nám síðasta vetur. Við fórum upp úr hádegi og náðum í rásnúmerin og flöguna sem maður setur á skóinn svo tímamæling eigi sér stað. Þarna voru fleiri þúsund manns samankomin í sama tilgangi og á sama stað var markaður með íþróttaföt, orkudrykki og allskyns dót sem tilheyrir þessum bransa. Við stoppuðum stutt enda staðráðnir í að slaka á þennan dag og safna kröftum fyrir hlaupið. Við förum í gufu og tókum það rólega það sem eftir lifði dags. Borðuðum pasta í kvöldmat og sórum þess eið að borða ekki meira pasta á næstu dögum. Við höfðum fylgt ráðleggingum og borðað mikið af kolvetnum dagana fyrir hlaup.Við vöknuðum snemma á sunnudeginum og biðum fyrir utan morgunverðarsalinn á hótelinu klukkan 7. Léttur morgunmatur og svo bara stress fram að hlaupi. Við löbbuðum að startinu sem var um 1 og 1/2 kílómetra frá hótelinu. Við vorum í hlaupadressinu, á stuttbuxum og hlýrabolum. Það var skítkalt en veðurspáin sagði 15 gráður og sól. Sama lygin í þeim dönsku og íslensku hugsaði ég. Múgur og margmenni var við startið og mér fannst allir líta út eins og íþróttahetjur. Ég reyndi að bera mig vel en ótti og gleði skiptust á í hausnum á mér. Nú var ekki aftur snúið! Nej, for helvede!

 

Hálfdan og Björn höfðu hlaupið áður, Björn reyndar alltaf með besta tímann. Þeir settu markið báðir á að hlaupa á minna en 4 klukkustundum en ég gældi við að ljúka hlaupi á 4 og ½ tíma. Þeir tróðu sér framar og framar í startinu en 8 þúsund manns biðu eftir því sama og við, að heyra hvellinn. Ég ákvað að halda mig við það að hlaupa einn og kvaddi félaga mína enda ekki ráðlagt að reyna að halda í við þá þar sem þeir ætluðu sér að hlaupa hraðar en ég. Ég fór aftar í skarann þangað til ég fann undanfara sem var merktur 4:30. Einskonar liðsstjóri sem fólk mátti fylgja sem hafði þennan tíma í huga. Einnig var boðið upp á fleiri tíma frá 3 klukkustundum upp í 5:30.

Gummi Maraþon

Hvellurinn reið af og fyrstu hlauparar spruttu af stað. 5 mínútum eftir hvellinn komst ég yfir rásmarkið. Mikið af fólki var á götunum að hvetja og svakaleg stemmning var á staðnum. Ég var með GPS úr sem pípti á mig ef ég hljóp of hægt, þannig hélt ég jöfnum hraða og passaði mig að fara heldur ekki of hratt. Ég var ekki með neina drykki með mér enda boðið upp á slíkt með reglulegu millibili, reyndar ekki fyrsta stöð fyrr en eftir 8 kílómetra. Áberandi var að mjög margir notuðu grasbala og tré til að pissa á fyrstu kílómetrunum. Þetta lið hafði greinilega belgt sig út af drykkjum fram að hlaupi, „þvílíkir amatörar hugsaði ég“ en þjálfarinn minn sagði mér að hætta að drekka klukkutíma fyrir hlaup. Sjálfstraustið jókst. Alltaf var eitthvað skemmtilegt að sjá á leiðinni, byggingar, fólk að hvetja okkur, lúðrasveit að spila, trommuleikarar, dansarar og svaka stemmning með reglulegu millibili. Ég reyndi að hugsa sem minnst um alla vegalengdina sem eftir var. Allt gekk þetta vel og ég stoppaði nánast ekkert nema til að henda í mig drykkjum á stöðvunum, hálft glas af vatni og hálft af orkudrykk og svo haldið áfram. Þegar c.a. 20 kílómetrar voru liðnir fór ég að finna fyrir verk í vinstri ökkla sem gert hafði vart við sig á æfingatímabilinu. Vinstri fótur minn er aðeins lengri og því meira álag á hann. Ég hafði sem betur fer gert ráð fyrir uppákomum og skellti í mig tveimur bólgueyðandi og fann ekki meira fyrir þessum verkjum að ráði. Eftir 25 kílómetra sá ég að verulega var farið að draga af sumum keppendum. Sumir voru farnir að ganga, aðrir að haltra og enn aðrir voru greinilega illa haldnir. Mér leið ágætlega en nú fór ég að óttast þröskuldinn sem allir tala um. Um eða eftir 30 kílómetra kemur að vegg sem erfitt er að klífa. Þá á maður bara að hugsa um einn kílómeter í einu og fresta því að hvíla sig. Ég beið alltaf eftir þessu augnabliki en sennilega toppaði ég á réttum tíma því eftir 35 kílómetra var ég þess handviss að ég myndi ekki upplifa þetta. Ég hafði aldrei hlaupið lengra á ævinni og mér leið enn vel. Frábær tilfinning! Ég nærist ekki á ógöngum annarra en ég var samt sáttur að finna hversu vel þetta gekk á meðan aðrir voru greinilega í basli. Þegar leið undir lok hlaupsins hljóp kapp í mig og mig langaði að verða fljótari í mark en  4 og ½ tíma. Því ákvað ég að reyna að herða mig og hlaupa hraðar síðustu 5 kílómetrana. Viti menn ég átti ennþá eitthvað inni enda búinn að gleypa 3 skammta af orkugeli, svei mér þá ef það virkaði ekki. Ég fór fram úr mörgum keppendum á síðustu metrunum og kom mér á óvart hversu margir virtust ætla að labba síðustu kílómetrana. Þetta var fólk sem hafði greinilega hlaupið mun hraðar en ég framan af hlaupi en var nú sprungið á limminu. Kapp er best með forsjá hugsaði ég og svigaði á milli sprunginna hlaupara sem löbbuðu eða skakklöppuðust áfram. Ég náði að ljúka hlaupi á 4:17.01 og þvílík tilfinning að koma í mark á fleygiferð, fá medalíu um hálsinn, sönnun þess að hafa hlaupið maraþon, já hlaupið alla leið. Samt skrýtið... eins og Palli var einn í heiminum... mörg þúsund manns á svæðinu en ég þekkti engan... engin að bíða eftir mér í markinu, ég fann ekki Hálfdan og Björn og ákvað að njóta augnabliksins og rölti um í mannmergðinni og kinkaði kolli til félaga minna, MARAÞONHLAUPARANNA, ég var einn af þeim. Ekki voru allir vel á sig komnir eftir hlaupið. Fólk lá eins og hráviður út um allt, sumir að láta nudda sig, aðrir að láta styðja sig heim, einn að æla bak við tjald... en flestir voru með sigurbros á vör. Ég var einn af þeim. Þvílík gleði!

komið í mark
Ég rölti heim á hótel með plastskikkju um axlir svo ekki myndi slá að mér. Gerði mér þá grein fyrir því að mér var hálft kalt allt hlaupið og var ennþá kalt. Skikkjan var merkt aðal styrktaraðila hlaupsins Glitni. Það er gaman að vera Íslendingur með íslenska skikkju á erlendri grundu. Alveg eins og Superman. Mér leið eins og ofurmenni. Hálfdan og Björn voru komni heim á hótel. Björn hafði sigrað tengdasoninn en Hálfdan náði þeim góða árangri að brjóta 4 tíma múrinn. Það voru fagnaðarfundir hjá okkur og við skelltum okkur í gufu með drykki sem fyrir hlaupið voru á bannlista. Svo fórum við saman í tívolí og borðuðum þar saman öll. Við maraþonhlaupararnir gengum ekkert þetta kvöld. Við svifum. Þessari ferð gleymi ég aldrei. Sennilega reyni ég þetta aftur. Félagar mínir stefna á Berlínamaraþon í haust. Mig langar með... hver veit?

 


Akureyri - Köben

Jebb, fer til Köben á morgun. Slaka á þar á laugardaginn, næ í rásnúmer og tilheyrandi út af hlaupinu og hitti Hálfdán og fjölskyldu og Björn og Önnu.

Svo er maraþonið á sunnudagsmorgun 9:30 (7:30 á íslenskum)

Ég set inn fréttir hvernig gekk, ég ætla mér að klára þetta með stolti.

Minn eini keppinautur er ég sjálfur.


30 km í dag

Fín vika að baki hjá mér.  Ég hljóp 20 km á sunnudag, svo 15 og 7 km. Svo fór ég 30 km í dag og varð það lengsti leggurinn sem ég fer í þessari þjálfun. Vikan gerir því 72 km. Ég rann þessa 30 km á 3:07 með smá stoppi heima þegar ég fyllti á brúsana. Annars skokkaði ég þetta á jöfnum hraða, kláraði 20 km á 2 tímum sléttum og var þar af leiðandi 1:07 með síðustu 10. Er bara nokkuð sprækur eftir. Drakk fullt af vatni og Powerade seinnihlutann á hlaupinu, gataði hægri hæl og er með blöðrur á 3 támJAnnars eru axlirnar aðallega að stríða mér, helv... vöðvabólga sem byggist upp á hlaupunum, þó er þetta að skána eftir að ég fór að halda höndum neðar og reyna að slaka á.

Með þessu áframhaldi er ég bjartsýnn á að klára þetta fyrsta maraþon mitt á 4:30. Samt setur strik í reikninginn og undirbúninginn að ég er að fara í vinnuferð til Munchen og Köben sem tekur 6 daga og ekki útséð hversu mikið ég get hlaupið í þeirri ferð.

Bless í bili

Maraþon í Köben!!!

Ekki er öll vitleysan eins!

 Björn Magnússon læknir settist hjá okkur á þorrablótinu og sagði við Tobbu vinkonu: "kemur þú með mér í maraþon í kaupmannahöfn þann 18. maí?"

"Nei!" sagði Tobba. "Gummi er örugglega til í það" sagði Tobba og benti á mig. Ég kinkaði kolli í gríni en vissi um leið að ég væri á leiðinni.

Ég hef reynt að þjálfa mig eftir bestu getu en... langvarandi kvefpestir, leiðinleg tíð og erill í nýju starfi hafa sett strik í reikninginn.

Ég pantaði flugfar í gær... aðra leiðina.

Ég reyni semsagt við maraþon og held í leiðinni upp á 1. árs skokkaraafmælið mitt.

marathon_2008.jpg

Ég verð í góðum félagsskap með Birni lækni og Hálfdáni vini mínum sem á þó nokkra sök á því að ég ætla að reyna við þessa áskorun.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá hlakka ég til.

 


Skák og mát!

Þekkið þið marga á mínum aldri (37) sem ekki kunna mannganginn í skák?

Chess


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband