Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Veðrið og volið!

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað? Allavega fer veðrið meira og meira í taugarnar á mér hér á þessu annars yndislega (gjaldþrota) landi. Ég er að hlaupa úti 4-5 sinnum í viku og það er alveg hending ef hitinn nær 10 stigum á Celsíus kvarða.

Mín yndislega eiginkona hlær alltaf þegar ég fer að bölsótast út af rokinu og rigningunni. Við áttum annars yndislegt kvöld (og nótt) með góðum vinum þegar Ívar Sæm varð fertugur 16. júní. Þá var veðrið yndislegt þó það rigndi aðeins og hitinn var sennilega undir 10. Lognið hló þó dátt eins og það gerir yfirleitt á sumarnóttum í Neskaupstað.

Kannski á þessi geðvonska mín dýpri rætur, lífið er jú ekki bara dans á rósum. Pabbi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem hann fær frábæra ummönnun en batahorfur virðast ekki góðar. Hann og mamma eru þó ótrúlega dugleg og við reynum að vera það líka. Það er engin ástæða til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Kraftaverk gerast á hverjum degi.

Ég hef reynt að forðast allt þunglyndi út af gjaldþroti þjóðarinnar, Ice Save skuldunum og alls þess neikvæða sem dynur á. Hjá Fjarðabyggð aukast skuldir um 2 milljarða út af hruninu, það er nett óþolandi. Ég hef ekki nennu í mér til að skoða bílalánið okkar eða húsnæðisskuldir. Örugglega hefur þetta rokið upp en í þessu tilviki er gott að búa út á landi og skulda lítið. Eftir því sem hrunið færist nær okkur þeim mun meiri tökum nær það á sálu okkar. Sennilega endar með því að ég fer út á svalir eitt kvöldið og öskra út yfir fjörðinn.... eins hátt og ég get. Kannski skrifa ég líka lag um ástandið og þá ætti ég að vera laus við þetta úr sálu minni. Það er ekkert betra en að öskra og semja lag. Það jafnast á við djúphreinsun.

Ég hlakka ógurlega til að hitta Maríu Bóel í dag en hún hefur dvalið í sumarbúðum á Eiðum síðan á mánudag. Eyrún mín er byrjuð að vinna hjá bænum, er að fara norður til Akureyrar á mánudag í fótboltaferð og til Reykjavíkur á þriðjudag á fund! Já, ég er ekki að skrifa um mig. Dóttir mín er að fara suður á fund!!! Hún sótti um og var tekin inn í Ungmennaráð SAFT. Flott hjá henni. Snemma beygist krókurinn.

Dætur mínar elska ég út af lífinu og fjölskylduna alla.

Svo skulum við muna það að lífið er alltof stutt til að vera í fýlu eða hatast við fólk. Lærum að fyrirgefa og hættum að mótmæla. því fyrr því betra. Ástandið lagast ekki fyrr en við lögumst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband