Færsluflokkur: Tónlist

Ferð án enda!

Heitir gamalt lag með okkur sem er sennilega okkar vinsælasta fyrr og síðar. Þetta var líka titill á safnplötu okkar sem kom út 2003 en er nú ófáanleg. Þetta er nokkuð lýsandi titill fyrir tilveru þessarar sveitar sem ég hef verið í síðan ég var 13 ára. Vinskapur okkar hefur alltaf verið númer 1 og tónlistinn fylgt með... Ekki ofsögum sagt að þetta sé svona saumaklúbbur (reyndar ekkert saumað) svo er þetta hrekkjalómafélag eins og fréttir síðustu daga bera með sér.

það var aldrei tilgangur að gabba aðdáendur okkar, síður en svo. Enda held ég og það sýndi sig að fæstir trúðu þessu en samt var eitthvað gruggugt við þetta allt. Ekki furða að sumir hafi verið hissa... ég var það.

Við félagarnir þökkum góðar kveðjur frá vinum og kunningjum sem sýnir okkur að enn er áhugi fyrir Súellen. Þetta verður okkur vonandi hvatning til að bretta upp ermarnar og skapa nýja tónlist... eða allavega hittast og...

Ég man eftir fjölda hrekkja sem við höfum staðið fyrir. T.d. sendi ég eitt sinn út fréttatilkynningu þar sem kom fram að hljómsveitin væri að fara í frí (sem var reyndar rétt) en ástæðan var sú að trommari sveitarinnar, Jóhann Geir Árnason, væri að fara í harmónikunám til Þýskalands!!! Ég gleymdi reyndar að segja Jóa frá þessu en hann fékk símtöl í kjölfarið frá fjölskyldunni sem hafði ekki hugmynd um námsför hans til Þýskalands:)

meira hér og í blöðum dagsins

http://www.visir.is/article/20071212/LIFID01/112120156


mbl.is Súellen gabbaði aðdáendur sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saklaus hrekkur

Jæja, það er allt búið að vera vitlaust frá því að ég setti inn færsluna hér að neðan um uppsögn mína úr Súellen. Allt sem kemur fram í færslunni er rétt. Þetta var hins vegar hrekkur sem félagar mínir gerðu mér en engin bjóst við því að þetta færi svona langt.

Ég trúði þessu ekki, svo trúði ég þessu, svo trúði ég þessu ekki og... þið vitið.

Svo skellti ég þessu inn á bloggsíðu mína til að knýja fram sannleikann sem kom fram. Aðallega til gamans og til að hrella félaga mína.

Þetta var alvöru hrekkur og ég var TEKINN!!!!

Þetta er geymt en ekki gleymt og bið ég alla afsökunar ef ég hef með þessari færslu valdið einhverjum hugarangri.

Sáttafundur er boðaður á næstunni og þá föllumst við félagarnir í faðma. Alveg eins og í Dallas hér í dennInLove

 

 


Rekinn úr Súellen

Já góðir hálsar, þá vitið þið það. Ég fékk sms frá félögum mínum aðfararnótt sunnudags þar sem mér var tilkynnt þetta. Ég var að syngja á balli á Fáskrúðsfirði og sá þetta í pásunni. Ég hefði hlegið ef það hefði verið 1. apríl en svo var ekki. Ég sendi sms til baka en fékk ekkert svar.

Ég hefði nú þegið það að vera boðaður á fund, til að ræða málin. Mér finnst ég nú eiga það skilið eftir 25 ára farsælt starf.

Maður kemur í manns stað... svona er lífið!


Stöðfríður og Stuðveig skemmta

Við Gunna vorum að fletta Austurlandi frá 1975. Þar eru þessar hljómsveitir auglýstar á dansleikjum í Egilsbúð. Kannast einhver við hverjir þetta voru? Frábær nöfn!

Svo er líka auglýst þyrluþjónusta á Seyðisfirði, þyrla fyrir 5 farþega. Skyldi Einar Bragi vita þetta?

Í lok mars 1975 er vegurinn um Oddsskarð opnaður en var þá búinn að vera lokaður frá því í desember. Svenni hélt uppi samgöngum á snjóbíl og svo var flogið til Neskaupstaðar. Ekki var búið að opna göngin.


Plötumslög á sólóplötum

Plötur

Hvers vegna eru tónlistarmenn mjög oft með mynd af sér framan á diskunum sínum? Ég fór reyndar milliveginn eins og sjá má. Á engri mynd inn í textabók er ég þekkjanlegur þar sem markmiðið með útgáfunni var ekki að verða þekkt andlit.

Ekki eru rithöfundar svona athyglissjúkir. Pælið í því ef það væri alltaf stór mynd framan á kápu bóka af höfundunum. það væri fáránlegt!


Popp og pólitík

... er baneitruð blanda.

Í góðri trú sótti ég um styrk til að halda tónleika í Fjarðabyggð. Tónleikana hélt ég og sé ekki eftir því.

Þetta hefur verið gert tortryggilegt vegna þess að ég er bæjarfulltrúi og meira að segja forseti bæjarstjórnar. Fjandmaður minn og yfirslúðrari Fjarðabyggðar sakaði mig um spillingu. Kom reyndar ekki á óvart því þessi maður virðist hata mig eins og pestina og hefur oft ritað um mig fjandsamlega pistla. Manninn þekki ég ekki neitt... og langar ekki að þekkja. Þessi sami maður hafði sennilega samband við fjölmiðla og margir blaðamenn hringdu í mig á síðasta föstudag. Einungis einn skrifaði frétt um þetta sem birtist í 24 stundum um  síðustu helgi. Aðrir sögðu þetta "Ekkifrétt".

Ekki þarf að taka fram að ég tek ekki ákvarðanir í bæjarkerfinu þegar mál snerta mig persónulega. Engin getur með rökum sakað mig um það, hvorki fyrr né síðar. 17 ár eru síðan ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund og eru til fundargerðir sem sanna mál mitt. Í Guðanna bænum finnið eitthvað frumlegra til að skrifa um mig. Ég hef verið heiðarlegur og unnið af heilindum í sveitarstjórn Neskaupstaðar, Fjarðabyggðar og Fjarðabyggðar (nýrri). Sá sem sannað getur annað er velkomið að stíga fram.

Umræðan á bæjarstjórnarfundinum í dag var svo grátbrosleg (Ég horfði á fundinn á netinu þar sem ég var í Reykjavík). Sjálfstæðismenn vörðu gjörðir síns manns í Menningarráði. Úr fundargerð Menningarráðs 25. október:

Menningarráð samþykkir með þremur atkvæðum að styrkja tónleikahaldið um 60.000. Þórður Vilberg er mótfallinn styrkveitingum vegna tónleikahalds.

Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessu á móti því að styrkja tónleikahald. Það eru slæmar fréttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu svo að snúa sig út úr þessu á fundinum og bættu við að þeir væru á móti því að styrkja tónleikahald með landsþekktum tónlistarmönnum sem væru að gefa út geisladiska. Þeir voru ekki á móti því að styrkja bæjarfulltrúa í menningarstússi, þetta tengdist á engan hátt Guðmundi R Gíslasyni sem slíkum.

Ég þakka hólið en vegna þess að störf mín að menningarmálum hafa verið gerð tortryggileg ætla ég ekki að sækja þennan styrk (tilkynnti reyndar formanni Menningarráðs það fyrir fundinn). Vonandi sækir einhver óþekktur listamaður um styrkinn sem er Sjálfstæðisflokknum þóknanlegur... bara alls ekki tónlistarmaður sem gefið hefur út disk.


Rokkveisla í kvöld

rock-n-rollNú eru vinir mínir í Brján að frumsýna í kvöld í Egilsbúð. Ég ætla að mæta ásamt gamla genginu sem oft hefur borið uppi þessar sýningar. Nú eru kynslóðaskipti og sýnir það styrk okkar hér í rokkinu. Hér er svo mikið af hljóðfæraleikurum og söngvurum að það hálfa væri nóg... fyrir stærra þorp:) Annars er aldrei  of mikið af tónlist, hún er svo yndisleg... oftast.

Ég birti svo lærða gagnrýni á sýninguna eftir helgi þar sem ég kem til með að rakka alla í mig sem standa sig ekki. Því á ég von á litlu rakki, en miklu rokki.

Gangi ykkur vel, kæru vinir!


Tónspil 20 ára

Pjetur Sævar Hallgrímsson á heiður skilið. Tími sérverslana út á landi er víðast hvað liðinn en Pjetur er rekinn áfram af óbilandi áhuga á tónlist. Hann er trommari og gerði garðinn frægan fyrr á árum með Amon Ra, Bumbunum og fl. Hann er einnig virkur félagi í BRJÁN og hefur trommað í ófáum uppákomum á vegum klúbbsins.

Tónspil er á margan hátt mögnuð búð. Úrvalið af tónlist er óvíða betra.  Þegar maður fer með gesti sína í Tónspil þá eru þeir alltaf gapandi yfir úrvalinu. Margir hafa þarna fundið fágæta gripi sem ekki fást í "stóru" búðunum fyrir sunnan,  enda er aðallega hugsað um að dæla þar út vinsælustu titlum hvers tíma. TónspilPjetur er með það vinsælasta en einnig tónlist sem er á jaðrinum og eflaust má halda því fram að Pjetur sé sjálfur með smekk sem er á jaðrinum... þess vegna er Tónspil svona flott búð. Afmælisveisla var svo haldin á síðasta laugardagskvöld þar sem Pjetur trommaði og margir stigu á stokk. Ég var upptekinn við tónleikahald og komst því miður ekki.

Til hamingju Pjetur!

 

Fyrir þá sem búa utan Austurlands má benda á heimasíðu Tónspils. Þar getið þið pantað fágæta diska. www.tonspil.is


Er líf eftir tónleikaferð?

Já, segi ég. Maður er ekki samur á eftir en lífið heldur áfram. Ég og Halli Reynis vorum í fanta formi og fengum góðar viðtökur. Þökk þeim sem mættu, svei þeim sem sátu heima. Halli kenndi mér á gítar og mér fór gríðarlega fram og nú er bara að halda áfram að æfa sig. Sérstaklega gaman var að flytja Súellen lögin í kassagítarútsetningum. Einungis góð lög þola það að vera flutt með kassagítar og raddböndum. Elísa, Kona, Ferð án enda og Svo blind voru á dagskránni hjá mér. Einnig flutti ég nýtt lag sem er vals sem ég samdi til Gunnu minnar. "Sennilega besta lag sem þú hefur samið" sagði Halli... takk fyrir það. Ég er þá í framför, he, he! MARTIN_HD28

Ég og Halli skokkuðum svo hringinn á Norðfirði á föstudaginn og fengum mínus 20 rokkstig fyrir það. Skokkuðum svo 8 kílómetra á sunnudaginn í roki og rigningu... þar með fuku af okkur öll rokkstig sem til voru.

Svo er Bubbi að koma á Norðfjörð að leita að söngvara. Það verður gaman að fylgjast með því. Nóg er af góðum söngvurum á Austurlandi. Nú er bara að mæta kæru söngvarar framtíðarinnar.

Eftir ræðu mína á Egilsstöðum um útlensku/íslensku böndin á Airwaves kviknaði hugmynd hjá Auði Hótelstjóra á Héraði sem gaman verður að vinna að. Íslenska innrásin verður vonandi að veruleika. Meira um það síðar.


Skiptir máli hvaðan við komum?

Auðvitað skiptir það máli. Ég hef oft velt þessu fyrir mér varðandi tónlist.

Mig langar að benda á frábæra grein í Mogganum í dag á bls. 46 eftir Ingveldi Geirsdóttur sem heitir Er sprengjuhöllin sveitó?

Megin inntak greinarinnar er að Sprengjuhöllin er töff... af því hún er skipuð sætum strákum úr Menntaskólanum í Hamrahlíð. Ef þeir væru frá Selfossi, Akranesi eða Egilsstöðum þætti þetta MJÖG hallærislegt. Miðbæjarrotta með trefil myndi aldrei viðurkenna þá. Ég held að þetta sé rétt.

Landsbyggðarbönd hafa alltaf sætt fordómum... hjá gagnrýnendum í Reykjavík. Þeir sem hafa reynt að skrifa tónlistarsöguna hafa líka átt erfitt með að fjalla um tónlist frá landsbyggðinni en þess í stað skrifað margar blaðsíður um bönd sem komu fram á örfáum tónleikum í Reykjavík... en voru frábær. Enn hefur ekki verið skrifuð poppsaga Íslands sem mark er á takandi, því miður. Væri ekki hægt að fá sagnfræðing í verkið með tónlistaráhuga?

Já, já, ég veit hvað þið hugsið... hann er bara með minnimáttarkennd... enda frá Neskaupstað... eins og Glúmur!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband