Færsluflokkur: Tónlist

Lennon lifir!

Lennon lifir!

Tónleikar Blús-, rokk og jazzklúbbsins á Nesi

í tilefni af 70 ára fæðingarafmæli John Lennon

Laugardagskvöldið 9. október kl. 22:00 í Egilsbúð Neskaupstað

Bestu lög Lennon og félaga flutt af hljómsveit og fjölda söngvara. Húsið opnar kl. 21:00. Miðaverð 2000 kr. 1500 fyrir Brján félaga. 

Söngvarar:

Valdimar Þór Alcoa starfsmaður

Marinó Gylfa Alcoa starfsmaður

Reynir Höskuldsson Alcoa starfsmaður

Guðmundur R. Gíslason framkvæmdastjóri

Karl Jóhann Síldarvinnslunni

Kári Hilmars Skyggni

Bjarni Tryggva Trúbador

Páll Björgvin bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Heiðrún Helga sjúkraþjálfari 

Hljómsveit: 

Guðmundur Höskuldsson Alcoa starfsmaður

Ágúst Ármann forstöðumaður

Jón Hilmar Tónlistarkennari

Viðar Guðmundsson Kennari

Marías B. kristjánsson Skólastjóri 


mbl.is Lennon minnst víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fréttum er þetta helst...

...hérna í Valsmýrinni.

Við María liggjum saman í klessu í stofusófanum. Hún nartar í pizzu frá því í gærkvöldi og horfir á barnaefnið. Ég er með tölvuna í fanginu og hamra inn helstu fréttir af okkur.

Ekki hefur Svínaflensan lagt okkur en stelpurnar hafa verið kvefaðar og sá sem þetta ritar hefur einnig steinlegið í kvefpest. Guðrún stendur þetta allt af sér enda hraustari en við til samans. Stebba Þorleifs genin eru ekkert kex!

Eyrún er að hanna kjól með vinkonum sínum sem þær ætla að setja í samkeppni í Atóm. þemað er "endurvinnsla" og verður þetta forvitnilegur kjóll svo ekki sé meira sagt. Eyrún er líka að fara að syngja með bekkjarfélögum sínum í söngleiknum Abbababb sem settur verður upp í Egilsbúð af 9. bekk Nesskóla og foreldrum. Ætli ég verði ekki í hlutverki doktorsins sem bassaleikari í bandinu. Það er áskorun í tvennum skilningi: Dr Gunni er skemmtilegur bassaleikari og ég... er ekki bassaleikari!!!!

María keypti sér rafmagnsgítar um daginn og er mjög áhugasöm um að gerast rokkari. Hún er að læra á píanó hjá Agli í tónskólanum og finnst það frábært. Ég lofaði að leiðbeina henni á gítarinn og mun gera það af veikum mætti en miklum áhuga. Hún er í 3. bekk og gengur vel í náminu. María Bóel er orkubolti sem helst vil hafa nóg að gera frá morgni til kvölds.

Eyrún Björg og María Bóel
Eyrún Björg og María Bóel

Guðrún er að kenna 1. bekk í Nesskóla þar sem margir snillingar eru að hefja skólagöngu sína. Þar á meðal eru tvíburar Villu og Svanbergs, demantarnir okkar Ólafía Ósk og Elmar Örn. Þau hafa frá því þau byrjuðu að tala kallað Gunnu "Diddu" eins og Villa gerði og gerir enn. Nú þurfa þau að kalla hana Gunnu eða Guðrúnu í skólanum og gengur það vel. Þau eru frábær og ekki laust við að Gunna sé stolt af því að fá að leiðbeina þeim frændsystkinum sínum að stíga fyrstu skrefin í náminu. Guðrún hefur einnig umsjón með uppsetningu 9. bekkjar á Abbababb þannig að það verður nóg að gera á næstunni.

Ég er að sjálfsögðu að stjórna og stýra Gámaþjónustu Austurlands sem telur um 30 starfsmenn sem allir nema tveir vinna í álverinu eða fyrir álverið. Þetta hefur verið mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf þar sem Alcoa krefst endurvinnslu eða endurnýtingu á öllu sem fellur til. Einnig erum við í ýmsum verkefnum s.s. iðnaðarþrifum, útflutningi, sérverkefnum og ráðgjöf. Ekkert er okkur óðviðkomandi. Samstarfsfólkið hjá Gámaþjónustunni er frábært og án þeirra væri ég löngu hættur. Starf mitt í bæjarstjórninni hefur minnkað eftir að ég hætti í bæjarráði. Það var kærkomið. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar sem verða í vor og hef ég tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér. Það er ekkert leyndarmál. Ég er búinn að vera í þessu í 20 ár, þ.a. 15 ár sem aðalfulltrúi í vor. Mér finnst ég vera búinn að standa vaktina nógu lengi. Nú mega aðrir eyða frítíma sínum í þetta vanþakkláta starf. Samt vil ég taka fram að mér hefur fundist þetta ótrúlega skemmtilegur tími og væri ég löngu hættur ef ég hefði ekki haft gaman af og talið mig vera að gera samfélagi mínu eitthvert gagn. Ekki var ég í þessu vegna launanna það er ljóst! Þau hafa þó skánað síðan ég byrjaði. Ég lofa því ekki að hætta í pólitík... til þess er ég of ungur (40 í febrúar) og ég hef ennþá brennandi áhuga á samfélagsmálum og vil heimabyggðinni allt hið besta.

Ég er og verð landsbyggðarmaður og það er mín eina sanna vitrun í pólitík.

Mér gengur illa að finna mig innan flokkakerfisins. Ég hef stutt Samfylkinguna og var einhvers staðar á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar. En svei mér þá... ég efast um að ég myndi kjósa Samfylkinguna í dag. Allavega líst mér ekki á skattaáform þeirra sem verða til þess eins að lengja í kreppunni og stöðva alla uppbyggingu og þróun. Það getur ekki verið skynsamlegt að slátra eða misþyrma mjólkurkúnni eða éta meginhlutann af útsæðinu

Við Gunna erum að fara að skemmta okkur í kvöld. Við erum að fara á Rokkveisluna í Egilsbúð. Um er að ræða upprifjun á 20 ára sögu Rokkveislunnar. Það verður gaman af því að vera í salnum því í flestum þessara sýninga höfum við Gunna tekið þátt. Hún með dansana og ég í söng. Svo rákum Egilsbúð í 9 ár þannig að þetta er okkar "baby" í mörgum skilningi. Nú erum við í fríi og ætlum okkur að njóta. Óska ég flytjendum góðs gengis.

Ekki fleira í bili.

Njótum dagsins, morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.


Klárlega snillingur!

þeir sem efast um hæfileika Bjarkar eru annað hvort skrýtnir eða fordómafullir. Ekki finnst mér allt hennar efni skemmtilegt en klárlega er hún söngkona sem á engan sinn líka og tónskáld sem fer sínar eigin leiðir. Ef Björk hefði ákveðið að fara auðveldu leiðina og syngja auðmeltanleg popplög væri hún skör neðar og sennilega ekki heimsfræg.

Björk vill Íslandi vel, um það efast ég ekki um. Hún var á móti virkjun og álveri hér fyrir austan en ekki dettur mér til hugar að bera kala til hennar vegna þess. Hún má hafa sína skoðun. Hún fær líka stærri plús en aðrir andstæðingar atvinnuuppbyggingar því hún hefur reynt að benda á aðrar leiðir og hefur staðið fyrir ráðstefnu og vinnuhópum ef ég man rétt. Björk er hugmyndarík með einsdæmum og hver veit nema eitthvað komi út úr þessari vinnu. Mér finnst vanta fréttir af þessari vinnu, hvar er þetta verkefni á vegi statt? Ætli Björk geti ekki lagt peninga í ýmislegt ef hún hefur áhuga? Kannski er hún eini ríki Íslendingurinn sem tapaði ekki aleigunni í kreppunni? Hvað veit maður svo sem? Allavega hef ég ekki heyrt um gjaldþrot hennar eins og Baugs, Samsonar og Bjórgólfs.

Við sem vorum fylgjandi virkjun og álveri fyrir austan megum heldur ekki vera svo meðvirk að við samþykkjum virkjanir og stóriðju út um allt. Öll viljum við jú vernda náttúruna líka... er það ekki?

Mikið væri nú gaman ef Björk gæti komið með okkur hér fyrir austan í hugmyndavinnu því við viljum halda áfram að byggja upp Austurland sem okkur þykir svo vænt um.

Svo væri upplagt fyrir hana að halda tónleika í Fjarðabyggðarhöllinni. Hefur hún komið fram út á landi síðan hún söng á Uxa hér um árið?

Svo finnst mér svo gaman að tengja farsælt fólk við Norðfjörð. (Án ábyrgðar-held ég muni þetta rétt) Fósturpabbi Bjarkar til margra ára átti afa á Norðfirði sem hét Jósef, Jobbi gamli. Hann er þá fóstur-langafi Bjarkar. Húsið hans er enn í eigu fjölskyldunnar og ég var alltaf að vona að Björk kæmi og tæki sumarfrí sitt hér á Norðfirði. Hver veit? Hún kom jú einu sinni á Neistaflug og sigldi með Fjarðaferðum. Munið þið eftir því?


mbl.is Björk fær Schola cantorum til liðs við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rokkveisla á Broadway 13. febrúar

Rokkveisla austfirðinga á Broadway 13. febrúar

-Frumsýning í Reykjavík þetta árið.

 Stórhljómsveit Ágústar Ármanns á Broadway 2004

Svona leit bandið út á Broadway 2004 

Tónlistarveisla austfirðinga í Reykjavík er að þessu sinni helguð gamla rokkinu frá 1950-1964. Rokkveisla síðasta árs á Norðfirði var jólasýning með jólalögum og því er þessi sýning sérstaklega sett upp fyrir brottflutta og gesti þeirra sem hafa jafnan fjölmennt á Broadway. Það er stórhljómsveit Ágústar Ármanns sem sér um undirleik í sýningunni. Hana skipa auk Ágústar Ármanns, Jón Hilmar Kárason, Marías B. Kristjánsson, Viðar Guðmundsson, Helgi Georgsson og Einar Bragi Bragason, ásamt brottfluttum tónlistarmönnum að austan. 

Söngvarar í sýningunni eru: Smári Geirsson, Guðmundur R. Gíslason, Hlynur Benediktsson, Bjarni Freyr Ágústsson , Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir, Stella Steinþórsdóttir, Sigurjón Egilsson, Jóhanna Seljan, Sigfús Ó Guðmundsson og Soffía Björgúlfsdóttir. 

 Kynnar í sýningunni eru Ágúst Ármann og Smári Geirsson. Dansleik eftir sýningu sjá austfirðingar um og hljómsveitin MONO með Hlyn Ben í broddi fylkingar. Boðið er upp á veislumáltíð fyrir sýningu.Einnig er hægt að kaupa miða sérstaklega á sýningu og dansleikinn.Miðapantanir á Broadway í í síma 533-1100.

Sveitaball, já ekkert jafnast á við sveitaball!

Munið að kíkja við í Miðbæ annað kvöld í hesthúsinu hjá hr. Guðröði Hákonarsyni (stóri bróðir varaþingmannsins X-B sem vinnur í bankanum)

Þar verðum við félagarnir úr Elítunni (Alþjóðlega bandið Hnakkarnir, Brján bandið......) að spila fyrir dansi frá c.a. 23-03. Aðgangur ókeypis og snyrtilegur klæðnaður vinsamlegast afþakkaður. Léttar veitingar í boði hvers og eins.

Fyrir þá sem vilja taka kvöldið snemma mæli ég með tónleikum í Blúskjallaranum þar sem Þröstur vinur minn verður með kommbakk ársins. Fleiri tónlistarmenn koma fram.

Fyrir þá sem eru fyrir sunnan mæli ég með Austfirðingaballi á Players sama kvöld. Rokkabillýbandið, Vax og Bjartmar. Það getur ekki klikkað.

Semsagt, það hefur engin afsökun fyrir því að láta sér leiðast annað kvöld.... sem er gott!


Dægurlagatextar

Alltaf er nú gaman að heyra nýja íslenska tónlist. Ekki er ég alveg saklaus af því að hafa sungið texta sem eldast illa en hef það mér til málsbóta að ég var ungur og þetta var tíðarandinn... og þið vitið. "Símon er lasinn" er kannski ekki texti sem ég myndi senda frá mér í dag þó góður sé. Ég má til með að deila með ykkur tveimur línum sem rokk- og poppkóngar syngja þessa dagana. Þeir eru hoknir af reynslu og hafa ekkert sér til málsbóta.

Þessi lína hér væri í lagi ef Lenocie syngi hana en svo er ekki:

"Á diskóbar við dönsuðum frá sirka tólf til sjö"

Svo eru enskuslettur misfallegar í textum, sérstaklega frá predikara íslenskunnar:

"mundu þá að drottinn gædar þig gegnum daginn"

Ég varð bara að minnast á þetta. Ég veit að Páll Óskar og Bubbi fyrirgefa.

 

"Þar sem lognið hlær svo dátt"

....og þokan leikur mann svo grátt

Njótið dagsins!


Minningartónleikar um Höskuld Stefánsson

Ég hef ekki í langan tíma verið jafn ánægður með nokkra tónleika.

Tónlistarmennirnir voru hver öðrum betri og minning Höskuldar var heiðruð á mjög vandaðan hátt.

Það var Tónlistarskóli Neskaupstaðar sem hafði veg og vanda að undirbúningi tónleikanna. Enn ein skrautfjöðrin í hatt Agga, Jóns Hilmars og Egils.

Það muna allir Norðfirðingar og margir á Austurlandi eftir Höskuldi. Hann var þó kannski þekktastur fyrir að vera húsgagnasali, fyrst man ég eftir Höskuldi á Norðfirði með bókabúð og húsgagnaverslun. Svo var Höskuldur svo framsýnn að hann byggði stóra og flotta verslun á Reyðarfirði og rak hana í mörg ár þangað til að hann seldi hana Svanbirni Stefánssyni sem nú rekur búðina.

Kynni mín af Höskuldi voru góð. Hann var skemmtilegur karakter og eru til margar góðar sögur af Höskuldi um orðhnyttni hans og húmor sem var nokkuð sérstakur. Það sameinaði okkur Höskuld að báðir spiluðum við á básúnu sem ungir menn og báðir veittum við Egilsbúð forstöðu um árabil. Höskuldi þótti vænt um Egilsbúð enda er það hús sérstaklega gott tónleikahús sem sannaðist í gær. Tónlist eins og flutt var á tónleikunum í gær, nánast öll órafmögnuð, hljómaði vel um allan sal. Það er öfugmælavísa að sumir telji að selja eigi félagsheimilin, sem eru okkar menningarhús, á meðan önnur sveitarfélög berjast í bökkum við að byggja slík hús. Egilsbúð er menningarhús Norðfirðinga, punktur. Ég er þess viss að hvergi annars staðar hefði Höskuldur vilja halda svona tónleika.

Þegar Súellen gaf út fyrstu plötuna og Símon er lasinn hljómaði á öldum ljósvakans hitti ég Höskuld. "Já þetta er bara svolítið sniðugt þetta lag þarna um þennan veika, já bara nokkuð sniðugt" Sagði Höskuldur. Hann spurði mig um hljómsveitarmeðlimi og gat hann tengt okkur alla við tónlistarmenn sem hann þekkti og hafði jafnvel spilað með á sínum yngri árum. "Svo er gítarleikarinn okkar frá Seyðisfirði en býr nú á Egilsstöðum, hann heitir Tómas Tómasson" sagði ég. Höskuldur hugsaði sig um í smá stund og átti væntanlega enga ættartengingu á þennan mann við tónlistarmenn á Norðfirði. "Tómas! Ha, ha, hann á gott rúm!" sagði Höskuldur svo undirtók í búðinni og málið var útrætt.

Höskuldur var kannski ekki mjög hrifinn af popptónlist og spurði hvort við spiluðum ekki jazz. Ég kvað lítið um það. "En kunnið þið ekki improvisasjon?" Ég var nú hræddur um það og sagði að við værum alltaf að leika okkur og lögin væru nánast aldrei flutt eins. Það líkaði honum. Höskuldur var örugglega sammála því sem einhver vitur maður sagði. Það er til einskis að lesa nótur ef tónlistin kviknar ekki í hjartanu. Til gamans má geta þess að systkinin þrjú sem skipa Bloodgroup eru barnabörn Höskuldar. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni sannast á syni Höskuldar honum Stefáni Ragnari sem er þverflautuleikari á heimsmælikvarða, ef ég veit rétt, og svo á Bloodgroup. Ég minni á tónleika með Bloodgroup sem verða í Egilsbúð á sjómannadaginn.

Ég heyrði Höskuld oft spila. Hann spilaði með hjartanu. Hann spilaði dinner fyrir mig í Egilsbúð eftir að hann hafði veikst en gerði það listavel. Svo mikil virðing var borin fyrir Höskuldi að það mátti heyra saumnál detta á meðan hann spilaði. Þannig að dinnertónlistin var í raun tónleikar Höskuldar. Ég man líka eftir honum á þjóðlagaveislu sem haldin var í Egilsbúð í kringum 1990 og svo kom Höskuldur einu sinni suður með okkur í Brján og spilaði á fína flygilinn á Broadway og var að sjálfsögðu vel tekið.

Ég óska fjölskyldu Höskuldar og Tónskóla Neskaupstaðar til hamingju með frábæra tónleika. Takk fyrir mig. 


Draupnir slær í gegn!

Kíkið á þetta. Draupnir Rúnar vinur minn fer á kostum í þessu myndbandi.

http://www.nova.is/Pages/forsida.aspx


Á ekki að mæta?

Austfirðingaball

Forvitnileg umræða

Ég tjáði mig örlítið um Rás 2 hjá bloggvini mínum og þá birtist Einar Ágúst... kíkið á þetta

http://ingvarvalgeirs.blog.is/blog/ingvarvalgeirs/entry/438003/#comment1058348

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband