Í fréttum er þetta helst...

...hérna í Valsmýrinni.

Við María liggjum saman í klessu í stofusófanum. Hún nartar í pizzu frá því í gærkvöldi og horfir á barnaefnið. Ég er með tölvuna í fanginu og hamra inn helstu fréttir af okkur.

Ekki hefur Svínaflensan lagt okkur en stelpurnar hafa verið kvefaðar og sá sem þetta ritar hefur einnig steinlegið í kvefpest. Guðrún stendur þetta allt af sér enda hraustari en við til samans. Stebba Þorleifs genin eru ekkert kex!

Eyrún er að hanna kjól með vinkonum sínum sem þær ætla að setja í samkeppni í Atóm. þemað er "endurvinnsla" og verður þetta forvitnilegur kjóll svo ekki sé meira sagt. Eyrún er líka að fara að syngja með bekkjarfélögum sínum í söngleiknum Abbababb sem settur verður upp í Egilsbúð af 9. bekk Nesskóla og foreldrum. Ætli ég verði ekki í hlutverki doktorsins sem bassaleikari í bandinu. Það er áskorun í tvennum skilningi: Dr Gunni er skemmtilegur bassaleikari og ég... er ekki bassaleikari!!!!

María keypti sér rafmagnsgítar um daginn og er mjög áhugasöm um að gerast rokkari. Hún er að læra á píanó hjá Agli í tónskólanum og finnst það frábært. Ég lofaði að leiðbeina henni á gítarinn og mun gera það af veikum mætti en miklum áhuga. Hún er í 3. bekk og gengur vel í náminu. María Bóel er orkubolti sem helst vil hafa nóg að gera frá morgni til kvölds.

Eyrún Björg og María Bóel
Eyrún Björg og María Bóel

Guðrún er að kenna 1. bekk í Nesskóla þar sem margir snillingar eru að hefja skólagöngu sína. Þar á meðal eru tvíburar Villu og Svanbergs, demantarnir okkar Ólafía Ósk og Elmar Örn. Þau hafa frá því þau byrjuðu að tala kallað Gunnu "Diddu" eins og Villa gerði og gerir enn. Nú þurfa þau að kalla hana Gunnu eða Guðrúnu í skólanum og gengur það vel. Þau eru frábær og ekki laust við að Gunna sé stolt af því að fá að leiðbeina þeim frændsystkinum sínum að stíga fyrstu skrefin í náminu. Guðrún hefur einnig umsjón með uppsetningu 9. bekkjar á Abbababb þannig að það verður nóg að gera á næstunni.

Ég er að sjálfsögðu að stjórna og stýra Gámaþjónustu Austurlands sem telur um 30 starfsmenn sem allir nema tveir vinna í álverinu eða fyrir álverið. Þetta hefur verið mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf þar sem Alcoa krefst endurvinnslu eða endurnýtingu á öllu sem fellur til. Einnig erum við í ýmsum verkefnum s.s. iðnaðarþrifum, útflutningi, sérverkefnum og ráðgjöf. Ekkert er okkur óðviðkomandi. Samstarfsfólkið hjá Gámaþjónustunni er frábært og án þeirra væri ég löngu hættur. Starf mitt í bæjarstjórninni hefur minnkað eftir að ég hætti í bæjarráði. Það var kærkomið. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar sem verða í vor og hef ég tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér. Það er ekkert leyndarmál. Ég er búinn að vera í þessu í 20 ár, þ.a. 15 ár sem aðalfulltrúi í vor. Mér finnst ég vera búinn að standa vaktina nógu lengi. Nú mega aðrir eyða frítíma sínum í þetta vanþakkláta starf. Samt vil ég taka fram að mér hefur fundist þetta ótrúlega skemmtilegur tími og væri ég löngu hættur ef ég hefði ekki haft gaman af og talið mig vera að gera samfélagi mínu eitthvert gagn. Ekki var ég í þessu vegna launanna það er ljóst! Þau hafa þó skánað síðan ég byrjaði. Ég lofa því ekki að hætta í pólitík... til þess er ég of ungur (40 í febrúar) og ég hef ennþá brennandi áhuga á samfélagsmálum og vil heimabyggðinni allt hið besta.

Ég er og verð landsbyggðarmaður og það er mín eina sanna vitrun í pólitík.

Mér gengur illa að finna mig innan flokkakerfisins. Ég hef stutt Samfylkinguna og var einhvers staðar á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar. En svei mér þá... ég efast um að ég myndi kjósa Samfylkinguna í dag. Allavega líst mér ekki á skattaáform þeirra sem verða til þess eins að lengja í kreppunni og stöðva alla uppbyggingu og þróun. Það getur ekki verið skynsamlegt að slátra eða misþyrma mjólkurkúnni eða éta meginhlutann af útsæðinu

Við Gunna erum að fara að skemmta okkur í kvöld. Við erum að fara á Rokkveisluna í Egilsbúð. Um er að ræða upprifjun á 20 ára sögu Rokkveislunnar. Það verður gaman af því að vera í salnum því í flestum þessara sýninga höfum við Gunna tekið þátt. Hún með dansana og ég í söng. Svo rákum Egilsbúð í 9 ár þannig að þetta er okkar "baby" í mörgum skilningi. Nú erum við í fríi og ætlum okkur að njóta. Óska ég flytjendum góðs gengis.

Ekki fleira í bili.

Njótum dagsins, morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Takk fyrir þessa lesningu. Þóttist vita að þú ætlaðir að hætta sem bæjarfulltrúi í vor og harma það. En ég veit að þú ert ekki hættur í pólitík. Get tekið undir þér með Samfylkinguna, myndi ekki kjósa hana ef kjósa ætti nú. En þá kemur upp spurningin, hvað á að kjósa. Spillingaflokkana sem komu okkur í þetta allsherjar klandur, fjórmenningana sem þegar eru sundraðir, skila auðu?

Stillum upp sérstökum Norðfjarðarlista og reynum að stemma stigu við þetta Reyðarfjarðardekur. Þett gengur svo langt að í auglýsingum og öðru sem fram kemur varðandi sveitafélagið Fjarðabyggð að engar myndir eru frá Neskaupstað. Hver stjórnar þessu?

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 1.11.2009 kl. 10:14

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Sæll Guðmundur.

Ég verð nú að segja að ýmislegt sem heyrist í hálfkveðnum vísum bendir til að svokölluð byggðastefna eigi undir högg að sækja þessa dagana. Ég hef það á tilfinningunni að þar sé meira um að kennna áhrifum embættismanna í skrifstofum í Reykjavík en stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Þetta með orkuskattana þekki ég ekki svo vel, en það mál virtist kynnt í fjárlögum án þess að vera útfært og ég ætla bara að vona að vanhugsuð skattlagning renni ekki í gegn, án þess að hlustað sé á athugasemdir, eins og þær sem komið hafa frá bæjarstjórninni í Fjarðabyggð. 

Annars þakka ég þér fyrir ágætt blogg og bið að heilsa þér.

Aths; Hversu langt er milli Seyðisfjarðar og Neskaupstaðar aftur? (Ég er að tala um loftlínu).

Jón Halldór Guðmundsson, 3.11.2009 kl. 21:27

3 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Sæl bæði tvö. Það er ágætt að vera frjáls og engum háður. Allavega lofa ég Guði fyrir það að vera bæjarfulltrúi Fjarðalistans í staðinn fyrir Samfylkingar. Annars vona ég að þessar útfærslur verði skárri en lagt var upp með og ég tek undir það með þér Jón Halldór að embættismenn ráða alltof miklu, bæði hjá ríkinu og einstaka sveitarfélögum... hmmm nefni engin nöfn. það væri til bóta að hafa sveitarstjórnarmenn á launum.

Elma! Við þurfum að fara að huga að bæjarstjórnarkosningum.

Ég veit ekki hve langt er á milli Seyðis og Nesk. í mínum huga eru bara tvö fjöll sem þarf að bora:-)

kv. Gummi

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 6.11.2009 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband