ÓÓÓsammála!

Hún hefur ekki þvælst um bæinn nema hún hafi verið með óráði. Þetta var þræl vel merkt og starfsfólk við öll gatnamót. Hún hefur einfaldlega ofgert sér. Það hélt ég að fólk með reynslu lenti ekki í. Ég er reynslulaus en vissi þó að ég þyrfti að drekka mikið á hverri vatnsstöð og voru þær nógu margar að mínu mati. Ég skemmti mér konunglega í þessu hlaupi og það var ekki síst að þakka frábæru starfsfólki sem hvatti okkur óspart.

Þó þetta hafi klúðrast hjá konunni finnst mér ósanngjarnt hjá henni að kenna skipulagi um eigin mistök.


mbl.is Ósátt við skipulag hlaupsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært hlaup! Ég komst óstuddur í mark:-)

Ég hljóp þetta hlaup og var bara að koma heim til Neskaupstaðar.

Ég er sammála þessari gagnrýni. Til að fá verðlaun verða menn að komast hjálparlaust í mark, það segir sig sjálft.

Mér fannst hlaupið vel skipulagt, starfsfólkið á drykkjarstöðvunum var skemmtilegt og hjálplegt og öll umgjörð var til sóma að mínu mati. Reyndar var óheppilegt að hafa þessa löngu brekku en það var nauðsyn til að geta endað á leikvanginum. Ég legg til að næst þegar maraþon verður á Akureyri, sem ég vona að verði á næsta ári, verði leiðinni breytt eilítið svo ekki þurfi að enda á þessari brekku. Veðrið var náttúrulega geggjað, í raun var allt of mikil sól og fullheitt. Þess vegna voru margir frekar slæptir í lokin og ekki hjálpaði brekkan til. Mér fannst þó verst að vera með vindinn í fangið síðustu 16 kílómetrana frá Hrafnagili út í bæ. Þetta kalla Akureyringar hafgolu:-) en þetta var á köflum nokkuð strangur vindur.

Þetta var annað maraþon mitt á ævinni og ég bætti mig um 18 mínútur frá því í fyrra og er sáttur við tímann sem Garmin GPS úrið mitt sýndi en ekki alveg sáttur við tímann sem hlaupshaldarar settu upp. Ég sá villur í úrslitunum á landsmótssíðunni en ég vona að það verði leiðrétt þegar úrslitin verða birt á hlaup.is.

Ég vil þakka fyrir skemmtilegt hlaup og vonast til að Akureyringar geri Akureyrarmaraþon að árvissum viðburði.


mbl.is Deilt um úrslit í maraþoni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið og volið!

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað? Allavega fer veðrið meira og meira í taugarnar á mér hér á þessu annars yndislega (gjaldþrota) landi. Ég er að hlaupa úti 4-5 sinnum í viku og það er alveg hending ef hitinn nær 10 stigum á Celsíus kvarða.

Mín yndislega eiginkona hlær alltaf þegar ég fer að bölsótast út af rokinu og rigningunni. Við áttum annars yndislegt kvöld (og nótt) með góðum vinum þegar Ívar Sæm varð fertugur 16. júní. Þá var veðrið yndislegt þó það rigndi aðeins og hitinn var sennilega undir 10. Lognið hló þó dátt eins og það gerir yfirleitt á sumarnóttum í Neskaupstað.

Kannski á þessi geðvonska mín dýpri rætur, lífið er jú ekki bara dans á rósum. Pabbi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem hann fær frábæra ummönnun en batahorfur virðast ekki góðar. Hann og mamma eru þó ótrúlega dugleg og við reynum að vera það líka. Það er engin ástæða til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Kraftaverk gerast á hverjum degi.

Ég hef reynt að forðast allt þunglyndi út af gjaldþroti þjóðarinnar, Ice Save skuldunum og alls þess neikvæða sem dynur á. Hjá Fjarðabyggð aukast skuldir um 2 milljarða út af hruninu, það er nett óþolandi. Ég hef ekki nennu í mér til að skoða bílalánið okkar eða húsnæðisskuldir. Örugglega hefur þetta rokið upp en í þessu tilviki er gott að búa út á landi og skulda lítið. Eftir því sem hrunið færist nær okkur þeim mun meiri tökum nær það á sálu okkar. Sennilega endar með því að ég fer út á svalir eitt kvöldið og öskra út yfir fjörðinn.... eins hátt og ég get. Kannski skrifa ég líka lag um ástandið og þá ætti ég að vera laus við þetta úr sálu minni. Það er ekkert betra en að öskra og semja lag. Það jafnast á við djúphreinsun.

Ég hlakka ógurlega til að hitta Maríu Bóel í dag en hún hefur dvalið í sumarbúðum á Eiðum síðan á mánudag. Eyrún mín er byrjuð að vinna hjá bænum, er að fara norður til Akureyrar á mánudag í fótboltaferð og til Reykjavíkur á þriðjudag á fund! Já, ég er ekki að skrifa um mig. Dóttir mín er að fara suður á fund!!! Hún sótti um og var tekin inn í Ungmennaráð SAFT. Flott hjá henni. Snemma beygist krókurinn.

Dætur mínar elska ég út af lífinu og fjölskylduna alla.

Svo skulum við muna það að lífið er alltof stutt til að vera í fýlu eða hatast við fólk. Lærum að fyrirgefa og hættum að mótmæla. því fyrr því betra. Ástandið lagast ekki fyrr en við lögumst.

 


Jæja!

Hvernig væri nú að fara að blogga aftur svona til tilbreytingar? Mikil vinna, faðmur fjölskyldunnar, ferming og að sjálfsögðu Facebook hefur höggið verulegt skarð í bloggferilinn, ef feril skyldi kalla. Ekki það að mig dreymi um að verða frægur bloggari... er það annars hægt? Jú, sennilega... allavega Jens Guð!

Annars er af nógu að taka, mikið um að vera í bæjarráði, endurskoðun fjárhagsáætlunar sem er mjög erfið, snjóflóðavarnir að skríða af stað í Neskaupstað, læknamálið á Eskifirði ekki til lykta leitt... því miður fyrir alla aðila. Ég ætla ekki að tjá mig um það fyrr en öll kurl eru komin til grafar en mikið er ég hugsi.

Þangað til næst, Guð blessi ykkur!


Veturinn er tíminn.

Það er búið að vera yndislegt veður til útivistar hér fyrir austan.

Fjölskyldan hefur farið töluvert á skíði. María Bóel er að æfa skíði og er líka orðin nokkuð lunkin á bretti. Svo keyptum við okkur "nýjan" snjósleða sem hefur runnið ljúft með okkur upp á fjöll.

Bikarmót var í Oddsskarði um helgina þar sem við Gunna unnum við mótið á laugardegi. Veðrið var frábært og sennilega eru allir gestir Oddsskarðsins rjóðir í vanga eftir helgina.

Hér er ein mynd tekin niður í Hellisfjörð. Reyndar tekin á gsm síma. Maður gleymir alltaf myndavélinni. Fleiri myndir eru í albúminu "Veturinn 2009".

Hellisfjörður, skuggi af mér og Eyrúnu


Maraþon á landsmóti í sumar

Nú er ég loksins búinn að finna markmið... eða öllu heldur Jói Tryggva sem gaukaði þessu að mér.

Ég ætlaði reyndar bara að hlaupa erlendis eins og ég gerði með Hálfdáni og Birni í fyrra en þið vitið, gengið og allt þetta vesen setur strik í reikninginn. Reykjavíkurmaraþon hentar mér ekki, tímasetningin er þannig. Maður á að njóta sumarsins, það er Neistaflug, pæjumót, hjólhýsaferðir, grill og öl sem því fylgir. Því er formið ekki upp á það besta í ágúst.

Landsmót UMFí verður haldið á Akureyri í júlí og í fyrsta skipti verður keppt í maraþonhlaupi. Þetta verður einnig fyrsta maraþonhlaupið í Eyjafirði. Hlaupið fer líklega fram laugardaginn 11. júlí fyrir hádegi. Þá reyni ég að nálgast tímann 4 klukkustundir en í Kaupmannahöfn hljóp ég á 4:17.

þetta er verðugt og skemmtilegt markmið.

Hér með auglýsi ég eftir góðu fólki til að slást í för með okkur Jóa Tryggva. Það er ekki of seint að byrja. 4 mánuðir til stefnu.

 Þá er ég búinn að opinbera markmiðið og setja á mig pressu.

Nú verður ekki aftur snúið.

"Run to the hill, run for you life"


Long time no blog!

Eitthvað er maður nú latur við að blogga þessa dagana.

Ekki lofa ég bót og betrun, best að segja sem minnst.

Dagurinn í gær var ótrúlegur:

-ÉG gleymdi símanum heima (35 km)

-Tölvan varð rafmagnslaus á bæjarráðsfundi, neitaði að hlaða sig og ég varð sambandslaus við umheiminn.

-Tölvutengingin á skrifstofunni virkaði ekki eftir hádegi.

-Bókun mín í flug klúðraðist og svo var orðið fullt í vélina þegar það uppgötvaðist.

-Eyrún dóttir mín fór að baka... en það voru plastílát í bakaraofninum sem hún vissi ekki af. Það fór þó vel og varð ekki teljandi tjón.

 

Annars er bara gaman að fylgjast með prófkjörum flokkanna. Ég var ekki sáttur við prófkjör Samfylkingar í NA-kjördæmi en maður jafnar sig á því. Einar Már átti betra skilið að mínu mati.

Tryggvi Þór er í bölvuðum vandræðum. Hann hefur kannski ekki gert neitt ólöglegt en vilja kjósendur menn sem tóku 300 milljóna lán sem ekki þurfti að standa skil á? Þetta var eins og með aðra kaupréttarsamninga. Möguleiki var á að græða og græða mikið en engin hætta á að tapa. Þetta tíðkaðist þá en nú eru breyttir tímar. Einn sveitungi okkar Tryggva sagði jafn líklegt að Tryggvi væri með flekklausa fortíð og að finna hreina mey í hóruhúsi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sjálfstæðismenn velja sitt fólk og verður forvitnilegt að sjá hvernig Tryggva gengur. Hann verður örugglega góður þingmaður ef hann fær til þess stuðning.

Þangað til næst.

Góðar stundir.


Kraftaverk? Grein í Morgunblaðinu í dag 19. febrúar 2009

Kraftaverk? 

Margt hefur verið skeggrætt um áhrif íslensks áliðnaðar á efnahagslífið undanfarið og hafa andstæðingar atvinnuuppbyggingar á sviði álframleiðslu gjarnan verið þar fremstir í flokki. Út frá mismunandi forsendum hafa menn komist að mjög mismunandi niðurstöðu, allt frá því að efnahagsleg áhrif íslensks áliðnaðar séu nánast engin, upp í að þau séu svo mikil að Íslendingar séu í stórhættu af því að „setja öll eggin í sömu körfu“.

 

Því hefur jafnvel verið haldið fram að íslensk álver skapi nánast engin störf í landinu. Ástæðan sé sú að hefði uppbygging í áliðnaði ekki komið, hefði það fólk sem nú hefur atvinnu af því að framleiða ál til útflutnings, einfaldlega gert eitthvað annað. Í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði starfa 450 manns. Á álverslóðinni starfa auk þess 250-300 verktakar við margvísleg störf fyrir álverið. Þetta eru samanlagt nær 750 störf. Að auki hafa bæst við á Austurlandi fjölmörg störf sem beinlínis má rekja til framkvæmdanna hér eystra, auk starfa annars staðar á landinu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að efnahagsleg áhrif álversins í Reyðarfirði eru mikil. Það er mikilvæg ný kjölfesta í atvinnumálum fjórðungsins og hafi einhverntíma verið þörf fyrir styrkar stoðir í íslensku atvinnulífi er það núna, þegar um fjórtán þúsund manns eru komnir á atvinnuleysisskrá og fer fjölgandi.

 Íbúum í Fjarðabyggð fjölgar um 19%

Á árunum 1990 til 2002 fækkaði íbúum á Mið-Austurlandi um 1200 manns vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum, eða um tæp 13%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 13%. Þetta svarar til þess að allir íbúar Eskifjarðar hefðu flutt burt. Á sama tíma og álverið var í byggingu töpuðust um 300 störf í sjávarútvegi í Fjarðabyggð. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafa meðallaun á landsbyggðinni þrátt fyrir það verið hæst á Austurlandi frá árinu 2002, en þá voru komin upp áform um að fara í virkjunar- og álversframkvæmdir þar. Ný störf tengd starfsemi álversins hafa orðið til þess að fjölskyldur sem höfðu flutt burt hafa fengið störf við hæfi í heimabyggð og snúið til baka. Ef borinn er saman fjöldi íbúa í Fjarðabyggð árið 2002 og árið 2008 er fjölgunin um 740 manns eða 19%. Við núverandi aðstæður, þegar atvinnuleysi fer vaxandi, er hægt að gera sér í hugarlund hvernig atvinnuástandið væri í Fjarðabyggð hefði bygging álversins ekki komið til.

 Aukin umsvif annarra fyrirtækja

Fram hefur komið að fyrir utan kaup á raforku, hafi Alcoa Fjarðaál keypt ýmsa þjónustu á Íslandi fyrir níu og hálfan milljarð króna árið 2008. Stór hluti þessarar upphæðar hefur runnið til atvinnustarfsemi á Austurlandi. Hér starfa skipafélög, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki, vélsmiðjur, rafverktakar og fjölmörg önnur fyrirtæki sem hafa getað aukið umsvif sín á Austurlandi verulega vegna þjónustu við álverið.

 700-800 milljónir til sveitarfélaga

Tekjur sveitarfélaganna á Austurlandi af fasteignagjöldum, hafnargjöldum og útsvari þeirra sem vinna hjá álverinu í Reyðarfirði og verktökum á álverslóðinni, voru 700 til 800 milljónir króna árið 2008. Meirihluti teknanna rennur til Fjarðabyggðar og þær eru mikilvægur tekjustofn til að viðhalda og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Þá eru ótalin áhrif áhrif ýmissa styrkja sem Alcoa hefur veitt í samfélagsleg málefni á Austurlandi, svo sem til menningarviðburða, íþrótta, Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu nema þessir styrkir samtals rúmlega 300 milljónum króna frá árinu 2003 til 2008. Fyrirtækið hefur einnig haft ýmis óbein, jákvæð áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, m.a. vegna áherslu á öryggismál starfsmanna og umhverfismál.

 

Álverið og tengd starfsemi skapa mikilvægar gjaldeyristekjur og virðisauka fyrir Austurland og íslenskt samfélag úr endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þó að kraftaverk séu álíka sjaldgæf hér á Austurlandi og annars staðar, er einfaldlega fráleitt að halda því fram að áhrif álversins og Kárahnjúkavirkjunar á samfélagið hér á Austurlandi hafi valdið vonbrigðum, eins og nýr umhverfisráðherra hefur haldið fram.

 Guðmundur R. Gíslason,forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar      

Rokkveisla á Broadway 13. febrúar

Rokkveisla austfirðinga á Broadway 13. febrúar

-Frumsýning í Reykjavík þetta árið.

 Stórhljómsveit Ágústar Ármanns á Broadway 2004

Svona leit bandið út á Broadway 2004 

Tónlistarveisla austfirðinga í Reykjavík er að þessu sinni helguð gamla rokkinu frá 1950-1964. Rokkveisla síðasta árs á Norðfirði var jólasýning með jólalögum og því er þessi sýning sérstaklega sett upp fyrir brottflutta og gesti þeirra sem hafa jafnan fjölmennt á Broadway. Það er stórhljómsveit Ágústar Ármanns sem sér um undirleik í sýningunni. Hana skipa auk Ágústar Ármanns, Jón Hilmar Kárason, Marías B. Kristjánsson, Viðar Guðmundsson, Helgi Georgsson og Einar Bragi Bragason, ásamt brottfluttum tónlistarmönnum að austan. 

Söngvarar í sýningunni eru: Smári Geirsson, Guðmundur R. Gíslason, Hlynur Benediktsson, Bjarni Freyr Ágústsson , Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir, Stella Steinþórsdóttir, Sigurjón Egilsson, Jóhanna Seljan, Sigfús Ó Guðmundsson og Soffía Björgúlfsdóttir. 

 Kynnar í sýningunni eru Ágúst Ármann og Smári Geirsson. Dansleik eftir sýningu sjá austfirðingar um og hljómsveitin MONO með Hlyn Ben í broddi fylkingar. Boðið er upp á veislumáltíð fyrir sýningu.Einnig er hægt að kaupa miða sérstaklega á sýningu og dansleikinn.Miðapantanir á Broadway í í síma 533-1100.

Kristján Möller!!!

Agalega verð ég svekktur ef Kristján Möller verður ekki áfram samgönguráðherra. Hann hefur staðið sig vel, að ég best veit, og ber sennilega minni ábyrgð á klúðri síðustu mánaða en t.d. Össur og ISG.
mbl.is Fundað um stjórnarmyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband