Færsluflokkur: Dægurmál

Þorrablót

Til hamingju með daginn kæru bændur!
Bóndadagur í dag og engin ennþá óskað mér til hamingju. Ekki er ég bóndi í eiginlegum skilningi en húsbóndi er ég á mínu heimili, jú svei!
Ég hlakka mikið til að fara á þorrablót sveitamanna í Norðfjarðarsveit, sem haldið er í Egilsbúð eins og undanfarin ár. Jón Björn vinur minn og forseti og hans eiginkona Hildur Vala bjóða okkur Gunnu með sér - takk!
Jón Björn skrifar og flytur annálinn af sinni alkunnu snilld. Já, ég hlakka til.

Svo er það Kommablótið eftir liðlega viku. Við erum að semja á fullu en að venju eru það Gummi Bjarna, Smári Geirs, ofannefndur Jón og ég sjálfur sem semjum þann annál og söngtexta. Meira um það síðar.

Gleðilegan þorra og gangið hægt... en örugglega um gleðinnar dyr!


Í fréttum er þetta helst...

...hérna í Valsmýrinni.

Við María liggjum saman í klessu í stofusófanum. Hún nartar í pizzu frá því í gærkvöldi og horfir á barnaefnið. Ég er með tölvuna í fanginu og hamra inn helstu fréttir af okkur.

Ekki hefur Svínaflensan lagt okkur en stelpurnar hafa verið kvefaðar og sá sem þetta ritar hefur einnig steinlegið í kvefpest. Guðrún stendur þetta allt af sér enda hraustari en við til samans. Stebba Þorleifs genin eru ekkert kex!

Eyrún er að hanna kjól með vinkonum sínum sem þær ætla að setja í samkeppni í Atóm. þemað er "endurvinnsla" og verður þetta forvitnilegur kjóll svo ekki sé meira sagt. Eyrún er líka að fara að syngja með bekkjarfélögum sínum í söngleiknum Abbababb sem settur verður upp í Egilsbúð af 9. bekk Nesskóla og foreldrum. Ætli ég verði ekki í hlutverki doktorsins sem bassaleikari í bandinu. Það er áskorun í tvennum skilningi: Dr Gunni er skemmtilegur bassaleikari og ég... er ekki bassaleikari!!!!

María keypti sér rafmagnsgítar um daginn og er mjög áhugasöm um að gerast rokkari. Hún er að læra á píanó hjá Agli í tónskólanum og finnst það frábært. Ég lofaði að leiðbeina henni á gítarinn og mun gera það af veikum mætti en miklum áhuga. Hún er í 3. bekk og gengur vel í náminu. María Bóel er orkubolti sem helst vil hafa nóg að gera frá morgni til kvölds.

Eyrún Björg og María Bóel
Eyrún Björg og María Bóel

Guðrún er að kenna 1. bekk í Nesskóla þar sem margir snillingar eru að hefja skólagöngu sína. Þar á meðal eru tvíburar Villu og Svanbergs, demantarnir okkar Ólafía Ósk og Elmar Örn. Þau hafa frá því þau byrjuðu að tala kallað Gunnu "Diddu" eins og Villa gerði og gerir enn. Nú þurfa þau að kalla hana Gunnu eða Guðrúnu í skólanum og gengur það vel. Þau eru frábær og ekki laust við að Gunna sé stolt af því að fá að leiðbeina þeim frændsystkinum sínum að stíga fyrstu skrefin í náminu. Guðrún hefur einnig umsjón með uppsetningu 9. bekkjar á Abbababb þannig að það verður nóg að gera á næstunni.

Ég er að sjálfsögðu að stjórna og stýra Gámaþjónustu Austurlands sem telur um 30 starfsmenn sem allir nema tveir vinna í álverinu eða fyrir álverið. Þetta hefur verið mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf þar sem Alcoa krefst endurvinnslu eða endurnýtingu á öllu sem fellur til. Einnig erum við í ýmsum verkefnum s.s. iðnaðarþrifum, útflutningi, sérverkefnum og ráðgjöf. Ekkert er okkur óðviðkomandi. Samstarfsfólkið hjá Gámaþjónustunni er frábært og án þeirra væri ég löngu hættur. Starf mitt í bæjarstjórninni hefur minnkað eftir að ég hætti í bæjarráði. Það var kærkomið. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar sem verða í vor og hef ég tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér. Það er ekkert leyndarmál. Ég er búinn að vera í þessu í 20 ár, þ.a. 15 ár sem aðalfulltrúi í vor. Mér finnst ég vera búinn að standa vaktina nógu lengi. Nú mega aðrir eyða frítíma sínum í þetta vanþakkláta starf. Samt vil ég taka fram að mér hefur fundist þetta ótrúlega skemmtilegur tími og væri ég löngu hættur ef ég hefði ekki haft gaman af og talið mig vera að gera samfélagi mínu eitthvert gagn. Ekki var ég í þessu vegna launanna það er ljóst! Þau hafa þó skánað síðan ég byrjaði. Ég lofa því ekki að hætta í pólitík... til þess er ég of ungur (40 í febrúar) og ég hef ennþá brennandi áhuga á samfélagsmálum og vil heimabyggðinni allt hið besta.

Ég er og verð landsbyggðarmaður og það er mín eina sanna vitrun í pólitík.

Mér gengur illa að finna mig innan flokkakerfisins. Ég hef stutt Samfylkinguna og var einhvers staðar á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar. En svei mér þá... ég efast um að ég myndi kjósa Samfylkinguna í dag. Allavega líst mér ekki á skattaáform þeirra sem verða til þess eins að lengja í kreppunni og stöðva alla uppbyggingu og þróun. Það getur ekki verið skynsamlegt að slátra eða misþyrma mjólkurkúnni eða éta meginhlutann af útsæðinu

Við Gunna erum að fara að skemmta okkur í kvöld. Við erum að fara á Rokkveisluna í Egilsbúð. Um er að ræða upprifjun á 20 ára sögu Rokkveislunnar. Það verður gaman af því að vera í salnum því í flestum þessara sýninga höfum við Gunna tekið þátt. Hún með dansana og ég í söng. Svo rákum Egilsbúð í 9 ár þannig að þetta er okkar "baby" í mörgum skilningi. Nú erum við í fríi og ætlum okkur að njóta. Óska ég flytjendum góðs gengis.

Ekki fleira í bili.

Njótum dagsins, morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.


Sveitarfélagið Austurland?

Þegar ég var ungur (yngri) dreymdi mig um 3. stjórnsýslustigið. Ég var svo einfaldur að halda að kannski gæfi Alþingi eftir völd til héraðsstjórna og Austurland yrði eitt fylki sem réði sínum málum sjálft og hefði sjálfstæða tekjustofna miðað við það sem við öflum. Austurland væri góssenland ef þetta hefði orðið að veruleika.

Ég held að þetta sé ennþá hægt. Við förum bara aðra leið að settu marki. Mínar hugmyndir eru:

  • Sameina sveitarfélög á Austurlandi í eitt.
  • Kjósa á 4. ára fresti í stjórn Austurlands og kjósa einnig í stjórnir þjónustueininga sem væru nokkrar á meðan samgöngur eru ekki betri. t.d. ein stjórn í Neskaupstað, önnur fyrir Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og svo framvegis svo ég taki dæmi úr mínu sveitarfélagi. Þegar samgöngur batna fækkaði þessum stjórnum. Með þessu færum við völdin aftur nær íbúunum. Stjórn Austurlands færi með stærri málin og yfirstjórn.
  • Semja við ríkið um niðurfellingu skulda hins nýja sveitarfélags. Bara dropi í hafið miðað við allt ruglið sem verið er að fella niður í dag.
  • Semja við ríkið um að við tökum yfir rekstur allra opinberra stofnanna á Austurlandi, heilbrigðisþjónustu, vegagerð og fl.
  • Gera bindandi samgönguáætlun við ríkið sem fæli í sér stórfelldar vegabætur og jarðgöng til Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Vopnafjarðar..... Mætti vera 20 ára áætlun, helst styttri.
  • Sameina stoðstofnanir sveitarfélaga að einhverju marki undir stjórn Austurlands og nýta betur samvinnu í þágu alls Austurlands. T.d. Menningarráð Austurlands og Markaðsskrifstofu Austurlands, Þróunarfélag og ..... af mörgu er að taka.

Eflaust er hægt að hafa þetta mun lengra og ítarlegra en ég nenni ekki að skrifa meira í bili.

Ef þessar forsendur væru til staðar væri ég til í að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.

Samþykkt SSA var svohljóðandi:

43. aðalfundur SSA, haldinn á Seyðisfirði 25. - 26. september 2009, samþykkir að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.

Hópnum er falið eftirfarandi:

  • að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags
  • að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu
  • að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins
  • að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust

Hér er um að ræða ótvírætt tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti.

Samþykkt einróma.

Rokkveisla á Broadway 13. febrúar

Rokkveisla austfirðinga á Broadway 13. febrúar

-Frumsýning í Reykjavík þetta árið.

 Stórhljómsveit Ágústar Ármanns á Broadway 2004

Svona leit bandið út á Broadway 2004 

Tónlistarveisla austfirðinga í Reykjavík er að þessu sinni helguð gamla rokkinu frá 1950-1964. Rokkveisla síðasta árs á Norðfirði var jólasýning með jólalögum og því er þessi sýning sérstaklega sett upp fyrir brottflutta og gesti þeirra sem hafa jafnan fjölmennt á Broadway. Það er stórhljómsveit Ágústar Ármanns sem sér um undirleik í sýningunni. Hana skipa auk Ágústar Ármanns, Jón Hilmar Kárason, Marías B. Kristjánsson, Viðar Guðmundsson, Helgi Georgsson og Einar Bragi Bragason, ásamt brottfluttum tónlistarmönnum að austan. 

Söngvarar í sýningunni eru: Smári Geirsson, Guðmundur R. Gíslason, Hlynur Benediktsson, Bjarni Freyr Ágústsson , Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir, Stella Steinþórsdóttir, Sigurjón Egilsson, Jóhanna Seljan, Sigfús Ó Guðmundsson og Soffía Björgúlfsdóttir. 

 Kynnar í sýningunni eru Ágúst Ármann og Smári Geirsson. Dansleik eftir sýningu sjá austfirðingar um og hljómsveitin MONO með Hlyn Ben í broddi fylkingar. Boðið er upp á veislumáltíð fyrir sýningu.Einnig er hægt að kaupa miða sérstaklega á sýningu og dansleikinn.Miðapantanir á Broadway í í síma 533-1100.

Skiptir máli hvaðan við komum?

Auðvitað skiptir það máli. Ég hef oft velt þessu fyrir mér varðandi tónlist.

Mig langar að benda á frábæra grein í Mogganum í dag á bls. 46 eftir Ingveldi Geirsdóttur sem heitir Er sprengjuhöllin sveitó?

Megin inntak greinarinnar er að Sprengjuhöllin er töff... af því hún er skipuð sætum strákum úr Menntaskólanum í Hamrahlíð. Ef þeir væru frá Selfossi, Akranesi eða Egilsstöðum þætti þetta MJÖG hallærislegt. Miðbæjarrotta með trefil myndi aldrei viðurkenna þá. Ég held að þetta sé rétt.

Landsbyggðarbönd hafa alltaf sætt fordómum... hjá gagnrýnendum í Reykjavík. Þeir sem hafa reynt að skrifa tónlistarsöguna hafa líka átt erfitt með að fjalla um tónlist frá landsbyggðinni en þess í stað skrifað margar blaðsíður um bönd sem komu fram á örfáum tónleikum í Reykjavík... en voru frábær. Enn hefur ekki verið skrifuð poppsaga Íslands sem mark er á takandi, því miður. Væri ekki hægt að fá sagnfræðing í verkið með tónlistaráhuga?

Já, já, ég veit hvað þið hugsið... hann er bara með minnimáttarkennd... enda frá Neskaupstað... eins og Glúmur!


Queen frá Norðfirði

Félagar mínir úr Brján (sem nú kalla sig Smile) eru að fara suður og meika það... enn og aftur. Ég hvet alla til að mæta enda frábærir tónlistarmenn á ferðinni.

Queenhelgin verður haldin á Players föstudaginn 5. október og laugardaginn 6. október. Íslenska Queen tribute - bandið Smile mun halda uppi fjörinu bæði kvöldin með Bjarna Frey, Jónsa í Svörtum fötum, Eirík Hauksson og Magna í broddi fylkingar. Jónsi og Magni koma fram sitthvort kvöldið.

Freddy M

Sérstakur gestur um helgina verður Peter Freestone sem var aðstoðarmaður Freddie's frá 1979 til dauðadags. Er þetta mikill hvalreki fyrir alla sem hafa áhuga á Queen og hinum stórbrotna söngvara, lagasmið og sviðsmanni Freddie Mercury.

 

Ágúst Ármann er þarna ein aðalsprautan eins og vanalega. Hann fékk á dögunum Menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og var meira en vel að þeim kominn. Til hamingju Aggi!


Trúbadorahátíð 2007. Dagskrá

Ég þakka góðar ábendingar. Nú liggur þetta fyrir og ég vona að mæting verði góð og allir skemmti sér vel.  

Trúbadorahátíð Íslands 2007

6. árið í röð. 5.-7. október

föstudagur 5. október Tónleikar í safnahúsinu á Norðfirði kl. 21:00.  

Halli Reynis - Gummi Jóns úr Sálinni - Magnús Þór Sigmundsson - Guðmundur R. Gíslason   

laugardagur 6.október Tónleikar í Egilsbúð 22:00-23:30. Húsið opnar kl. 21:30 

Einar Ágúst - Arnar Guðmundsson - Ingvar Valgeirsson 

Októberfest í Egilsbúð frá 24:00-03:00 Pöbbakvöld - svaka fjör - Bjórtilboð! 

Einar Ágúst og Ingvar Valgeirs 

sunnudagur 7. okt.Tónleikar í Mjóafirði kl. 21:00 á Sólbrekku.   

Arnar Guðmundsson og Guðmundur R. Gíslason. Frír aðgangur 

Ungum og efnilegum trúbadorum boðið að taka þátt í hátíðinni og þarf aðeins að senda rafpóst á bgbros@simnet.is til að skrá þátttöku eða hringja í síma 899-2321. Styrktaraðilar: Egilsbúð, Menningarnefnd Fjarðabyggðar, Menningarráð Austurlands, (Rarik og kaupþing)Flugfélag Íslands og Sparisjóður Norðfjarðar.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband