Sveitarfélagið Austurland?

Þegar ég var ungur (yngri) dreymdi mig um 3. stjórnsýslustigið. Ég var svo einfaldur að halda að kannski gæfi Alþingi eftir völd til héraðsstjórna og Austurland yrði eitt fylki sem réði sínum málum sjálft og hefði sjálfstæða tekjustofna miðað við það sem við öflum. Austurland væri góssenland ef þetta hefði orðið að veruleika.

Ég held að þetta sé ennþá hægt. Við förum bara aðra leið að settu marki. Mínar hugmyndir eru:

  • Sameina sveitarfélög á Austurlandi í eitt.
  • Kjósa á 4. ára fresti í stjórn Austurlands og kjósa einnig í stjórnir þjónustueininga sem væru nokkrar á meðan samgöngur eru ekki betri. t.d. ein stjórn í Neskaupstað, önnur fyrir Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og svo framvegis svo ég taki dæmi úr mínu sveitarfélagi. Þegar samgöngur batna fækkaði þessum stjórnum. Með þessu færum við völdin aftur nær íbúunum. Stjórn Austurlands færi með stærri málin og yfirstjórn.
  • Semja við ríkið um niðurfellingu skulda hins nýja sveitarfélags. Bara dropi í hafið miðað við allt ruglið sem verið er að fella niður í dag.
  • Semja við ríkið um að við tökum yfir rekstur allra opinberra stofnanna á Austurlandi, heilbrigðisþjónustu, vegagerð og fl.
  • Gera bindandi samgönguáætlun við ríkið sem fæli í sér stórfelldar vegabætur og jarðgöng til Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Vopnafjarðar..... Mætti vera 20 ára áætlun, helst styttri.
  • Sameina stoðstofnanir sveitarfélaga að einhverju marki undir stjórn Austurlands og nýta betur samvinnu í þágu alls Austurlands. T.d. Menningarráð Austurlands og Markaðsskrifstofu Austurlands, Þróunarfélag og ..... af mörgu er að taka.

Eflaust er hægt að hafa þetta mun lengra og ítarlegra en ég nenni ekki að skrifa meira í bili.

Ef þessar forsendur væru til staðar væri ég til í að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.

Samþykkt SSA var svohljóðandi:

43. aðalfundur SSA, haldinn á Seyðisfirði 25. - 26. september 2009, samþykkir að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.

Hópnum er falið eftirfarandi:

  • að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags
  • að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu
  • að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins
  • að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust

Hér er um að ræða ótvírætt tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti.

Samþykkt einróma.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Þetta eru háleitar hugmyndir Gummi sem vel eru þess virði að skoða. Hvort eða hvenær gæti orðið að þessu er annað mál.

Haraldur Bjarnason, 9.10.2009 kl. 09:41

2 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég tel á undir þessum formerkjum eigi að skoða sameiningu Austurlands í eitt sveitarfélag, þeas að einhverskonar svæðisráð fari með innri mál einstakra byggðarlaga. Ég veit að í sumum bæjanna eru til svona öldungaráð, eða sjoppuhópar sem hittast í söluskálum olíufélaganna og þykjast vita allt lang best. Ég er ekki að meina svoleiðis svæðisráð. : )

Jón Halldór Guðmundsson, 9.10.2009 kl. 12:13

3 Smámynd: Hulda Elma Guðmundsdóttir

Þessar hugmyndir þínar má útfæra á ýmsa vegu og ég styð það að Austurland verði eitt sveitarfélag. Því ekki að stíga skrefið til fulls?

Hulda Elma Guðmundsdóttir, 9.10.2009 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband