Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Veturinn er tíminn.

Það er búið að vera yndislegt veður til útivistar hér fyrir austan.

Fjölskyldan hefur farið töluvert á skíði. María Bóel er að æfa skíði og er líka orðin nokkuð lunkin á bretti. Svo keyptum við okkur "nýjan" snjósleða sem hefur runnið ljúft með okkur upp á fjöll.

Bikarmót var í Oddsskarði um helgina þar sem við Gunna unnum við mótið á laugardegi. Veðrið var frábært og sennilega eru allir gestir Oddsskarðsins rjóðir í vanga eftir helgina.

Hér er ein mynd tekin niður í Hellisfjörð. Reyndar tekin á gsm síma. Maður gleymir alltaf myndavélinni. Fleiri myndir eru í albúminu "Veturinn 2009".

Hellisfjörður, skuggi af mér og Eyrúnu


Maraþon á landsmóti í sumar

Nú er ég loksins búinn að finna markmið... eða öllu heldur Jói Tryggva sem gaukaði þessu að mér.

Ég ætlaði reyndar bara að hlaupa erlendis eins og ég gerði með Hálfdáni og Birni í fyrra en þið vitið, gengið og allt þetta vesen setur strik í reikninginn. Reykjavíkurmaraþon hentar mér ekki, tímasetningin er þannig. Maður á að njóta sumarsins, það er Neistaflug, pæjumót, hjólhýsaferðir, grill og öl sem því fylgir. Því er formið ekki upp á það besta í ágúst.

Landsmót UMFí verður haldið á Akureyri í júlí og í fyrsta skipti verður keppt í maraþonhlaupi. Þetta verður einnig fyrsta maraþonhlaupið í Eyjafirði. Hlaupið fer líklega fram laugardaginn 11. júlí fyrir hádegi. Þá reyni ég að nálgast tímann 4 klukkustundir en í Kaupmannahöfn hljóp ég á 4:17.

þetta er verðugt og skemmtilegt markmið.

Hér með auglýsi ég eftir góðu fólki til að slást í för með okkur Jóa Tryggva. Það er ekki of seint að byrja. 4 mánuðir til stefnu.

 Þá er ég búinn að opinbera markmiðið og setja á mig pressu.

Nú verður ekki aftur snúið.

"Run to the hill, run for you life"


Long time no blog!

Eitthvað er maður nú latur við að blogga þessa dagana.

Ekki lofa ég bót og betrun, best að segja sem minnst.

Dagurinn í gær var ótrúlegur:

-ÉG gleymdi símanum heima (35 km)

-Tölvan varð rafmagnslaus á bæjarráðsfundi, neitaði að hlaða sig og ég varð sambandslaus við umheiminn.

-Tölvutengingin á skrifstofunni virkaði ekki eftir hádegi.

-Bókun mín í flug klúðraðist og svo var orðið fullt í vélina þegar það uppgötvaðist.

-Eyrún dóttir mín fór að baka... en það voru plastílát í bakaraofninum sem hún vissi ekki af. Það fór þó vel og varð ekki teljandi tjón.

 

Annars er bara gaman að fylgjast með prófkjörum flokkanna. Ég var ekki sáttur við prófkjör Samfylkingar í NA-kjördæmi en maður jafnar sig á því. Einar Már átti betra skilið að mínu mati.

Tryggvi Þór er í bölvuðum vandræðum. Hann hefur kannski ekki gert neitt ólöglegt en vilja kjósendur menn sem tóku 300 milljóna lán sem ekki þurfti að standa skil á? Þetta var eins og með aðra kaupréttarsamninga. Möguleiki var á að græða og græða mikið en engin hætta á að tapa. Þetta tíðkaðist þá en nú eru breyttir tímar. Einn sveitungi okkar Tryggva sagði jafn líklegt að Tryggvi væri með flekklausa fortíð og að finna hreina mey í hóruhúsi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sjálfstæðismenn velja sitt fólk og verður forvitnilegt að sjá hvernig Tryggva gengur. Hann verður örugglega góður þingmaður ef hann fær til þess stuðning.

Þangað til næst.

Góðar stundir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband