Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Mogginn sker niður á Austurlandi

Steinunn Ásmundsdóttir hefur að mínu viti staðið sig vel sem blaðamaður á Austurlandi en nú ætlar Morgunblaðið að skera niður. Austurland er ekki nógu merkilegt lengur til þess að hafa þar blaðamann. Þá er það bara RÚV sem er með starfandi blaðamenn/fréttamenn á Austurlandi. Stöð 2 var áður með starfsmenn hér en þeirra hausar þurftu að fjúka og nú fer Mogginn sömu leið. Synd og skömm!

MBL logo    Kross

Eftirfarandi tilkynningu fékk ég í tölvupósti í dag:

Vegna breytinga á rekstrarumhverfi og vegna skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum Árvakurs hf., er félagið að fækka störfum og breyta áherslum.

 

Nýr ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Stephensen, hefur tilkynnt að ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi verði lokað 1. júní.

Jafnframt mun sérstök Austurlandssíða í Morgunblaðinu leggjast af.

Framvegis tekur því ritstjórn í Reykjavík við efni til birtingar.

 Ég legg til að við mótmælum þessu. Ég skora á góða og gilda Sjálfstæðismenn að láta ekki þessa niðurlægingu yfir okkur ganga.

Gjaldfrjáls leikskóli - skref í rétta átt

Frá og með 1. júní 2008 greiða foreldrar í Fjarðabyggð aðeins vistunargjald fyrir eitt barn á leikskóla. Á bæjarráðsfundi þriðjudaginn 27. maí var ákveðið að fella niður vistunargjald af öðru barni en áður hafði sveitarfélagið samþykkt fjögurra klukkustunda gjaldfrjálsa vistun fyrir fimm ára börn. Með þessari ákvörðun vill sveitarfélagið sýna í verki að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem barnafólk finnur að það er á góðum stað.

Þetta samþykkti bæjarráð einróma á síðasta fundi. Stóru málin eru samþykkt af meiri- og minnihluta. Alltaf hingað til.

Litlu málin eru gerð að stórmálum og eru jafnvel blásin upp í fjölmiðlum og greint rangt frá sbr. litla pottamálið á Fáskrúðsfirði. í öllum fjölmiðlum var sagt að meirihlutinn hefði klofnað (sem er rangt) og einnig var sagt að þetta hefði verið samþykkt í bæjarráði (sem var líka rangt). Staðsetning heitra potta við sundlaugina á Fáskrúðsfirði var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum Framsóknar og Fjarðalista í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn voru á móti. Rétt skal vera rétt.

Eru fjölmiðlar landsins að endurskrifa vitleysuna eftir hver öðrum?


Fata samtökin

He, he, he! Sá þetta nýja nafn á Framsóknarflokkinn.

Ekki þarf Jón Björn vinur minn styrk frá flokknum til að líta vel út.

Ég hef aldrei fengið svo mikið sem sokkapar frá Fjarðalistanum.

Ekki nema furða að maður sé alltaf eins og ræfill til fara LoL


Hallarbylting í Fjarðabyggð?

Maður er nú hálf gáttaður á sápuóperunni sem stendur yfir í Reykjavík. Ef ekki var málefnalegur ágreiningur er þetta þá ekki bara spurning um stöður? Titlatog? Jú, og væntanlega völd og hefnd. Allt eins og í Dallas.

Ég sé ekki meirihlutann í Fjarðabyggð springa nema ef til kæmi mikill ágreiningur. Ekki verða menn allavega fjáðir af því að vera formenn nefnda eða ráða í Fjarðabyggð, þar munar ekki miklu á því að vera almennur nefndarmaður.

Það er helst bæjarstjórastóllinn sem gæti verið skiptimynt í svona plotti. Hins vegar er Helga Jónsdóttir bæjarstjóri (stýra) okkar vel liðin af öllum og engin vill hana burt. Fjarðabyggð logo

Svo er samkomulag meiri- og minnihluta gott sem hefur verið mjög dýrmætt á þessum uppbyggingartímum í Fjarðabyggð. Auðvitað takast menn á um ýmislegt en í stóru málunum slá hjörtun í takt.

Minnihlutinn sat að vísu hjá þegar síðasta fjárhagsáætlun var samþykkt. Þeir tóku hins vegar fullan þátt í gerð hennar og fluttu enga breytingartillögu.

Ég sé ekki hallarbyltingu framundan í Fjarðabyggð.

 


Aðstoðarmaður bæjarstjóra

Allt dettur nú sumum í hug. Ég var spurður í óformlegu spjalli af fjölmiðlamanni í dag hvort sönn væri sú saga að ég væri næsti aðstoðarmaður Helgu bæjarstýru í Fjarðabyggð. HALLÓ!!!! Þeir sem spinna svona sögu eru nú ekki alveg með á nótunum, eða þekkja ekki bæjarkerfið. Ef sagan væri sönn:

Þá væri ég yfirmaður minn og undirmaður....

...og yfirmaður Helgu og aðstoðarmaður.

"Ég er afi minn" hvað?


556 milljónir í desemberuppbót

Endurskoðuð fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2007

Á bæjarstjórnarfundi í gær var fjallað um endurskoðun á fjárhagsáætlun fyrir þetta ár. Þar kemur fram óvæntur glaðningur sem við höfum fylgst með þetta árið. Endurskoðaðar tekjur bæjarsjóðs nema 556 milljónum nettó. Mestu munar þar um auknar útsvarstekjur að upphæð 686 milljónir króna og einnig voru fasteignaskattar hærri en gert var ráð fyrir. Á móti koma lægri framlög jöfnunarsjóðs sem skýrist af háum tekjum bæjarsjóðs.

Við höfum náttúrulega ekki verið í eðlilegu rekstrarumhverfi þetta ár þar sem framkvæmdir við álver hafa verið í hámarki og dráttur á framkvæmdum kemur að einhverju leiti bæjarsjóði til góða á þessu ári. Framkvæmdaaðilar fá líka hrós í hnappagatið en skráning lögheimils erlendra starfsmanna hefur verið til fyrirmyndar. Því renna útsvarstekjur flestra sem unnu við framkvæmdina til Fjarðabyggðar.

Einnig lögðum við fram frumvarp að fjárhagsáætlun 2008 sem ég mun fjalla um síðar. Ekki eru þar jafn rosalega skemmtilegar tölur og verðum við að sýna aðhald næsta ár. Þó er gert ráð fyrir rekstrarafgangi A-og B hluta upp á 425 milljónir án fjarmagnsliða en þeir verða um 388 milljónir skv. áætlun.

Mikil samstaða hefur verið í bæjarstjórn Fjarðabyggðar og var endurskoðuð fjárhagsáætlun samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en fjárhagsáætlun næsta árs vísað til seinni umræðu sem verður eftir viku þann 20. des. Meira um hana síðar.

 


Sveitarstjórnarmál...

...eiga hug minn allan þessa dagana og taka mikinn tíma. Við funduðum í bæjarráði á laugardag frá 09:00-16:30 vegna fjárhagsáætlunar. Kollegar mínir um allt land standa í þessu miður skemmtilega hlutverki þessa dagana að berja saman fjárhagsáætlun sem er aldrei létt verk, ekki einu sinni í fyrirmyndarsveitarfélaginu Fjarðabyggð. Sveitarstjórnarmenn álykta og álykta og skora á ríkisvaldið að rétta hlut sveitarfélaganna, stjórn sambandsins er að vinna í málinu, samt sem áður þokast hægt. Hvað þurfa mörg sveitarfélög að fá áminningu frá eftirlitsnefndinni þangað til ríkisvaldið viðurkennir vandann? Engin patent lausn er til á fjárhagsvanda sveitarfélaganna því þau eru mjög mis sett. Samt eru það aðallega sveitarfélögin á landsbyggðinni sem þurfa verulega leiðréttingu á hlut sínum. Þorvaldur Jóhannsson framkvæmdastjóri SSA líkti þessu við fótbolta og það eru þriðjudeildar-sveitarfélögin sem eiga í vandræðum.

Sennilega væri til bóta að gera sveitarstjórnarfólki kleift að sinna þessum störfum á launum. Flestir sinna þessu með öðrum störfum og víðast eru þessi störf mjög illa launuð. Meðan svo er getum við ekki búist við því að slegist sé um að starfa í sveitarstjórnum.

Á hádegi fer ég á fund stjórnar sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldinn verður á Stöðvarfirði. Þar munum við ræða þessi mál og fleiri. Í fyrramálið fer á ég á bæjarráðsfund, á miðvikudag seinnipart á meirihlutafund, á fimmtudag á bæjarstjórnarfund.... gaman, gaman!


Popp og pólitík

... er baneitruð blanda.

Í góðri trú sótti ég um styrk til að halda tónleika í Fjarðabyggð. Tónleikana hélt ég og sé ekki eftir því.

Þetta hefur verið gert tortryggilegt vegna þess að ég er bæjarfulltrúi og meira að segja forseti bæjarstjórnar. Fjandmaður minn og yfirslúðrari Fjarðabyggðar sakaði mig um spillingu. Kom reyndar ekki á óvart því þessi maður virðist hata mig eins og pestina og hefur oft ritað um mig fjandsamlega pistla. Manninn þekki ég ekki neitt... og langar ekki að þekkja. Þessi sami maður hafði sennilega samband við fjölmiðla og margir blaðamenn hringdu í mig á síðasta föstudag. Einungis einn skrifaði frétt um þetta sem birtist í 24 stundum um  síðustu helgi. Aðrir sögðu þetta "Ekkifrétt".

Ekki þarf að taka fram að ég tek ekki ákvarðanir í bæjarkerfinu þegar mál snerta mig persónulega. Engin getur með rökum sakað mig um það, hvorki fyrr né síðar. 17 ár eru síðan ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund og eru til fundargerðir sem sanna mál mitt. Í Guðanna bænum finnið eitthvað frumlegra til að skrifa um mig. Ég hef verið heiðarlegur og unnið af heilindum í sveitarstjórn Neskaupstaðar, Fjarðabyggðar og Fjarðabyggðar (nýrri). Sá sem sannað getur annað er velkomið að stíga fram.

Umræðan á bæjarstjórnarfundinum í dag var svo grátbrosleg (Ég horfði á fundinn á netinu þar sem ég var í Reykjavík). Sjálfstæðismenn vörðu gjörðir síns manns í Menningarráði. Úr fundargerð Menningarráðs 25. október:

Menningarráð samþykkir með þremur atkvæðum að styrkja tónleikahaldið um 60.000. Þórður Vilberg er mótfallinn styrkveitingum vegna tónleikahalds.

Sjálfstæðisflokkurinn er skv. þessu á móti því að styrkja tónleikahald. Það eru slæmar fréttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu svo að snúa sig út úr þessu á fundinum og bættu við að þeir væru á móti því að styrkja tónleikahald með landsþekktum tónlistarmönnum sem væru að gefa út geisladiska. Þeir voru ekki á móti því að styrkja bæjarfulltrúa í menningarstússi, þetta tengdist á engan hátt Guðmundi R Gíslasyni sem slíkum.

Ég þakka hólið en vegna þess að störf mín að menningarmálum hafa verið gerð tortryggileg ætla ég ekki að sækja þennan styrk (tilkynnti reyndar formanni Menningarráðs það fyrir fundinn). Vonandi sækir einhver óþekktur listamaður um styrkinn sem er Sjálfstæðisflokknum þóknanlegur... bara alls ekki tónlistarmaður sem gefið hefur út disk.


Fyrsti í bæjarstjórn

Þá er fyrsti fundur bæjarstjórnar Fjarðabyggðar á morgun eftir sumarfrí. Gaman að taka aftur upp þráðinn. Ég mun eftir atvikum greina frá á þessari síðu hvað er helst á döfinni þar í bland við tónlistarfréttir.

Ég var á hádegisverðarfundi í dag með öðrum úr bæjarráði og fræðsluráði. Gestur fundarins var Jón Sigurðsson fyrrv. formaður Framsóknar og núverandi starfsmaður Háskólans í Reykjavík. Ég fór svo með Jón út í starfsmannaþorp Fjarðaáls og sýndi honum aðstæður þar. Þar eru miklir möguleikar sem við erum að skoða.... segi ekki meir en fylgist með fréttum úr Fjarðabyggð á morgun.

Áfram Fjarðabyggð, Austurlandi og allri þjóð til heilla!


Frjáls og óháð

Þetta er nú bara smámál. Hvað með það þó hann hafi unnið með Halldóri? Hann getur samt örugglega sagt neikvæðar fréttir af Framsóknarmönnum þessi bítlavinabróðir.

Annars dreymir mig um að eiga fund með stjórnarformanni 365 sem á Stöð 2.... og Bylgjuna (held ég). Þar væri með einu handtaki, eða einum starfslokasamningi eða tveimur, hægt að gera Bylgjuna aftur að góðri útvarpsstöð. Hún var það nefnilega einu sinni. Hér með býð ég mig fram til að auka hlustun landsmanna á Bylgjuna um mörg % á stuttum tíma. Jón Ásgeir, hafðu bara samband. Ég hef lausnina fyrir þig.


mbl.is Steingrímur: Ekki pólitísk ástæða fyrir uppsögn Þóru Kristínar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband