Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Í fréttum er þetta helst...
31.10.2009 | 11:35
...hérna í Valsmýrinni.
Við María liggjum saman í klessu í stofusófanum. Hún nartar í pizzu frá því í gærkvöldi og horfir á barnaefnið. Ég er með tölvuna í fanginu og hamra inn helstu fréttir af okkur.
Ekki hefur Svínaflensan lagt okkur en stelpurnar hafa verið kvefaðar og sá sem þetta ritar hefur einnig steinlegið í kvefpest. Guðrún stendur þetta allt af sér enda hraustari en við til samans. Stebba Þorleifs genin eru ekkert kex!
Eyrún er að hanna kjól með vinkonum sínum sem þær ætla að setja í samkeppni í Atóm. þemað er "endurvinnsla" og verður þetta forvitnilegur kjóll svo ekki sé meira sagt. Eyrún er líka að fara að syngja með bekkjarfélögum sínum í söngleiknum Abbababb sem settur verður upp í Egilsbúð af 9. bekk Nesskóla og foreldrum. Ætli ég verði ekki í hlutverki doktorsins sem bassaleikari í bandinu. Það er áskorun í tvennum skilningi: Dr Gunni er skemmtilegur bassaleikari og ég... er ekki bassaleikari!!!!
María keypti sér rafmagnsgítar um daginn og er mjög áhugasöm um að gerast rokkari. Hún er að læra á píanó hjá Agli í tónskólanum og finnst það frábært. Ég lofaði að leiðbeina henni á gítarinn og mun gera það af veikum mætti en miklum áhuga. Hún er í 3. bekk og gengur vel í náminu. María Bóel er orkubolti sem helst vil hafa nóg að gera frá morgni til kvölds.
Guðrún er að kenna 1. bekk í Nesskóla þar sem margir snillingar eru að hefja skólagöngu sína. Þar á meðal eru tvíburar Villu og Svanbergs, demantarnir okkar Ólafía Ósk og Elmar Örn. Þau hafa frá því þau byrjuðu að tala kallað Gunnu "Diddu" eins og Villa gerði og gerir enn. Nú þurfa þau að kalla hana Gunnu eða Guðrúnu í skólanum og gengur það vel. Þau eru frábær og ekki laust við að Gunna sé stolt af því að fá að leiðbeina þeim frændsystkinum sínum að stíga fyrstu skrefin í náminu. Guðrún hefur einnig umsjón með uppsetningu 9. bekkjar á Abbababb þannig að það verður nóg að gera á næstunni.
Ég er að sjálfsögðu að stjórna og stýra Gámaþjónustu Austurlands sem telur um 30 starfsmenn sem allir nema tveir vinna í álverinu eða fyrir álverið. Þetta hefur verið mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf þar sem Alcoa krefst endurvinnslu eða endurnýtingu á öllu sem fellur til. Einnig erum við í ýmsum verkefnum s.s. iðnaðarþrifum, útflutningi, sérverkefnum og ráðgjöf. Ekkert er okkur óðviðkomandi. Samstarfsfólkið hjá Gámaþjónustunni er frábært og án þeirra væri ég löngu hættur. Starf mitt í bæjarstjórninni hefur minnkað eftir að ég hætti í bæjarráði. Það var kærkomið. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar sem verða í vor og hef ég tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér. Það er ekkert leyndarmál. Ég er búinn að vera í þessu í 20 ár, þ.a. 15 ár sem aðalfulltrúi í vor. Mér finnst ég vera búinn að standa vaktina nógu lengi. Nú mega aðrir eyða frítíma sínum í þetta vanþakkláta starf. Samt vil ég taka fram að mér hefur fundist þetta ótrúlega skemmtilegur tími og væri ég löngu hættur ef ég hefði ekki haft gaman af og talið mig vera að gera samfélagi mínu eitthvert gagn. Ekki var ég í þessu vegna launanna það er ljóst! Þau hafa þó skánað síðan ég byrjaði. Ég lofa því ekki að hætta í pólitík... til þess er ég of ungur (40 í febrúar) og ég hef ennþá brennandi áhuga á samfélagsmálum og vil heimabyggðinni allt hið besta.
Ég er og verð landsbyggðarmaður og það er mín eina sanna vitrun í pólitík.
Mér gengur illa að finna mig innan flokkakerfisins. Ég hef stutt Samfylkinguna og var einhvers staðar á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar. En svei mér þá... ég efast um að ég myndi kjósa Samfylkinguna í dag. Allavega líst mér ekki á skattaáform þeirra sem verða til þess eins að lengja í kreppunni og stöðva alla uppbyggingu og þróun. Það getur ekki verið skynsamlegt að slátra eða misþyrma mjólkurkúnni eða éta meginhlutann af útsæðinu
Við Gunna erum að fara að skemmta okkur í kvöld. Við erum að fara á Rokkveisluna í Egilsbúð. Um er að ræða upprifjun á 20 ára sögu Rokkveislunnar. Það verður gaman af því að vera í salnum því í flestum þessara sýninga höfum við Gunna tekið þátt. Hún með dansana og ég í söng. Svo rákum Egilsbúð í 9 ár þannig að þetta er okkar "baby" í mörgum skilningi. Nú erum við í fríi og ætlum okkur að njóta. Óska ég flytjendum góðs gengis.
Ekki fleira í bili.
Njótum dagsins, morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.
Sveitarfélagið Austurland?
9.10.2009 | 09:22
Þegar ég var ungur (yngri) dreymdi mig um 3. stjórnsýslustigið. Ég var svo einfaldur að halda að kannski gæfi Alþingi eftir völd til héraðsstjórna og Austurland yrði eitt fylki sem réði sínum málum sjálft og hefði sjálfstæða tekjustofna miðað við það sem við öflum. Austurland væri góssenland ef þetta hefði orðið að veruleika.
Ég held að þetta sé ennþá hægt. Við förum bara aðra leið að settu marki. Mínar hugmyndir eru:
- Sameina sveitarfélög á Austurlandi í eitt.
- Kjósa á 4. ára fresti í stjórn Austurlands og kjósa einnig í stjórnir þjónustueininga sem væru nokkrar á meðan samgöngur eru ekki betri. t.d. ein stjórn í Neskaupstað, önnur fyrir Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og svo framvegis svo ég taki dæmi úr mínu sveitarfélagi. Þegar samgöngur batna fækkaði þessum stjórnum. Með þessu færum við völdin aftur nær íbúunum. Stjórn Austurlands færi með stærri málin og yfirstjórn.
- Semja við ríkið um niðurfellingu skulda hins nýja sveitarfélags. Bara dropi í hafið miðað við allt ruglið sem verið er að fella niður í dag.
- Semja við ríkið um að við tökum yfir rekstur allra opinberra stofnanna á Austurlandi, heilbrigðisþjónustu, vegagerð og fl.
- Gera bindandi samgönguáætlun við ríkið sem fæli í sér stórfelldar vegabætur og jarðgöng til Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Vopnafjarðar..... Mætti vera 20 ára áætlun, helst styttri.
- Sameina stoðstofnanir sveitarfélaga að einhverju marki undir stjórn Austurlands og nýta betur samvinnu í þágu alls Austurlands. T.d. Menningarráð Austurlands og Markaðsskrifstofu Austurlands, Þróunarfélag og ..... af mörgu er að taka.
Eflaust er hægt að hafa þetta mun lengra og ítarlegra en ég nenni ekki að skrifa meira í bili.
Ef þessar forsendur væru til staðar væri ég til í að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.
Samþykkt SSA var svohljóðandi:
43. aðalfundur SSA, haldinn á Seyðisfirði 25. - 26. september 2009, samþykkir að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.
Hópnum er falið eftirfarandi:
- að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags
- að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu
- að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins
- að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust
Hér er um að ræða ótvírætt tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti.
Frestun á snjóflóðamannvirkjum - einu sinni enn?
29.9.2009 | 08:59
Þegar snjóflóðin féllu á Vestfjörðum 1994 með hörmulegum afleiðingum lofaði þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson úrbótum um allt land. Heilmikið hefur verið gert, m.a. í Neskaupstað þar sem upptakastoðvirki og þvergarður var byggður til að verja hluta byggðarinnar neðan Drangagils. Ætlunin var að halda áfram í sífellu en þegar stóriðjuáform komust á koppinn var ákveðið að fresta framkvæmdum vegna þenslunnar á Austurland... gott og vel. Fyrir því voru ákveðin rök. Þegar kreppan knúði dyra og samdráttur varð á flestum sviðum áttu þessi rök ekki lengur við. Fyrr á þessu ári var því lofað á borgarafundi í Neskaupstað af forsvarsmönnum Ofanflóðasjóðs og Umhverfisráðuneytis (eftir samþykki fjármálaráðuneytis) að boðið yrði út samhliða upptakastoðvirki og þvergarður neðan Tröllagils, sem verja á innsta hluta bæjarins. Búið er að bjóða út upptakastoðvirkin en þvergarðurinn hikstar nú í ríkiskerfinu.
Ég er kannski svona vitlaus en ég spyr hvers vegna er frestað?
Við erum að tala um mikið hættusvæði, mannslíf eru í veði
Peningar eru til í sjóðnum
Framkvæmdir er til þess fallnar að draga úr atvinnuleysi/kreppunni, eru mannaflsfrekar.
Mér finnst þetta með ólíkindum og spyr hvort eigi að nota peninga Ofanflóðasjóðs í eitthvað annað????? Jafnvel "eitthvað annað".
Svar óskast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Klárlega snillingur!
27.8.2009 | 13:56
þeir sem efast um hæfileika Bjarkar eru annað hvort skrýtnir eða fordómafullir. Ekki finnst mér allt hennar efni skemmtilegt en klárlega er hún söngkona sem á engan sinn líka og tónskáld sem fer sínar eigin leiðir. Ef Björk hefði ákveðið að fara auðveldu leiðina og syngja auðmeltanleg popplög væri hún skör neðar og sennilega ekki heimsfræg.
Björk vill Íslandi vel, um það efast ég ekki um. Hún var á móti virkjun og álveri hér fyrir austan en ekki dettur mér til hugar að bera kala til hennar vegna þess. Hún má hafa sína skoðun. Hún fær líka stærri plús en aðrir andstæðingar atvinnuuppbyggingar því hún hefur reynt að benda á aðrar leiðir og hefur staðið fyrir ráðstefnu og vinnuhópum ef ég man rétt. Björk er hugmyndarík með einsdæmum og hver veit nema eitthvað komi út úr þessari vinnu. Mér finnst vanta fréttir af þessari vinnu, hvar er þetta verkefni á vegi statt? Ætli Björk geti ekki lagt peninga í ýmislegt ef hún hefur áhuga? Kannski er hún eini ríki Íslendingurinn sem tapaði ekki aleigunni í kreppunni? Hvað veit maður svo sem? Allavega hef ég ekki heyrt um gjaldþrot hennar eins og Baugs, Samsonar og Bjórgólfs.
Við sem vorum fylgjandi virkjun og álveri fyrir austan megum heldur ekki vera svo meðvirk að við samþykkjum virkjanir og stóriðju út um allt. Öll viljum við jú vernda náttúruna líka... er það ekki?
Mikið væri nú gaman ef Björk gæti komið með okkur hér fyrir austan í hugmyndavinnu því við viljum halda áfram að byggja upp Austurland sem okkur þykir svo vænt um.
Svo væri upplagt fyrir hana að halda tónleika í Fjarðabyggðarhöllinni. Hefur hún komið fram út á landi síðan hún söng á Uxa hér um árið?
Svo finnst mér svo gaman að tengja farsælt fólk við Norðfjörð. (Án ábyrgðar-held ég muni þetta rétt) Fósturpabbi Bjarkar til margra ára átti afa á Norðfirði sem hét Jósef, Jobbi gamli. Hann er þá fóstur-langafi Bjarkar. Húsið hans er enn í eigu fjölskyldunnar og ég var alltaf að vona að Björk kæmi og tæki sumarfrí sitt hér á Norðfirði. Hver veit? Hún kom jú einu sinni á Neistaflug og sigldi með Fjarðaferðum. Munið þið eftir því?
Björk fær Schola cantorum til liðs við sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðrið og volið!
19.6.2009 | 09:21
Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað? Allavega fer veðrið meira og meira í taugarnar á mér hér á þessu annars yndislega (gjaldþrota) landi. Ég er að hlaupa úti 4-5 sinnum í viku og það er alveg hending ef hitinn nær 10 stigum á Celsíus kvarða.
Mín yndislega eiginkona hlær alltaf þegar ég fer að bölsótast út af rokinu og rigningunni. Við áttum annars yndislegt kvöld (og nótt) með góðum vinum þegar Ívar Sæm varð fertugur 16. júní. Þá var veðrið yndislegt þó það rigndi aðeins og hitinn var sennilega undir 10. Lognið hló þó dátt eins og það gerir yfirleitt á sumarnóttum í Neskaupstað.
Kannski á þessi geðvonska mín dýpri rætur, lífið er jú ekki bara dans á rósum. Pabbi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem hann fær frábæra ummönnun en batahorfur virðast ekki góðar. Hann og mamma eru þó ótrúlega dugleg og við reynum að vera það líka. Það er engin ástæða til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Kraftaverk gerast á hverjum degi.
Ég hef reynt að forðast allt þunglyndi út af gjaldþroti þjóðarinnar, Ice Save skuldunum og alls þess neikvæða sem dynur á. Hjá Fjarðabyggð aukast skuldir um 2 milljarða út af hruninu, það er nett óþolandi. Ég hef ekki nennu í mér til að skoða bílalánið okkar eða húsnæðisskuldir. Örugglega hefur þetta rokið upp en í þessu tilviki er gott að búa út á landi og skulda lítið. Eftir því sem hrunið færist nær okkur þeim mun meiri tökum nær það á sálu okkar. Sennilega endar með því að ég fer út á svalir eitt kvöldið og öskra út yfir fjörðinn.... eins hátt og ég get. Kannski skrifa ég líka lag um ástandið og þá ætti ég að vera laus við þetta úr sálu minni. Það er ekkert betra en að öskra og semja lag. Það jafnast á við djúphreinsun.
Ég hlakka ógurlega til að hitta Maríu Bóel í dag en hún hefur dvalið í sumarbúðum á Eiðum síðan á mánudag. Eyrún mín er byrjuð að vinna hjá bænum, er að fara norður til Akureyrar á mánudag í fótboltaferð og til Reykjavíkur á þriðjudag á fund! Já, ég er ekki að skrifa um mig. Dóttir mín er að fara suður á fund!!! Hún sótti um og var tekin inn í Ungmennaráð SAFT. Flott hjá henni. Snemma beygist krókurinn.
Dætur mínar elska ég út af lífinu og fjölskylduna alla.
Svo skulum við muna það að lífið er alltof stutt til að vera í fýlu eða hatast við fólk. Lærum að fyrirgefa og hættum að mótmæla. því fyrr því betra. Ástandið lagast ekki fyrr en við lögumst.
Long time no blog!
11.3.2009 | 13:18
Eitthvað er maður nú latur við að blogga þessa dagana.
Ekki lofa ég bót og betrun, best að segja sem minnst.
Dagurinn í gær var ótrúlegur:
-ÉG gleymdi símanum heima (35 km)
-Tölvan varð rafmagnslaus á bæjarráðsfundi, neitaði að hlaða sig og ég varð sambandslaus við umheiminn.
-Tölvutengingin á skrifstofunni virkaði ekki eftir hádegi.
-Bókun mín í flug klúðraðist og svo var orðið fullt í vélina þegar það uppgötvaðist.
-Eyrún dóttir mín fór að baka... en það voru plastílát í bakaraofninum sem hún vissi ekki af. Það fór þó vel og varð ekki teljandi tjón.
Annars er bara gaman að fylgjast með prófkjörum flokkanna. Ég var ekki sáttur við prófkjör Samfylkingar í NA-kjördæmi en maður jafnar sig á því. Einar Már átti betra skilið að mínu mati.
Tryggvi Þór er í bölvuðum vandræðum. Hann hefur kannski ekki gert neitt ólöglegt en vilja kjósendur menn sem tóku 300 milljóna lán sem ekki þurfti að standa skil á? Þetta var eins og með aðra kaupréttarsamninga. Möguleiki var á að græða og græða mikið en engin hætta á að tapa. Þetta tíðkaðist þá en nú eru breyttir tímar. Einn sveitungi okkar Tryggva sagði jafn líklegt að Tryggvi væri með flekklausa fortíð og að finna hreina mey í hóruhúsi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sjálfstæðismenn velja sitt fólk og verður forvitnilegt að sjá hvernig Tryggva gengur. Hann verður örugglega góður þingmaður ef hann fær til þess stuðning.
Þangað til næst.
Góðar stundir.
Kraftaverk? Grein í Morgunblaðinu í dag 19. febrúar 2009
19.2.2009 | 09:46
Margt hefur verið skeggrætt um áhrif íslensks áliðnaðar á efnahagslífið undanfarið og hafa andstæðingar atvinnuuppbyggingar á sviði álframleiðslu gjarnan verið þar fremstir í flokki. Út frá mismunandi forsendum hafa menn komist að mjög mismunandi niðurstöðu, allt frá því að efnahagsleg áhrif íslensks áliðnaðar séu nánast engin, upp í að þau séu svo mikil að Íslendingar séu í stórhættu af því að setja öll eggin í sömu körfu.
Því hefur jafnvel verið haldið fram að íslensk álver skapi nánast engin störf í landinu. Ástæðan sé sú að hefði uppbygging í áliðnaði ekki komið, hefði það fólk sem nú hefur atvinnu af því að framleiða ál til útflutnings, einfaldlega gert eitthvað annað. Í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði starfa 450 manns. Á álverslóðinni starfa auk þess 250-300 verktakar við margvísleg störf fyrir álverið. Þetta eru samanlagt nær 750 störf. Að auki hafa bæst við á Austurlandi fjölmörg störf sem beinlínis má rekja til framkvæmdanna hér eystra, auk starfa annars staðar á landinu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að efnahagsleg áhrif álversins í Reyðarfirði eru mikil. Það er mikilvæg ný kjölfesta í atvinnumálum fjórðungsins og hafi einhverntíma verið þörf fyrir styrkar stoðir í íslensku atvinnulífi er það núna, þegar um fjórtán þúsund manns eru komnir á atvinnuleysisskrá og fer fjölgandi.
Íbúum í Fjarðabyggð fjölgar um 19%Á árunum 1990 til 2002 fækkaði íbúum á Mið-Austurlandi um 1200 manns vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum, eða um tæp 13%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 13%. Þetta svarar til þess að allir íbúar Eskifjarðar hefðu flutt burt. Á sama tíma og álverið var í byggingu töpuðust um 300 störf í sjávarútvegi í Fjarðabyggð. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafa meðallaun á landsbyggðinni þrátt fyrir það verið hæst á Austurlandi frá árinu 2002, en þá voru komin upp áform um að fara í virkjunar- og álversframkvæmdir þar. Ný störf tengd starfsemi álversins hafa orðið til þess að fjölskyldur sem höfðu flutt burt hafa fengið störf við hæfi í heimabyggð og snúið til baka. Ef borinn er saman fjöldi íbúa í Fjarðabyggð árið 2002 og árið 2008 er fjölgunin um 740 manns eða 19%. Við núverandi aðstæður, þegar atvinnuleysi fer vaxandi, er hægt að gera sér í hugarlund hvernig atvinnuástandið væri í Fjarðabyggð hefði bygging álversins ekki komið til.
Aukin umsvif annarra fyrirtækjaFram hefur komið að fyrir utan kaup á raforku, hafi Alcoa Fjarðaál keypt ýmsa þjónustu á Íslandi fyrir níu og hálfan milljarð króna árið 2008. Stór hluti þessarar upphæðar hefur runnið til atvinnustarfsemi á Austurlandi. Hér starfa skipafélög, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki, vélsmiðjur, rafverktakar og fjölmörg önnur fyrirtæki sem hafa getað aukið umsvif sín á Austurlandi verulega vegna þjónustu við álverið.
700-800 milljónir til sveitarfélagaTekjur sveitarfélaganna á Austurlandi af fasteignagjöldum, hafnargjöldum og útsvari þeirra sem vinna hjá álverinu í Reyðarfirði og verktökum á álverslóðinni, voru 700 til 800 milljónir króna árið 2008. Meirihluti teknanna rennur til Fjarðabyggðar og þær eru mikilvægur tekjustofn til að viðhalda og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Þá eru ótalin áhrif áhrif ýmissa styrkja sem Alcoa hefur veitt í samfélagsleg málefni á Austurlandi, svo sem til menningarviðburða, íþrótta, Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu nema þessir styrkir samtals rúmlega 300 milljónum króna frá árinu 2003 til 2008. Fyrirtækið hefur einnig haft ýmis óbein, jákvæð áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, m.a. vegna áherslu á öryggismál starfsmanna og umhverfismál.
Álverið og tengd starfsemi skapa mikilvægar gjaldeyristekjur og virðisauka fyrir Austurland og íslenskt samfélag úr endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þó að kraftaverk séu álíka sjaldgæf hér á Austurlandi og annars staðar, er einfaldlega fráleitt að halda því fram að áhrif álversins og Kárahnjúkavirkjunar á samfélagið hér á Austurlandi hafi valdið vonbrigðum, eins og nýr umhverfisráðherra hefur haldið fram.
Guðmundur R. Gíslason,forseti bæjarstjórnar FjarðabyggðarStjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tillögur til Ríkisstjórnar Íslands
21.1.2009 | 10:55
1. Bjóða stjórnarandstöðunni, verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi sveitarfélaga samstarf til lausnar vanda íslendinga.
2. Reka Davíð Oddsson og stjórn Seðlabankans, fjármálaráðherra og stjórn Fjármálaeftirlitsins. (sennilega næst ekki samstaða um þetta) því liður 3.
3. Boða til kosninga síðar á þessu ári. Það verður ekki umflúið. kosningar eru eina leiðin til þess að fá vinnufrið fyrir alþingi og endurnýja umboðið. Þá er líka verið að axla pólitíska ábyrgð.
Guðmundur Rafnkell Gíslason
Ekkikreppublogg
22.10.2008 | 12:57
Ég er jafn heilbrigður og ég var
Konan mín er enn konan mín og ég elska hana
Stelpurnar mínar eru heilbrigðar og ég elska þær
Fjölskyldan mín öll er á sínum stað og allir hressir
Vinir mínir eru allir jafn hressir og áður og enn vinir mínir
Húsið mitt er enn á sínum stað
Ég er með vinnu
Sólin kemur enn upp.
Hvað er þá að?
Ekkert sem skiptir stóru máli
Meira um Samgöng
1.10.2008 | 09:34
Ég bara held, og lái mér hver sem vill, að Seyðisfirði væri betur borgið með tengingu við Norðfjörð (og þar sem Esk, Rey og...) Vegna þess:
-Göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og til Norðfjarðar eru styttri en göng undir Fjarðarheiði. Þar munar a.m.k. 2 kílómetrum
-Seyðisfjörður og Norðfjörður verða ekki lengur endastöðvar-Atvinnusvæði fjarðanna er mun stærra og fjölbreyttara en svæðið á Héraði. Þar eru meðallaun líka hærri.
-Hugsanlega er önnur tenging á milli Héraðs og fjarða hagstæðari fjöldanum en göng undir Fjarðarheiði
-Ferðamenn hafa mun meiri fjölbreytni og áhugaverðara svæði að skoða á fjörðum en á Héraði (umdeilanlegt, en mín skoðun)-Ferðamenn sem koma með Norrænu hafa fleiri leiðir til og frá ferju. Hver segir að að allir kjósi að allir kjósa að fara beint í Egilsstaði ef þeir hafa val?-Verslun og þjónustu væri betur borgið á Seyðisfirði því Seyðisfjörður væri ekki endastöð.
-Samvinna í sjávarútvegi yrði auðveldari og gæfi möguleika á uppbyggingu á Seyðisfirði. Útflutningur á sjávarafurðu með ferjunni yrði samkeppnishæfari. Þar með siglingar allan ársins hring
-Menningarlega eiga Seyðfirðingar samleið með Fjarðamönnum. Það er staðreynd.
Um allt þetta má þrefa en ég ætla ekki að láta saka mig um að halda kjafti þegar ég hef skoðun. Það eru nógu margir í þeim pakka að sýna svo mikla tillitssemi að stór mál eru ekki rædd. Þetta með Bónus var grín en öllu gamni fylgir einhver alvara. Ég ætlaði ekki að móðga neinn. En það er móðgun að saka mig um vanþekkingu á aðstöðu Seyðfirðinga. Halló! Ég bý á Norðfirði!Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)