Færsluflokkur: Bloggar
Æ, æ, hvað segja aðrir í Samfylkingunni?
1.8.2008 | 08:36
Nú væri gaman að heyra viðbrögð Kristjáns Möllers, Einars Más Sigurðarsonar og fl. Þora þeir kannski ekki að segja sína skoðun? Strákar, það þurfa ekki allir að syngja hallelúja með Þórunni!
Er Þórunn ekki í röngum flokki? Ég álít að hún sé að reyna að standa sig fyrir skoðanasystkini sín í 101 Reykjavík og reyna að seinka verkefninu fram yfir næstu kosningar. Ég þess handviss að "Fagra Ísland" og "stóriðjustopp trixið" fældi fleiri atkvæði frá Samfylkingunni heldur en hitt í síðustu kosningum.
Ég get ekki sagt að ég sé stoltur Samfylkingarmaður í dag. Maður endar kannski í Sjálfstæðisflokknum eins og amma hefur alltaf sagt.
Misræmið varðandi Helguvík er algjört, hvers vegna?
Ég álít að þessi úrskurður geti ekki komið í veg fyrir verkefnið enda hlýtur það að standast þetta sameiginlega umhverfismat. Hins vegar getur seinkun komið í veg fyrir svona verkefni. Það er ekki gefið að fjárfestar sýni endalausa biðlund með sirkusinn fjölgar sýningum.
Hvernig væri að fólk í Norðurþingi biði Þórunni í heimsókn. Mér finnst rétt að hún skýri mál sitt augliti til auglitis við heimamenn. Það er örugglega til Latté á Húsavík.
Ákvörðun ráðherra kom mjög á óvart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Styttist í lygahelgina miklu
25.7.2008 | 10:17
Alltaf gaman um verslunarmannahelgina. Það er orðið lenska... og hefur verið lengi að ljúga til um fjölda hátíðargesta á svona hátíðum. Afhverju dettur engum rannsóknarblaðamanni í hug að biðja um virðisaukauppgjör fyrir þjóðhátíð? Hver miði er virðisaukaskattskyldur og því á að vera hægt að finna út nákvæmlega hversu margir borga sig inn. Sagan segir að seldir miðar + fjöldi íbúa í Vestmannaeyjum sé oftar en ekki talan sem fer í fjölmiðla. Skrýtið, jafnvel skrítið!
Svo eru það allar bæjarhátíðirnar þar sem ekki er selt inn. Oftast er ógerningur að giska á fjölda, t.d. heima á Neistaflugi, www.neistaflug.is Fjöldinn rokkar jafnvel um fleiri hundruð á milli klukkutíma. Margir koma bara til að dvelja yfir dagspart eða eitt kvöld. Sem betur fer gista þó margir.
Ég hef oft sagt það að forsvarsmenn hátíða eru allir með nefið hans Gosa.
Gaman væri að taka loftmynd af Dalvík á fiskideginum mikla og telja bílana... og jafnvel hjólhýsin. Nota svo einfalda reglu, t.d. 3 í bíl, eða jafnvel 4. Skyldi maður virkilega fá út 15.000 manns? Eða voru 25.000 manns síðast?
Svo eru til teljarar, bæði mennskir og ómennskir.
Annars er mér sama þó allir ljúgi um tölur. Allavega þessar tölur. Það eru þegjandi samþykki fyrir því að allir ýki, svona eins og Skriðjöklar um fjölda á dansleikjum, alltaf tæplega þúsund manns:-)
Mikið væri nú gaman ef Jöklarnir kæmu saman og jafnvel Ellen og kannski SKLF?
Alltaf jafn sorglegt að koma í Atlavík og sjá ekkert svið. Afhverju var þetta svið ekki friðað? Eina sviðið á landinu sem Ringo Starr kom fram á. Svei! Hvar voru Saving Iceland þegar þetta hryðjuverk var framið á íslenskri menningarsögu?
Búist við fleirum á þjóðhátíð en í fyrra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Ég hélt að ég gæti ekki hlaupið
26.6.2008 | 17:37
Saga úr Kaupmannahafnarmaraþoni
áður birt í Austurglugganum 19. júní.
Björn Magnússon læknir settist á borðið okkar á þorrablótinu og sagði við Tobbu vinkonu: "Kemur þú með mér í maraþon í kaupmannahöfn þann 18. maí?""Nei!" sagði Tobba. "Gummi er örugglega til í það" sagði hún og benti á mig. Ég kinkaði kolli í gríni en vissi um leið að ég væri á leiðinni.Síðan koma bakþankarnir: Hvaða vitleysu er ég nú búin að koma mér út í. Eftir að ég er búinn að staðfesta við Björn nokkru síðar að ég ætli að skella mér með hringir síminn. Á línunni er Hálfdan Steinþórsson, Norðfirðingurinn góðkunni, vinur minn og tengdasonur Björns. Hann býður mig velkomin í hópinn og segist setja mig inn í tölvupóstsamskipti þar sem þeir félagarnir skiptist á æfinga- og reynslusögum. Hálfdan er skemmtilegur eins og alþjóð veit og eftir langt spjall við hann er ekki aftur snúið.
Ég var einn af þeim sem aldrei gat neitt í íþróttum á yngri árum, hafði hvorki áhuga né getu. Fór af stað haustið 2006 í ræktina og var nokkuð duglegur undir styrkri stjórn Vilborgar Stefánsdóttur. Ég mætti nokkuð fyrir tímana og hljóp á bretti og sá mér til furðu að ég gat bara hlaupið svolítið. Um vorið 2007 fór ég að hlaupa úti. Samt mest upp í fjalli því mér fannst þetta ekki vera þess eðlis að þessum tilraunum bæri að flagga mikið, frekar að halda leyndum. Samt var gamall draumur að hlaupa Barðsneshlaup, 27 km víðavangshlaup frá Barðsnesi um Viðfjörð og Hellisfjörð og heim til Norðfjarðar. Til að gera langa sögu stutta tókst það á Neistaflugi 2007 og því hélt ég að þá gæti ég kannski hlaupið maraþon. Sennilega væri samt best að gera það erlendis því þá bæri minna á því ef maður yrði sér til skammar.Ég fékk ráðgjöf sérfræðings í gegnum síðuna Hlaup.is. Fékk senda æfingaáætlun mánuð í senn þremur mánuðum fyrir hlaup. Einnig góð símtöl frá þjálfaranum sem fór yfir stöðuna og sagði mér til. Áætlunin byrjaði í 24 km á viku og svo smá lengdust hlaupin og síðustu alvöru vikuna átti ég að hlaupa 84 km. Lengsta einstaka hlaupið í þjálfuninni var 30 km. Ég reyndi eftir fremsta megni að halda áætlun en kvefpestir og vont veður settu oft strik í reikninginn. Ég náði að æfa c.a. 60-70% af því sem fyrir mig var lagt. Ég fann þó að allt þetta strit bar árangur.
Við hittumst svo félagarnir í Kaupmannahöfn á laugardegi, daginn fyrir hlaup. Gistum á sama hótelinu. Ég flaug frá Akureyri, Björn og kona hans frá Keflavík en Hálfdan og fjölskylda komu með lest frá Jótlandi en þar dvöldu þau við nám síðasta vetur. Við fórum upp úr hádegi og náðum í rásnúmerin og flöguna sem maður setur á skóinn svo tímamæling eigi sér stað. Þarna voru fleiri þúsund manns samankomin í sama tilgangi og á sama stað var markaður með íþróttaföt, orkudrykki og allskyns dót sem tilheyrir þessum bransa. Við stoppuðum stutt enda staðráðnir í að slaka á þennan dag og safna kröftum fyrir hlaupið. Við förum í gufu og tókum það rólega það sem eftir lifði dags. Borðuðum pasta í kvöldmat og sórum þess eið að borða ekki meira pasta á næstu dögum. Við höfðum fylgt ráðleggingum og borðað mikið af kolvetnum dagana fyrir hlaup.Við vöknuðum snemma á sunnudeginum og biðum fyrir utan morgunverðarsalinn á hótelinu klukkan 7. Léttur morgunmatur og svo bara stress fram að hlaupi. Við löbbuðum að startinu sem var um 1 og 1/2 kílómetra frá hótelinu. Við vorum í hlaupadressinu, á stuttbuxum og hlýrabolum. Það var skítkalt en veðurspáin sagði 15 gráður og sól. Sama lygin í þeim dönsku og íslensku hugsaði ég. Múgur og margmenni var við startið og mér fannst allir líta út eins og íþróttahetjur. Ég reyndi að bera mig vel en ótti og gleði skiptust á í hausnum á mér. Nú var ekki aftur snúið! Nej, for helvede!
Hálfdan og Björn höfðu hlaupið áður, Björn reyndar alltaf með besta tímann. Þeir settu markið báðir á að hlaupa á minna en 4 klukkustundum en ég gældi við að ljúka hlaupi á 4 og ½ tíma. Þeir tróðu sér framar og framar í startinu en 8 þúsund manns biðu eftir því sama og við, að heyra hvellinn. Ég ákvað að halda mig við það að hlaupa einn og kvaddi félaga mína enda ekki ráðlagt að reyna að halda í við þá þar sem þeir ætluðu sér að hlaupa hraðar en ég. Ég fór aftar í skarann þangað til ég fann undanfara sem var merktur 4:30. Einskonar liðsstjóri sem fólk mátti fylgja sem hafði þennan tíma í huga. Einnig var boðið upp á fleiri tíma frá 3 klukkustundum upp í 5:30.
Hvellurinn reið af og fyrstu hlauparar spruttu af stað. 5 mínútum eftir hvellinn komst ég yfir rásmarkið. Mikið af fólki var á götunum að hvetja og svakaleg stemmning var á staðnum. Ég var með GPS úr sem pípti á mig ef ég hljóp of hægt, þannig hélt ég jöfnum hraða og passaði mig að fara heldur ekki of hratt. Ég var ekki með neina drykki með mér enda boðið upp á slíkt með reglulegu millibili, reyndar ekki fyrsta stöð fyrr en eftir 8 kílómetra. Áberandi var að mjög margir notuðu grasbala og tré til að pissa á fyrstu kílómetrunum. Þetta lið hafði greinilega belgt sig út af drykkjum fram að hlaupi, þvílíkir amatörar hugsaði ég en þjálfarinn minn sagði mér að hætta að drekka klukkutíma fyrir hlaup. Sjálfstraustið jókst. Alltaf var eitthvað skemmtilegt að sjá á leiðinni, byggingar, fólk að hvetja okkur, lúðrasveit að spila, trommuleikarar, dansarar og svaka stemmning með reglulegu millibili. Ég reyndi að hugsa sem minnst um alla vegalengdina sem eftir var. Allt gekk þetta vel og ég stoppaði nánast ekkert nema til að henda í mig drykkjum á stöðvunum, hálft glas af vatni og hálft af orkudrykk og svo haldið áfram. Þegar c.a. 20 kílómetrar voru liðnir fór ég að finna fyrir verk í vinstri ökkla sem gert hafði vart við sig á æfingatímabilinu. Vinstri fótur minn er aðeins lengri og því meira álag á hann. Ég hafði sem betur fer gert ráð fyrir uppákomum og skellti í mig tveimur bólgueyðandi og fann ekki meira fyrir þessum verkjum að ráði. Eftir 25 kílómetra sá ég að verulega var farið að draga af sumum keppendum. Sumir voru farnir að ganga, aðrir að haltra og enn aðrir voru greinilega illa haldnir. Mér leið ágætlega en nú fór ég að óttast þröskuldinn sem allir tala um. Um eða eftir 30 kílómetra kemur að vegg sem erfitt er að klífa. Þá á maður bara að hugsa um einn kílómeter í einu og fresta því að hvíla sig. Ég beið alltaf eftir þessu augnabliki en sennilega toppaði ég á réttum tíma því eftir 35 kílómetra var ég þess handviss að ég myndi ekki upplifa þetta. Ég hafði aldrei hlaupið lengra á ævinni og mér leið enn vel. Frábær tilfinning! Ég nærist ekki á ógöngum annarra en ég var samt sáttur að finna hversu vel þetta gekk á meðan aðrir voru greinilega í basli. Þegar leið undir lok hlaupsins hljóp kapp í mig og mig langaði að verða fljótari í mark en 4 og ½ tíma. Því ákvað ég að reyna að herða mig og hlaupa hraðar síðustu 5 kílómetrana. Viti menn ég átti ennþá eitthvað inni enda búinn að gleypa 3 skammta af orkugeli, svei mér þá ef það virkaði ekki. Ég fór fram úr mörgum keppendum á síðustu metrunum og kom mér á óvart hversu margir virtust ætla að labba síðustu kílómetrana. Þetta var fólk sem hafði greinilega hlaupið mun hraðar en ég framan af hlaupi en var nú sprungið á limminu. Kapp er best með forsjá hugsaði ég og svigaði á milli sprunginna hlaupara sem löbbuðu eða skakklöppuðust áfram. Ég náði að ljúka hlaupi á 4:17.01 og þvílík tilfinning að koma í mark á fleygiferð, fá medalíu um hálsinn, sönnun þess að hafa hlaupið maraþon, já hlaupið alla leið. Samt skrýtið... eins og Palli var einn í heiminum... mörg þúsund manns á svæðinu en ég þekkti engan... engin að bíða eftir mér í markinu, ég fann ekki Hálfdan og Björn og ákvað að njóta augnabliksins og rölti um í mannmergðinni og kinkaði kolli til félaga minna, MARAÞONHLAUPARANNA, ég var einn af þeim. Ekki voru allir vel á sig komnir eftir hlaupið. Fólk lá eins og hráviður út um allt, sumir að láta nudda sig, aðrir að láta styðja sig heim, einn að æla bak við tjald... en flestir voru með sigurbros á vör. Ég var einn af þeim. Þvílík gleði!
Ég rölti heim á hótel með plastskikkju um axlir svo ekki myndi slá að mér. Gerði mér þá grein fyrir því að mér var hálft kalt allt hlaupið og var ennþá kalt. Skikkjan var merkt aðal styrktaraðila hlaupsins Glitni. Það er gaman að vera Íslendingur með íslenska skikkju á erlendri grundu. Alveg eins og Superman. Mér leið eins og ofurmenni. Hálfdan og Björn voru komni heim á hótel. Björn hafði sigrað tengdasoninn en Hálfdan náði þeim góða árangri að brjóta 4 tíma múrinn. Það voru fagnaðarfundir hjá okkur og við skelltum okkur í gufu með drykki sem fyrir hlaupið voru á bannlista. Svo fórum við saman í tívolí og borðuðum þar saman öll. Við maraþonhlaupararnir gengum ekkert þetta kvöld. Við svifum. Þessari ferð gleymi ég aldrei. Sennilega reyni ég þetta aftur. Félagar mínir stefna á Berlínamaraþon í haust. Mig langar með... hver veit?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Til hamingju!
26.6.2008 | 15:15
Við höfum séð hér fyrir austan hversu mikilvæg þessi uppbygging er fyrir landshlutann. Því óska ég Húsvíkingum og landsmönnum til hamingju og vona að þetta verði að veruleika. Alþjóðlegir umhverfisverndarsinnar fagna með okkur.
Sennilega hefur þetta verið erfitt fyrir Össur sem er jú með harða "Náttúrufriðarsinna" í Samfylkingunni sem vilja engar framkvæmdir á landsbyggðinni. Þar á allt að standa óbreytt og ekkert fallegra en yfirgefin hús og eyðibyggðir.
Álversyfirlýsing undirrituð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mogginn sker niður á Austurlandi
1.6.2008 | 21:47
Steinunn Ásmundsdóttir hefur að mínu viti staðið sig vel sem blaðamaður á Austurlandi en nú ætlar Morgunblaðið að skera niður. Austurland er ekki nógu merkilegt lengur til þess að hafa þar blaðamann. Þá er það bara RÚV sem er með starfandi blaðamenn/fréttamenn á Austurlandi. Stöð 2 var áður með starfsmenn hér en þeirra hausar þurftu að fjúka og nú fer Mogginn sömu leið. Synd og skömm!
Eftirfarandi tilkynningu fékk ég í tölvupósti í dag:
Vegna breytinga á rekstrarumhverfi og vegna skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum Árvakurs hf., er félagið að fækka störfum og breyta áherslum.
Nýr ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Stephensen, hefur tilkynnt að ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi verði lokað 1. júní.
Jafnframt mun sérstök Austurlandssíða í Morgunblaðinu leggjast af.
Framvegis tekur því ritstjórn í Reykjavík við efni til birtingar.
Ég legg til að við mótmælum þessu. Ég skora á góða og gilda Sjálfstæðismenn að láta ekki þessa niðurlægingu yfir okkur ganga.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Gjaldfrjáls leikskóli - skref í rétta átt
31.5.2008 | 13:34
Frá og með 1. júní 2008 greiða foreldrar í Fjarðabyggð aðeins vistunargjald fyrir eitt barn á leikskóla. Á bæjarráðsfundi þriðjudaginn 27. maí var ákveðið að fella niður vistunargjald af öðru barni en áður hafði sveitarfélagið samþykkt fjögurra klukkustunda gjaldfrjálsa vistun fyrir fimm ára börn. Með þessari ákvörðun vill sveitarfélagið sýna í verki að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem barnafólk finnur að það er á góðum stað.
Þetta samþykkti bæjarráð einróma á síðasta fundi. Stóru málin eru samþykkt af meiri- og minnihluta. Alltaf hingað til.
Litlu málin eru gerð að stórmálum og eru jafnvel blásin upp í fjölmiðlum og greint rangt frá sbr. litla pottamálið á Fáskrúðsfirði. í öllum fjölmiðlum var sagt að meirihlutinn hefði klofnað (sem er rangt) og einnig var sagt að þetta hefði verið samþykkt í bæjarráði (sem var líka rangt). Staðsetning heitra potta við sundlaugina á Fáskrúðsfirði var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum Framsóknar og Fjarðalista í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn voru á móti. Rétt skal vera rétt.
Eru fjölmiðlar landsins að endurskrifa vitleysuna eftir hver öðrum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Minningartónleikar um Höskuld Stefánsson
30.5.2008 | 10:51
Ég hef ekki í langan tíma verið jafn ánægður með nokkra tónleika.
Tónlistarmennirnir voru hver öðrum betri og minning Höskuldar var heiðruð á mjög vandaðan hátt.
Það var Tónlistarskóli Neskaupstaðar sem hafði veg og vanda að undirbúningi tónleikanna. Enn ein skrautfjöðrin í hatt Agga, Jóns Hilmars og Egils.
Það muna allir Norðfirðingar og margir á Austurlandi eftir Höskuldi. Hann var þó kannski þekktastur fyrir að vera húsgagnasali, fyrst man ég eftir Höskuldi á Norðfirði með bókabúð og húsgagnaverslun. Svo var Höskuldur svo framsýnn að hann byggði stóra og flotta verslun á Reyðarfirði og rak hana í mörg ár þangað til að hann seldi hana Svanbirni Stefánssyni sem nú rekur búðina.
Kynni mín af Höskuldi voru góð. Hann var skemmtilegur karakter og eru til margar góðar sögur af Höskuldi um orðhnyttni hans og húmor sem var nokkuð sérstakur. Það sameinaði okkur Höskuld að báðir spiluðum við á básúnu sem ungir menn og báðir veittum við Egilsbúð forstöðu um árabil. Höskuldi þótti vænt um Egilsbúð enda er það hús sérstaklega gott tónleikahús sem sannaðist í gær. Tónlist eins og flutt var á tónleikunum í gær, nánast öll órafmögnuð, hljómaði vel um allan sal. Það er öfugmælavísa að sumir telji að selja eigi félagsheimilin, sem eru okkar menningarhús, á meðan önnur sveitarfélög berjast í bökkum við að byggja slík hús. Egilsbúð er menningarhús Norðfirðinga, punktur. Ég er þess viss að hvergi annars staðar hefði Höskuldur vilja halda svona tónleika.
Þegar Súellen gaf út fyrstu plötuna og Símon er lasinn hljómaði á öldum ljósvakans hitti ég Höskuld. "Já þetta er bara svolítið sniðugt þetta lag þarna um þennan veika, já bara nokkuð sniðugt" Sagði Höskuldur. Hann spurði mig um hljómsveitarmeðlimi og gat hann tengt okkur alla við tónlistarmenn sem hann þekkti og hafði jafnvel spilað með á sínum yngri árum. "Svo er gítarleikarinn okkar frá Seyðisfirði en býr nú á Egilsstöðum, hann heitir Tómas Tómasson" sagði ég. Höskuldur hugsaði sig um í smá stund og átti væntanlega enga ættartengingu á þennan mann við tónlistarmenn á Norðfirði. "Tómas! Ha, ha, hann á gott rúm!" sagði Höskuldur svo undirtók í búðinni og málið var útrætt.
Höskuldur var kannski ekki mjög hrifinn af popptónlist og spurði hvort við spiluðum ekki jazz. Ég kvað lítið um það. "En kunnið þið ekki improvisasjon?" Ég var nú hræddur um það og sagði að við værum alltaf að leika okkur og lögin væru nánast aldrei flutt eins. Það líkaði honum. Höskuldur var örugglega sammála því sem einhver vitur maður sagði. Það er til einskis að lesa nótur ef tónlistin kviknar ekki í hjartanu. Til gamans má geta þess að systkinin þrjú sem skipa Bloodgroup eru barnabörn Höskuldar. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni sannast á syni Höskuldar honum Stefáni Ragnari sem er þverflautuleikari á heimsmælikvarða, ef ég veit rétt, og svo á Bloodgroup. Ég minni á tónleika með Bloodgroup sem verða í Egilsbúð á sjómannadaginn.
Ég heyrði Höskuld oft spila. Hann spilaði með hjartanu. Hann spilaði dinner fyrir mig í Egilsbúð eftir að hann hafði veikst en gerði það listavel. Svo mikil virðing var borin fyrir Höskuldi að það mátti heyra saumnál detta á meðan hann spilaði. Þannig að dinnertónlistin var í raun tónleikar Höskuldar. Ég man líka eftir honum á þjóðlagaveislu sem haldin var í Egilsbúð í kringum 1990 og svo kom Höskuldur einu sinni suður með okkur í Brján og spilaði á fína flygilinn á Broadway og var að sjálfsögðu vel tekið.
Ég óska fjölskyldu Höskuldar og Tónskóla Neskaupstaðar til hamingju með frábæra tónleika. Takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Baby, we were born to run!
19.5.2008 | 16:52
Eins og Sprinsteen félagi minn sagði.
Mér gekk vel í hlaupinu, lauk keppni á 4:17 og skemmti mér vel allt hlaupið. Fann aldrei fyrir verulegum verkjum en auðvitað var þetta erfitt, smá:-)
Dáni braut 4 tíma múrinn en Bjössi vann eins og vanalega á 3:52. Gaman að vera með þeim í Köben, þeirra egtakvindum og sonum Erlu Hálfdáns.
Er nú hjá Hödda (Harðar Stefáns flugvellinum) og Önnu, erum að fara grilla og det er dejligt! Stelpurnar þeirra eru sætar og góðar og Úlfhildur sú yngsta er bara að fíla Gumma frænda frá Íslandi mjög vel.
Meira seinna. Takk fyrir góðar kveðjur og hvatningu.
Bloggar | Breytt 21.5.2008 kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Akureyri - Köben
15.5.2008 | 21:34
Jebb, fer til Köben á morgun. Slaka á þar á laugardaginn, næ í rásnúmer og tilheyrandi út af hlaupinu og hitti Hálfdán og fjölskyldu og Björn og Önnu.
Svo er maraþonið á sunnudagsmorgun 9:30 (7:30 á íslenskum)
Ég set inn fréttir hvernig gekk, ég ætla mér að klára þetta með stolti.
Minn eini keppinautur er ég sjálfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30 km í dag
3.5.2008 | 21:02
Fín vika að baki hjá mér. Ég hljóp 20 km á sunnudag, svo 15 og 7 km. Svo fór ég 30 km í dag og varð það lengsti leggurinn sem ég fer í þessari þjálfun. Vikan gerir því 72 km. Ég rann þessa 30 km á 3:07 með smá stoppi heima þegar ég fyllti á brúsana. Annars skokkaði ég þetta á jöfnum hraða, kláraði 20 km á 2 tímum sléttum og var þar af leiðandi 1:07 með síðustu 10. Er bara nokkuð sprækur eftir. Drakk fullt af vatni og Powerade seinnihlutann á hlaupinu, gataði hægri hæl og er með blöðrur á 3 támJAnnars eru axlirnar aðallega að stríða mér, helv... vöðvabólga sem byggist upp á hlaupunum, þó er þetta að skána eftir að ég fór að halda höndum neðar og reyna að slaka á.
Með þessu áframhaldi er ég bjartsýnn á að klára þetta fyrsta maraþon mitt á 4:30. Samt setur strik í reikninginn og undirbúninginn að ég er að fara í vinnuferð til Munchen og Köben sem tekur 6 daga og ekki útséð hversu mikið ég get hlaupið í þeirri ferð.
Bless í biliBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)