Færsluflokkur: Bloggar
Jæja!
6.5.2009 | 10:28
Hvernig væri nú að fara að blogga aftur svona til tilbreytingar? Mikil vinna, faðmur fjölskyldunnar, ferming og að sjálfsögðu Facebook hefur höggið verulegt skarð í bloggferilinn, ef feril skyldi kalla. Ekki það að mig dreymi um að verða frægur bloggari... er það annars hægt? Jú, sennilega... allavega Jens Guð!
Annars er af nógu að taka, mikið um að vera í bæjarráði, endurskoðun fjárhagsáætlunar sem er mjög erfið, snjóflóðavarnir að skríða af stað í Neskaupstað, læknamálið á Eskifirði ekki til lykta leitt... því miður fyrir alla aðila. Ég ætla ekki að tjá mig um það fyrr en öll kurl eru komin til grafar en mikið er ég hugsi.
Þangað til næst, Guð blessi ykkur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Veturinn er tíminn.
22.3.2009 | 21:22
Það er búið að vera yndislegt veður til útivistar hér fyrir austan.
Fjölskyldan hefur farið töluvert á skíði. María Bóel er að æfa skíði og er líka orðin nokkuð lunkin á bretti. Svo keyptum við okkur "nýjan" snjósleða sem hefur runnið ljúft með okkur upp á fjöll.
Bikarmót var í Oddsskarði um helgina þar sem við Gunna unnum við mótið á laugardegi. Veðrið var frábært og sennilega eru allir gestir Oddsskarðsins rjóðir í vanga eftir helgina.
Hér er ein mynd tekin niður í Hellisfjörð. Reyndar tekin á gsm síma. Maður gleymir alltaf myndavélinni. Fleiri myndir eru í albúminu "Veturinn 2009".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Maraþon á landsmóti í sumar
12.3.2009 | 09:46
Nú er ég loksins búinn að finna markmið... eða öllu heldur Jói Tryggva sem gaukaði þessu að mér.
Ég ætlaði reyndar bara að hlaupa erlendis eins og ég gerði með Hálfdáni og Birni í fyrra en þið vitið, gengið og allt þetta vesen setur strik í reikninginn. Reykjavíkurmaraþon hentar mér ekki, tímasetningin er þannig. Maður á að njóta sumarsins, það er Neistaflug, pæjumót, hjólhýsaferðir, grill og öl sem því fylgir. Því er formið ekki upp á það besta í ágúst.
Landsmót UMFí verður haldið á Akureyri í júlí og í fyrsta skipti verður keppt í maraþonhlaupi. Þetta verður einnig fyrsta maraþonhlaupið í Eyjafirði. Hlaupið fer líklega fram laugardaginn 11. júlí fyrir hádegi. Þá reyni ég að nálgast tímann 4 klukkustundir en í Kaupmannahöfn hljóp ég á 4:17.
þetta er verðugt og skemmtilegt markmið.
Hér með auglýsi ég eftir góðu fólki til að slást í för með okkur Jóa Tryggva. Það er ekki of seint að byrja. 4 mánuðir til stefnu.
Þá er ég búinn að opinbera markmiðið og setja á mig pressu.
Nú verður ekki aftur snúið.
"Run to the hill, run for you life"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Long time no blog!
11.3.2009 | 13:18
Eitthvað er maður nú latur við að blogga þessa dagana.
Ekki lofa ég bót og betrun, best að segja sem minnst.
Dagurinn í gær var ótrúlegur:
-ÉG gleymdi símanum heima (35 km)
-Tölvan varð rafmagnslaus á bæjarráðsfundi, neitaði að hlaða sig og ég varð sambandslaus við umheiminn.
-Tölvutengingin á skrifstofunni virkaði ekki eftir hádegi.
-Bókun mín í flug klúðraðist og svo var orðið fullt í vélina þegar það uppgötvaðist.
-Eyrún dóttir mín fór að baka... en það voru plastílát í bakaraofninum sem hún vissi ekki af. Það fór þó vel og varð ekki teljandi tjón.
Annars er bara gaman að fylgjast með prófkjörum flokkanna. Ég var ekki sáttur við prófkjör Samfylkingar í NA-kjördæmi en maður jafnar sig á því. Einar Már átti betra skilið að mínu mati.
Tryggvi Þór er í bölvuðum vandræðum. Hann hefur kannski ekki gert neitt ólöglegt en vilja kjósendur menn sem tóku 300 milljóna lán sem ekki þurfti að standa skil á? Þetta var eins og með aðra kaupréttarsamninga. Möguleiki var á að græða og græða mikið en engin hætta á að tapa. Þetta tíðkaðist þá en nú eru breyttir tímar. Einn sveitungi okkar Tryggva sagði jafn líklegt að Tryggvi væri með flekklausa fortíð og að finna hreina mey í hóruhúsi. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sjálfstæðismenn velja sitt fólk og verður forvitnilegt að sjá hvernig Tryggva gengur. Hann verður örugglega góður þingmaður ef hann fær til þess stuðning.
Þangað til næst.
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kraftaverk? Grein í Morgunblaðinu í dag 19. febrúar 2009
19.2.2009 | 09:46
Margt hefur verið skeggrætt um áhrif íslensks áliðnaðar á efnahagslífið undanfarið og hafa andstæðingar atvinnuuppbyggingar á sviði álframleiðslu gjarnan verið þar fremstir í flokki. Út frá mismunandi forsendum hafa menn komist að mjög mismunandi niðurstöðu, allt frá því að efnahagsleg áhrif íslensks áliðnaðar séu nánast engin, upp í að þau séu svo mikil að Íslendingar séu í stórhættu af því að setja öll eggin í sömu körfu.
Því hefur jafnvel verið haldið fram að íslensk álver skapi nánast engin störf í landinu. Ástæðan sé sú að hefði uppbygging í áliðnaði ekki komið, hefði það fólk sem nú hefur atvinnu af því að framleiða ál til útflutnings, einfaldlega gert eitthvað annað. Í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði starfa 450 manns. Á álverslóðinni starfa auk þess 250-300 verktakar við margvísleg störf fyrir álverið. Þetta eru samanlagt nær 750 störf. Að auki hafa bæst við á Austurlandi fjölmörg störf sem beinlínis má rekja til framkvæmdanna hér eystra, auk starfa annars staðar á landinu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að efnahagsleg áhrif álversins í Reyðarfirði eru mikil. Það er mikilvæg ný kjölfesta í atvinnumálum fjórðungsins og hafi einhverntíma verið þörf fyrir styrkar stoðir í íslensku atvinnulífi er það núna, þegar um fjórtán þúsund manns eru komnir á atvinnuleysisskrá og fer fjölgandi.
Íbúum í Fjarðabyggð fjölgar um 19%Á árunum 1990 til 2002 fækkaði íbúum á Mið-Austurlandi um 1200 manns vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum, eða um tæp 13%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 13%. Þetta svarar til þess að allir íbúar Eskifjarðar hefðu flutt burt. Á sama tíma og álverið var í byggingu töpuðust um 300 störf í sjávarútvegi í Fjarðabyggð. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafa meðallaun á landsbyggðinni þrátt fyrir það verið hæst á Austurlandi frá árinu 2002, en þá voru komin upp áform um að fara í virkjunar- og álversframkvæmdir þar. Ný störf tengd starfsemi álversins hafa orðið til þess að fjölskyldur sem höfðu flutt burt hafa fengið störf við hæfi í heimabyggð og snúið til baka. Ef borinn er saman fjöldi íbúa í Fjarðabyggð árið 2002 og árið 2008 er fjölgunin um 740 manns eða 19%. Við núverandi aðstæður, þegar atvinnuleysi fer vaxandi, er hægt að gera sér í hugarlund hvernig atvinnuástandið væri í Fjarðabyggð hefði bygging álversins ekki komið til.
Aukin umsvif annarra fyrirtækjaFram hefur komið að fyrir utan kaup á raforku, hafi Alcoa Fjarðaál keypt ýmsa þjónustu á Íslandi fyrir níu og hálfan milljarð króna árið 2008. Stór hluti þessarar upphæðar hefur runnið til atvinnustarfsemi á Austurlandi. Hér starfa skipafélög, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki, vélsmiðjur, rafverktakar og fjölmörg önnur fyrirtæki sem hafa getað aukið umsvif sín á Austurlandi verulega vegna þjónustu við álverið.
700-800 milljónir til sveitarfélagaTekjur sveitarfélaganna á Austurlandi af fasteignagjöldum, hafnargjöldum og útsvari þeirra sem vinna hjá álverinu í Reyðarfirði og verktökum á álverslóðinni, voru 700 til 800 milljónir króna árið 2008. Meirihluti teknanna rennur til Fjarðabyggðar og þær eru mikilvægur tekjustofn til að viðhalda og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Þá eru ótalin áhrif áhrif ýmissa styrkja sem Alcoa hefur veitt í samfélagsleg málefni á Austurlandi, svo sem til menningarviðburða, íþrótta, Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu nema þessir styrkir samtals rúmlega 300 milljónum króna frá árinu 2003 til 2008. Fyrirtækið hefur einnig haft ýmis óbein, jákvæð áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, m.a. vegna áherslu á öryggismál starfsmanna og umhverfismál.
Álverið og tengd starfsemi skapa mikilvægar gjaldeyristekjur og virðisauka fyrir Austurland og íslenskt samfélag úr endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þó að kraftaverk séu álíka sjaldgæf hér á Austurlandi og annars staðar, er einfaldlega fráleitt að halda því fram að áhrif álversins og Kárahnjúkavirkjunar á samfélagið hér á Austurlandi hafi valdið vonbrigðum, eins og nýr umhverfisráðherra hefur haldið fram.
Guðmundur R. Gíslason,forseti bæjarstjórnar FjarðabyggðarBloggar | Breytt s.d. kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kristján Möller!!!
29.1.2009 | 10:32
Fundað um stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvað gerist næst?
26.1.2009 | 13:27
Ég þakka fyrir að á tillögur mínar var hlustað, sbr. færslu mína hér að neðan.
Reyndar á eftir að láta Davíð fjúka en það gerist á næstu dögum.
Svo er spurning hvernig samstarf verður myndað um stjórn og hvenær verður kosið.
Ég vona að menn snúi bökum saman og samstaða náist um þjóðstjórn fram að kosningum.
Takk.
Gummi
Stjórnarsamstarfi lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tillögur til Ríkisstjórnar Íslands
21.1.2009 | 10:55
1. Bjóða stjórnarandstöðunni, verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi sveitarfélaga samstarf til lausnar vanda íslendinga.
2. Reka Davíð Oddsson og stjórn Seðlabankans, fjármálaráðherra og stjórn Fjármálaeftirlitsins. (sennilega næst ekki samstaða um þetta) því liður 3.
3. Boða til kosninga síðar á þessu ári. Það verður ekki umflúið. kosningar eru eina leiðin til þess að fá vinnufrið fyrir alþingi og endurnýja umboðið. Þá er líka verið að axla pólitíska ábyrgð.
Guðmundur Rafnkell Gíslason
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Norðfirðingafélagið
16.1.2009 | 10:37
Mig langar til að benda á stórgóðan vef Norðfirðingafélagsins.
http://www.nordfirdingafelagid.is/
Þessi vefur er nýr og ber metnaði félagsins gott vitni. Félagið varð nýlega 40 ára.
Þessa mynd var mér bent á í dag. Þarna er pabbi minn og félagar hans í hljómsveit á árum áður. Myndina á Birgir D. Sveinsson.
Aftari röð. Gísli Sigurbergur Gíslason og Jón Lundberg, neðri röð, Guðmundur Sigmarsson, Birgir Dagbjartur Sveinsson og Jón Karlsson.
Semsagt 2 Súellen pabbar í aftari röð (eins og kannski má sjá)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ef það kemur frétt um Alcoa worldwide geta sumir ekki stillt sig. Er þetta ekki kallað að berja hausnum við steininn?
Sjá hér: http://dofri.blog.is/blog/dofri/entry/769666/
Já, já, ég veit hvað sumir segja, "þetta er nú flokksbróðir þinn..... bla, bla, bla!" Það er rétt en hann er í röngum flokki að mínu mati. Ekki orð um það meir. Ég gat ekki stillt mig um að kommenta aðeins:
"Þetta er skemmtileg umræða.
Ég vil taka fram að við erum með flóru smærri fyrirtækja í Fjarðabyggð, mörg þeirra þjónusta álverið önnur ekki. Það sem Dofri er að tala um er þetta "eitthvað annað" sem hvorki Steingrímur Joð eða aðrir álversandstæðingar hafa getað komið almennilega í orð, hvað þá framkvæmd.
Ég vil minna á að vestfirðingar buðu Náttúruverndarsamtökum íslands, að mig minnir, að koma hugmyndum sínum í framkvæmd á Vestfjörðum sem þeir höfðu fyrir Austurland. Þá var fátt um svör. Kannski var ekki áhugi á að framkvæma "eitthvað annað" fyrir vestan?
Allir! Álver útilokar ekki smærri fyrirtæki heldur ýtir undir vöxt þeirra. Smærri fyrirtæki blómstra síður í deyjandi byggð.
Svona til gamans, þó ekki sé það gamanmál, þá má upplýsa að störfum í sjávarútvegi hefur fækkað um 300 í Fjarðabyggð frá 2002. Þá þarf ekki snilling til að ímynda sér hvernig ástandið væri hér ef hið "ómögulega álver" hefði ekki verið byggt.
Bið að heilsa á kaffihúsin í Reykjavík, þarf að fara að kíkja í kaffi. Sömuleiðis væri gaman ef þið kíktuð austur, það kostar reyndar 2* meira en að fara til Köben en ég veit að þið látið það ekki stoppa ykkur."