Læknamálið á Eskifirði - Sorglegt í alla staði!

Okkur í bæjarstjórn var tjáð á sínum tíma að það væri komin á "heimastjórn" hjá Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Valdimar O. Hermansson (bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins)  og Lilja Aðalsteinsdóttir áttu að sjá um ráðningar og daglegan rekstur. Ég var frekar gáttaður á orðum Einars Rafns í fréttum Rúv sem sjá má hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498039/2010/06/30/9/

Hann virðist ennþá í skotgröfunum og virðist ekki hafa lært ennþá hvernig á að sætta mismunandi sjónarmið. Ég spyr líka um heimastjórnina, er hún ennþá til?

Nú verður spennandi að sjá hvað bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur um málið að segja. Fyrrverandi bæjarstjórn ályktaði um málið og á framboðsfundum eignaði Jens Garðar sér málið. Nú er hann í meirihluta, formaður bæjarráðs. Við hlið hans er áðurnefndur Valdimar. þetta er snúið fyrir suma!

 


Nýr meirihluti í Fjarðabyggð

Hvers vegna? Í fjölmiðlum var það látið líta svo út að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft valið því hann var sigurvegari kosninganna. Í raun var það þannig að Framsóknarflokkurinn ákvað að hætta núverandi meirihlutasamstarfi og hoppa upp í hjá íhaldinu. Það er svo sem í lagi en mér finnst Framsókn verða að skýra þetta betur út fyrir okkur kjósendum.

Nú bíð ég spenntur eftir svörum frá Framóknarflokknum hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Já og líka hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka boði Framsóknar í stað þess að neita og taka upp viðræður við Fjarðalistann.

Ágreiningur í kosningabaráttunni var töluverður á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og m.a. fór Guðmundur Þorgrímsson yfir það á fundi í Neskaupstað hvernig sjálfstæðismenn fóru frjálslega með staðreyndir. Eiður Ragnarssson rak lygi ofan í Jens Garðar í blaði Framsóknar og er enn að pönkast í þeim sem sjá má hér í athugasemdum:  http://www.austurglugginn.is/index.php/Frettir/Frettir/Valdimar_fekk_flestar_utstrikanir_i_Fjardabyggd

Framsókn velur semsagt frekar að vinna með andstæðingum sem fara með fleipur í kosningabaráttu í stað þess að vinna áfram með samstarfsflokki sem fór fram með málefnalega kosningabaráttu og hefur verið góður samstarfsflokkur. Ég sem fyrrverandi samstarfsmaður í meirihluta hef allavega ekki fengið kvartanir frá fyrrverandi samstarfsflokki, Framsóknarflokknum í Fjarðabyggð.

Sjálfstæðisflokkur vill frekar vinna með flokki sem sakar þá um lygar og staðreyndafölsun.

"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur."

Ég bíð spenntur eftir útskýringum frá öllum flokkunum þremur á því hvernig stendur á því að nýr meirihluti var myndaður eins og raun ber vitni.

Svo væri gaman að vita hvers vegna niðurstaðan varð sú að auglýsa eftir bæjarstjóra. Ég hélt að báðir flokkar vildu leita að reyndum heimamanni. Ég spái því að eftir auglýsingaferlið verði ráðinn sjálfstæðismaður. Mjög líklega er um það samið á bakvið tjöldin að Sjálfstæðisflokkurinn ráði þessu.

Svo spyr ég eins og sumir hafa spurt. Hvar er meirihlutasamningurinn? Afhverju er hann ekki opinberaður strax?

Annars er ég bara hress og sef ágætlega út af þessu en hef þungar áhyggjur af því að Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð þurrkist út í næstu kosningum. Eða nei... ég hef engar áhyggjur af því :-)


Allt hefur sinn tíma

í gær sat ég síðasta bæjarstjórnarfund minn (í bili allavega:-)) Fyrir 20 árum sat ég þann fyrsta. Helmingur af minni ævi hefur farið í sveitarstjórnarmál og sé ég ekki eftir einni einustu mínútu. Fundurinn var enn sögulegri fyrir Smára Geirsson vin minn sem ég hef starfað með allan þennan tíma. Hann á 28 ára glæsilegan feril að baki. Við Smári fluttum svohljóðandi tillögu á fundinum í gær.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkir að í tengslum við uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu verði gert ráð fyrir minningarreit um snjóflóðin sem féllu 1974. Minningarreiturinn verði innan við þéttbýlið á þeim slóðum er Mánahúsið stóð áður. Bæjarstjórn felur umhverfissviði að gera tillögu að reitnum í samvinnu við umhverfishönnuði varnarvirkjanna. 

 

Málþing var haldið í Egilsbúð sunnudaginn 16. maí. Það var byrjun á sýningunni "Flóðin" sem verður opin í Egilsbúð í sumar. Málþingið var mögnuð stund og sáust víða tár á hvarmi. Jón Hilmar Kárason í Egilsbúð er hvatamaður að sýningunni og hefur hann fengið félaga sinn Jón Knút Ásmundsson til að vinna í verkefninu með sér í upplýsingaöflun m.a. með viðtölum. Meðal þeirra sem voru með erindi á málþinginu voru séra Svavar Stefánsson  er var sóknarprestur í Neskaupstað árin eftir snjóflóðin og Árni Þorsteinsson er bjargaðist eftir 20 tíma, innilokaður í rústum og snjó. Þá var Harpa Grímsdóttir frá Veðurstofunni með áhrifamiklar myndir af snjóflóðum og gott yfirlit yfir söguna og þróun byggðar.

Rósa Margrét Sigursteinsdóttir var ung kona er flóðin féllu og bjargaðist ásamt ungri dóttur sinni á undraverðan hátt. Hún lenti í seinna flóðinu er kom úr Miðstrandaskarði. Á meðal mannvirkja sem urðu fyrir síðara flóðinu var bifreiðaverkstæði, steypustöð og íbúðarhúsið Máni en það var ysta byggingin sem lenti í flóðinu. Í risi hússins var Rósa stödd og eins árs dóttir hennar, Sigrún Eva Karlsdóttir. Er flóðið skall á Mána rifnaði húsið af grunni og brotnaði í smátt, að undanskildu risinu sem barst um 80 metra með flóðinu. Í risinu höfðu Rósa og dóttir hennar verið sofandi er flóðið féll og  lifðu þær flóðið af. Það var áhrifamikið að hlusta á frásögn Rósu og heyra um hennar líf eftir flóðin. Tillaga okkar Smára er í raun frá henni komin en hún færði þetta í tal á málþinginu.

Ég mun svo mælast til þess að hugmyndir um minningarreitin verði gerðar í samráði við þá er málið varðar mest.

12 fórust í snjóflóðunum. Blessuð sé minning þeirra er fórust, þeirra sem aldrei fundust og megi góður guð forða okkur frá því að svona nokkuð gerist aftur.

 

 


Hvernig er staðan á austurvígstöðvunum?

Ég mætti á 3 af 6 sameiginlegum fundum sem framboðin voru með í Fjarðabyggð. Almennt fundust mér framsögur og fyrirspurnir málefnalegar. Það var kominn smá hiti í mannskapinn í lokin, þó sérstaklega Jens Garðar vin minn sem fór mikinn á síðasta fundinum í Neskaupstað. Jens er eins og "Séð og heyrt" - "gerir lífið skemmtilegra" :-) Mér fannst þó mikil mistök... og umtöluð að Valdimar hafi ekki mætt á fundinn á Eskifirði. Kannski var hann löglega forfallaður.

Þegar maður er ekki í hringiðunni þá er erfitt að gera sér grein fyrir hvernig stemmningin er. Hvað haldið þið gott fólk?

Er Fjarðalistinn að fara að rústa þessu? Besti flokkurinn í Fjarðabyggð!

Er Jón Björn kannski að sópa til sín atkvæðum eins og honum tókst í prófkjörinu?

Hvað með hægri sveifluna sem greinilega varð fyrir 4 árum. Er Jens að meika það?

 

Endilega segið mér hvað þið eruð að hugsa og hvað þið heyrið.

Þetta er jú alltaf jafn spennandi... finnst mér.

Kær kveðja!

Gummi Stalín (II)


Kosningabarátta

Það óneitanlega skrýtið að vera ekki í slagnum fyrir þessar kosningar. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér eða af því að ég er ekki í framboði að mér finnst umræðan vera frekar dauf. Það er varla talað um kosningarnar. Framboðin hafa öll verið að senda bæklinga þar sem sést að skoðanaágreingur framboðanna er lítill. Það kemur svo sem ekki á óvart. Þessi 4 ár sem ég haf starfað sem forseti bæjarstjórnar hafa verið góð að því leyti að allir hafa unnið saman og lítið verið um misklíð.

Ég stend sáttur upp úr mínu sæti og þakka samstarfsfólki öllu fyrir gott starf og góð kynni. Helst vil ég þakka Smára Geirssyni og Guðmundi Bjarnasyni fyrrverandi bæjarstjóra fyrir gott samstarf og vináttu. Einnig vil ég þakka Guðmundi Þorgrímssyni og Helgu Jónsdóttur bæjarstýru góð kynni og farsælt samstarf.

það sem þarf að ræð fyrir þessar kosningar er m.a:

-Nýr Leikskóli í Neskaupstað

-Endurfjármögnun lána. Lengja lánstíma til að skapa svigrúm til framkvæmda. Það er varla hægt að skera mikið meira niður án þess að það bitni á þjónustunni.

-Stjórnsýslan. Breytingar? Samanþjöppun valds á Reyðarfirði eða dreifð stjórnsýsla? Mér finnst skrýtið að ekki sé stafkrókur um þetta hjá B-listanum en Jón Björn oddviti þeirra lét nú aldeilis að sér kveða er skrifstofunni var lokað (hún færð) í Neskaupstað.

-Hugsanlega sala á Hitaveitu Eskifjarðar

-Hugsanleg sala á Rafveitu Reyðarfjarðar

-Hugsanlega sala á Félagslundi á Reyðarfirði (sem ég er á móti)

-Huga þarf sérstaklega að útjöðrum sveitarfélagsins, Stöðvarfirði og Mjóafirði. Á báðum stöðum er lítið atvinnustarfsemi. Það hlýtur að vera metnaður bæjarstjórnar að reyna að efla staðina.

-Umhverfismál. Vel hefur tekist til að mínu mati með snyrtingu bæjarkjarnana en betur má ef duga skal.

Svo verða samgöngumál örugglega í umræðunni. Þar eru allir sammála en áfram verður að þrýsta á að framkvæmdir hefjist við Norðfjarðargöng.

Margt annað verður rætt en eitt að lokum:

Mér finnst leiðinlegt að framboðin bjóði ekki fram bæjarstjóraefni. Fjarðalistinn hefur að vísu skýrt sitt mál en aðrir þaga þunnu hljóði.


Í fréttum er þetta helst...

...hérna í Valsmýrinni.

Við María liggjum saman í klessu í stofusófanum. Hún nartar í pizzu frá því í gærkvöldi og horfir á barnaefnið. Ég er með tölvuna í fanginu og hamra inn helstu fréttir af okkur.

Ekki hefur Svínaflensan lagt okkur en stelpurnar hafa verið kvefaðar og sá sem þetta ritar hefur einnig steinlegið í kvefpest. Guðrún stendur þetta allt af sér enda hraustari en við til samans. Stebba Þorleifs genin eru ekkert kex!

Eyrún er að hanna kjól með vinkonum sínum sem þær ætla að setja í samkeppni í Atóm. þemað er "endurvinnsla" og verður þetta forvitnilegur kjóll svo ekki sé meira sagt. Eyrún er líka að fara að syngja með bekkjarfélögum sínum í söngleiknum Abbababb sem settur verður upp í Egilsbúð af 9. bekk Nesskóla og foreldrum. Ætli ég verði ekki í hlutverki doktorsins sem bassaleikari í bandinu. Það er áskorun í tvennum skilningi: Dr Gunni er skemmtilegur bassaleikari og ég... er ekki bassaleikari!!!!

María keypti sér rafmagnsgítar um daginn og er mjög áhugasöm um að gerast rokkari. Hún er að læra á píanó hjá Agli í tónskólanum og finnst það frábært. Ég lofaði að leiðbeina henni á gítarinn og mun gera það af veikum mætti en miklum áhuga. Hún er í 3. bekk og gengur vel í náminu. María Bóel er orkubolti sem helst vil hafa nóg að gera frá morgni til kvölds.

Eyrún Björg og María Bóel
Eyrún Björg og María Bóel

Guðrún er að kenna 1. bekk í Nesskóla þar sem margir snillingar eru að hefja skólagöngu sína. Þar á meðal eru tvíburar Villu og Svanbergs, demantarnir okkar Ólafía Ósk og Elmar Örn. Þau hafa frá því þau byrjuðu að tala kallað Gunnu "Diddu" eins og Villa gerði og gerir enn. Nú þurfa þau að kalla hana Gunnu eða Guðrúnu í skólanum og gengur það vel. Þau eru frábær og ekki laust við að Gunna sé stolt af því að fá að leiðbeina þeim frændsystkinum sínum að stíga fyrstu skrefin í náminu. Guðrún hefur einnig umsjón með uppsetningu 9. bekkjar á Abbababb þannig að það verður nóg að gera á næstunni.

Ég er að sjálfsögðu að stjórna og stýra Gámaþjónustu Austurlands sem telur um 30 starfsmenn sem allir nema tveir vinna í álverinu eða fyrir álverið. Þetta hefur verið mikið uppbyggingar- og frumkvöðlastarf þar sem Alcoa krefst endurvinnslu eða endurnýtingu á öllu sem fellur til. Einnig erum við í ýmsum verkefnum s.s. iðnaðarþrifum, útflutningi, sérverkefnum og ráðgjöf. Ekkert er okkur óðviðkomandi. Samstarfsfólkið hjá Gámaþjónustunni er frábært og án þeirra væri ég löngu hættur. Starf mitt í bæjarstjórninni hefur minnkað eftir að ég hætti í bæjarráði. Það var kærkomið. Nú styttist í bæjarstjórnarkosningar sem verða í vor og hef ég tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér. Það er ekkert leyndarmál. Ég er búinn að vera í þessu í 20 ár, þ.a. 15 ár sem aðalfulltrúi í vor. Mér finnst ég vera búinn að standa vaktina nógu lengi. Nú mega aðrir eyða frítíma sínum í þetta vanþakkláta starf. Samt vil ég taka fram að mér hefur fundist þetta ótrúlega skemmtilegur tími og væri ég löngu hættur ef ég hefði ekki haft gaman af og talið mig vera að gera samfélagi mínu eitthvert gagn. Ekki var ég í þessu vegna launanna það er ljóst! Þau hafa þó skánað síðan ég byrjaði. Ég lofa því ekki að hætta í pólitík... til þess er ég of ungur (40 í febrúar) og ég hef ennþá brennandi áhuga á samfélagsmálum og vil heimabyggðinni allt hið besta.

Ég er og verð landsbyggðarmaður og það er mín eina sanna vitrun í pólitík.

Mér gengur illa að finna mig innan flokkakerfisins. Ég hef stutt Samfylkinguna og var einhvers staðar á listanum fyrir síðustu alþingiskosningar. En svei mér þá... ég efast um að ég myndi kjósa Samfylkinguna í dag. Allavega líst mér ekki á skattaáform þeirra sem verða til þess eins að lengja í kreppunni og stöðva alla uppbyggingu og þróun. Það getur ekki verið skynsamlegt að slátra eða misþyrma mjólkurkúnni eða éta meginhlutann af útsæðinu

Við Gunna erum að fara að skemmta okkur í kvöld. Við erum að fara á Rokkveisluna í Egilsbúð. Um er að ræða upprifjun á 20 ára sögu Rokkveislunnar. Það verður gaman af því að vera í salnum því í flestum þessara sýninga höfum við Gunna tekið þátt. Hún með dansana og ég í söng. Svo rákum Egilsbúð í 9 ár þannig að þetta er okkar "baby" í mörgum skilningi. Nú erum við í fríi og ætlum okkur að njóta. Óska ég flytjendum góðs gengis.

Ekki fleira í bili.

Njótum dagsins, morgundagurinn er ekki sjálfgefinn.


Sveitarfélagið Austurland?

Þegar ég var ungur (yngri) dreymdi mig um 3. stjórnsýslustigið. Ég var svo einfaldur að halda að kannski gæfi Alþingi eftir völd til héraðsstjórna og Austurland yrði eitt fylki sem réði sínum málum sjálft og hefði sjálfstæða tekjustofna miðað við það sem við öflum. Austurland væri góssenland ef þetta hefði orðið að veruleika.

Ég held að þetta sé ennþá hægt. Við förum bara aðra leið að settu marki. Mínar hugmyndir eru:

  • Sameina sveitarfélög á Austurlandi í eitt.
  • Kjósa á 4. ára fresti í stjórn Austurlands og kjósa einnig í stjórnir þjónustueininga sem væru nokkrar á meðan samgöngur eru ekki betri. t.d. ein stjórn í Neskaupstað, önnur fyrir Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og svo framvegis svo ég taki dæmi úr mínu sveitarfélagi. Þegar samgöngur batna fækkaði þessum stjórnum. Með þessu færum við völdin aftur nær íbúunum. Stjórn Austurlands færi með stærri málin og yfirstjórn.
  • Semja við ríkið um niðurfellingu skulda hins nýja sveitarfélags. Bara dropi í hafið miðað við allt ruglið sem verið er að fella niður í dag.
  • Semja við ríkið um að við tökum yfir rekstur allra opinberra stofnanna á Austurlandi, heilbrigðisþjónustu, vegagerð og fl.
  • Gera bindandi samgönguáætlun við ríkið sem fæli í sér stórfelldar vegabætur og jarðgöng til Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Vopnafjarðar..... Mætti vera 20 ára áætlun, helst styttri.
  • Sameina stoðstofnanir sveitarfélaga að einhverju marki undir stjórn Austurlands og nýta betur samvinnu í þágu alls Austurlands. T.d. Menningarráð Austurlands og Markaðsskrifstofu Austurlands, Þróunarfélag og ..... af mörgu er að taka.

Eflaust er hægt að hafa þetta mun lengra og ítarlegra en ég nenni ekki að skrifa meira í bili.

Ef þessar forsendur væru til staðar væri ég til í að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.

Samþykkt SSA var svohljóðandi:

43. aðalfundur SSA, haldinn á Seyðisfirði 25. - 26. september 2009, samþykkir að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.

Hópnum er falið eftirfarandi:

  • að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags
  • að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu
  • að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins
  • að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust

Hér er um að ræða ótvírætt tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti.

Samþykkt einróma.

Frestun á snjóflóðamannvirkjum - einu sinni enn?

Þegar snjóflóðin féllu á Vestfjörðum 1994 með hörmulegum afleiðingum lofaði þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson úrbótum um allt land. Heilmikið hefur verið gert, m.a. í Neskaupstað þar sem upptakastoðvirki og þvergarður var byggður til að verja hluta byggðarinnar neðan Drangagils. Ætlunin var að halda áfram í sífellu en þegar stóriðjuáform komust á koppinn var ákveðið að fresta framkvæmdum vegna þenslunnar á Austurland... gott og vel. Fyrir því voru ákveðin rök. Þegar kreppan knúði dyra og samdráttur varð á flestum sviðum áttu þessi rök ekki lengur við. Fyrr á þessu ári var því lofað á borgarafundi í Neskaupstað af forsvarsmönnum Ofanflóðasjóðs og Umhverfisráðuneytis (eftir samþykki fjármálaráðuneytis) að boðið yrði út samhliða upptakastoðvirki og þvergarður neðan Tröllagils, sem verja á innsta hluta bæjarins. Búið er að bjóða út upptakastoðvirkin en þvergarðurinn hikstar nú í ríkiskerfinu.

Ég er kannski svona vitlaus en ég spyr hvers vegna er frestað?

Við erum að tala um mikið hættusvæði, mannslíf eru í veði

Peningar eru til í sjóðnum

Framkvæmdir er til þess fallnar að draga úr atvinnuleysi/kreppunni, eru mannaflsfrekar. 

Mér finnst þetta með ólíkindum og spyr hvort eigi að nota peninga Ofanflóðasjóðs í eitthvað annað????? Jafnvel "eitthvað annað".

Svar óskast.


Klárlega snillingur!

þeir sem efast um hæfileika Bjarkar eru annað hvort skrýtnir eða fordómafullir. Ekki finnst mér allt hennar efni skemmtilegt en klárlega er hún söngkona sem á engan sinn líka og tónskáld sem fer sínar eigin leiðir. Ef Björk hefði ákveðið að fara auðveldu leiðina og syngja auðmeltanleg popplög væri hún skör neðar og sennilega ekki heimsfræg.

Björk vill Íslandi vel, um það efast ég ekki um. Hún var á móti virkjun og álveri hér fyrir austan en ekki dettur mér til hugar að bera kala til hennar vegna þess. Hún má hafa sína skoðun. Hún fær líka stærri plús en aðrir andstæðingar atvinnuuppbyggingar því hún hefur reynt að benda á aðrar leiðir og hefur staðið fyrir ráðstefnu og vinnuhópum ef ég man rétt. Björk er hugmyndarík með einsdæmum og hver veit nema eitthvað komi út úr þessari vinnu. Mér finnst vanta fréttir af þessari vinnu, hvar er þetta verkefni á vegi statt? Ætli Björk geti ekki lagt peninga í ýmislegt ef hún hefur áhuga? Kannski er hún eini ríki Íslendingurinn sem tapaði ekki aleigunni í kreppunni? Hvað veit maður svo sem? Allavega hef ég ekki heyrt um gjaldþrot hennar eins og Baugs, Samsonar og Bjórgólfs.

Við sem vorum fylgjandi virkjun og álveri fyrir austan megum heldur ekki vera svo meðvirk að við samþykkjum virkjanir og stóriðju út um allt. Öll viljum við jú vernda náttúruna líka... er það ekki?

Mikið væri nú gaman ef Björk gæti komið með okkur hér fyrir austan í hugmyndavinnu því við viljum halda áfram að byggja upp Austurland sem okkur þykir svo vænt um.

Svo væri upplagt fyrir hana að halda tónleika í Fjarðabyggðarhöllinni. Hefur hún komið fram út á landi síðan hún söng á Uxa hér um árið?

Svo finnst mér svo gaman að tengja farsælt fólk við Norðfjörð. (Án ábyrgðar-held ég muni þetta rétt) Fósturpabbi Bjarkar til margra ára átti afa á Norðfirði sem hét Jósef, Jobbi gamli. Hann er þá fóstur-langafi Bjarkar. Húsið hans er enn í eigu fjölskyldunnar og ég var alltaf að vona að Björk kæmi og tæki sumarfrí sitt hér á Norðfirði. Hver veit? Hún kom jú einu sinni á Neistaflug og sigldi með Fjarðaferðum. Munið þið eftir því?


mbl.is Björk fær Schola cantorum til liðs við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski maður skokki þetta næst?

Þetta er örugglega skemmtilegt hlaup. Ég er ekki alveg tilbúinn svona viku eftir maraþon en kannski seinna.

Pjetur St. Arason vinur minn er búinn að undirbúa sig undir þetta hlaup. Ég óska Pjetri góðs gengis og skemmtunar. Koma svo Pjetur!

Ég og Jói Tryggva eftir Maraþon á landsmóti UMFÍ

Ég og Jói Tryggva nokkuð ferskir eftir maraþonið á landsmóti UMFÍ um síðustu helgi.


mbl.is Margir hlaupa Laugaveginn um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband