Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Guðmundur Bjarnason - Minning

Í dag verður borinn til grafar í Neskaupstað Guðmundur Bjarnason fyrrverandi bæjarstjóri í Neskaupstað og Fjarðabyggð. Hin síðari ár vann Guðmundur hjá Alcoa Fjarðaáli.

Guðmundur Bjarnason var einn allra besti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Leiðir okkar lágu fyrst saman árið 1990 þegar ég hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum þá 20 ára gutti. Það var svo skrítið að það var Ágúst Ármann sem gabbaði mig í pólitík, ég lét til leiðast því ég leit svo mikið upp til Smára Geirs og Einars Más sem þarna voru fyrir. Svo varð það algjör bónus að kynnast Guðmundi sem varð einn af mínum bestu vinum. Guðmundur fór fljótlega að kalla mig nafna og þótti mér vænt um það. Þetta ár varð Guðmundur aðalmaður í bæjarstjórn Neskaupstaðar og ári seinna var hann orðinn bæjarstjóri. Ég tók strax eftir því að Guðmundur var leiðtogi í húð og hár, fæddur til að stjórna og gerði það vel alla tíð. Þegar Ásgeir Magnússon hætti þótti það eiginlega sjálfgefið að Guðmundur tæki við. Sem ungum manni fannst mér gott hvað hann var tilbúinn að taka mark á okkur yngra fólkinu í starfinu og aldrei fann ég annað en hann liti á okkur sem jafningja.

Árið 1997 fór ég að reka Egilsbúð ásamt félaga mínum og þá urðu samskipti okkar Gumma enn nánari því skrifstofa mín var undir skrifstofu bæjarstjóra. Ég heyrði oft þegar lyklinum var snúið og Gumma kallaði á mig: „Nafni minn, ertu þarna?“ Þá fór ég upp til hans og við fórum yfir málin. Ekkert endilega málefni bæjarstjórnar því Guðmundur hafði sannkallaðan innri áhuga á að allt innan fjallahringsins gengi vel. Hann hvatti mig til dáða með reksturinn í Egilsbúð, hafði brennandi áhuga á tónlistinni hjá Brján og SúEllen, var reyndar heilmikill rokkari inn við beinið þó að hann hafi hvorki sungið eða spilað. Reyndar söng hann á Kommablótunum en bara í upphafs- og lokasöng. Hann var annálsritarinn í nærri hálfa öld. Það var árið 2003 sem mér var boðið að koma í þennan hóp sem skrifaði og flutti annálinn á þorrablótinu. Upphaf þessarar vinnu var alltaf eins. Gummi og Smári Geirs komu til mín á milli jóla og nýjars og við tókum rúnt um bæinn. Í þessum bíltúrum var alltaf mikið hlegið og mest af því sem ekki var hægt að nota í annálinn.
Gummi Bjarna að halda ræðu í fertugsafmæli GRGGuðmundur var alveg ótrúlegur húmoristi og er vinnan við þorrablótin eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri á hverju ári. Nú síðastliðin 2 skipti var Gummi ekki með okkur vegna veikinda en hann kom með hugmyndir og sló á puttana á okkur þegar honum fannst við á rangri leið. Það verða mikil viðbrigði fyrir okkur Smára og Jón Björn að galdra fram annál án Gumma. Það sem einum finnst fyndið finnst öðrum ekki. Húmor Gumma var mjög lúmskur og ekki hægt að skýra út fyrir leikmönnum og eins fannst mér stundum skrítið hvað Gumma fannst ekki fyndið þegar við hinir veltumst um af hlátri.... „Já, finnst ykkur þetta fyndið? Jæja sjáum til...“ Svo tók hann niður punkta í kurteisisskyni og ef til vill fann hann einhvern nýjan flöt á sama máli sem honum fannst fyndinn og þá komst atriðið inn í annálinn. Það er nú alveg efni í heila ritgerð að fjalla um Gumma og þorrablótin. Yfirleitt stóð ritun annáls fram á síðasta dag, jafnvel fram eftir blótsdegi. Mér fannst Gummi stundum eins og sagnfræðingur sem er alltaf að bíða eftir að nýjar heimildir dúkki upp og geti því ekki klárað söguritun en svona var Gummi, hann vildi gera vel og var sífellt að betrumbæta og fá nýjar hugmyndir. Svo skammaði hann okkur, þó aðallega Smára, þegar á hólminn var komið því þessi annálsritun tók á minn mann og eins framkoman. Allir út í sal halda að þetta hafi alltaf verið létt en oft tók þetta á Guðmund Bjarnason að koma fram. Helstu áhyggjuefni Gumma var alltaf það sama. Að annállinn yrði of langur og ef hann varð það, að hans mati, þá var það Smára að kenna... alltof langir söngtextar! Þegar ég lít nú til baka þá er það nöturleg staðreynd að bæði Gummi og Aggi séuð farnir. Við hinir stöndum eftir hálf vopnlausir en munum að sjálfsögðu gera okkar besta til að halda húmornum á lofti.

Árið 2006 veiktist Gummi alvarlega, barðist hetjulega og virtist sigra, átti mörg góð ár. Faðir minn veiktist af samskonar sjúkdómi árið 2007 og þá leitaði ég mikið til Gumma sem reyndist bæði mér og pabba vel. Gummi var mér stoð og stytta þegar pabbi dó, því gleymi ég aldrei.

Gummi vann síðustu árin hjá Alcoa Fjarðaáli. Þar lágu leiðir okkar aftur saman og í raun finnst mér eins og við Gummi höfum unnið saman síðan ég var tvítugur. Okkar samband var þó fyrst og fremst vinasamband og get ég ekki líst því með orðum hversu sorgmæddur ég er nú þegar hann hefur kvatt. Ég fékk fréttina þar sem við Gunna mín stóðum í dynjandi rigningu á Eistnaflugi. Smári Geirs hringdi í mig. Í gegnum hugann þutu alls kyns hugsanir, ég vorkenndi Smára hans besta vini, ég hugsaði til Klöru, til vina minna Ívars og Stellu... Ég var ekki tilbúinn og fann hvernig tilveran í Neskaupstað varð einhvern veginn fátækari. Tár okkar Gunnu streymdu eins og rigningin og enn gráta himnarnir þegar þetta er skrifað, mér finnst það eðlilegt. (Innskot, í gær 17. júlí á afmælisdaginn þinn skein svo sól í fyrsta skipti í langan tíma)

Það er ekki gaman eða þægilegt að heimsækja þá sem við elskum á sjúkrahús, vitandi í hvað stefnir. Ég spurði þig um daginn hvort það væri mikill gestagangur. Þú svaraðir: „Klara mín er hér alltaf og fjölskyldan, svo komið þið vinir mínir. Manni þykir vænt um það hvað maður á marga góða vini.“ Ég svona fékk það á tilfinninguna undir það síðasta að þú vildir kannski bara fá að hvíla þig en skildir vel að við vildum halda áfram að hitta þig. Þú varst jú einu sinni akkeri okkar margra og leiðtogi í svo mörgu.

Elsku vinur, eins og við ræddum um daginn þá eru bara tveir möguleikar að loknu þessu jarðlífi og við vorum sammála um báðir væru bara ágætir. Á þessari stundu kýs ég að trúa þeim seinni og segi bara bless í bili nafni minn.

Ég mun aldrei gleyma þér og þú munt aldrei gleymast. Nafn þitt og gjörðir hafa fyrir löngu ratað á spjöld sögunnar. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Innilegar samúðarkveðjur til allra frá okkur Guðrúnu Smára og dætrum.

(Styttri útgáfa birtist í Morgunblaðinu í dag eða næstu daga)


49. Kommablótið

Þá er 49. Kommablótið afstaðið. Mér leið í gær eins og ég hafi orðið undir valtara. Það tekur á að semja og undirbúa annálinn, þó ekki séu stífar æfingar, því eins og flestir vita er þessi annáll okkar alltaf óæfður í heild sinni og því alltaf mikið "happening" hvað gerist á sviðinu. Við æfum bara lögin og tölum um hvað við ætlum að leika og ákveðum út á hvað leikþættir ganga, svo er bara spunnið. Þá er oft spennandi að sjá hvort maður nær að skipta um búninga á milli atriða og oftast gengur þetta upp en ég var í 10 mismunandi búningum þetta árið. Við Smári semjum söngtextana og í ár skrifuðu Jón Björn og Smári Geirsson talaða málið. Guðmundur Bjarnason sem skrifað hefur annál í næstum 50 ár, var því miður fjarri góðum gamni þetta árið eins og síðast sökum veikinda. Hann veitti okkur þó góð ráð og las yfir annálinn. Ég sakna samvinnunnar við Gumma og vona innilega að kraftaverk gerist í hans veikindum og hann verði með að ári. Hlynur Sveinsson gerði myndbönd með okkur sem var nýlunda þetta árið ásamt því að stjórna tæknimálum á þorrablótinu. Guðjón Birgir sá svo um hljóðstjórn. Aðrir flytjendur auk mín, Smára og Jóns Björns voru: Svanhvít Aradóttir, Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson.

Viðtökur við annálnum voru frábærar, svaka mikið stuð allan tímann, mikið hlegið og klappað. Það er laun alls erfiðisins að fá hrós eftir annál og góðar umsagnir á Facebook. Eins og ein vinkona mín sagði: "Maður er alltaf að koma af besta blótinu til þessa". Á meðan það er tilfinning fólks höldum við áfram á sömu braut.

Þetta árið, rétt eins og í fyrra, söng ég með félögum mínum Maríasi B. Kristjánssyni, Jóni Hilmari Kárasyni, Viðari Guðmundssyni og Helga Georgssyni á dansleiknum á eftir. Þetta er hljómsveitin "Hin alþjóðlega danshljómsveit Ágústar Ármanns" sem í daglegu tali er nefnd "Alþjóðlega bandið". Við Aggi heitinn voru fyrir löngu hættir að skemmta á þessu balli enda yfirdrifið nóg að skemmta í annálnum og svo sá Aggi líka alltaf um undirleik í fjöldasöngnum. Ég lét þó til leiðast að syngja á ballinu í fyrra og gerði það aftur í ár. Það gekk fínt, gríðarlega mikið stuð og þó ég segi sjálfur frá er þetta mjög góð hljómsveit. Ég ætla hins vegar ekki að gera þetta aftur, þ.e. koma fram í annálnum og syngja á balli. Annað hvort er nóg ef maður á ekki að klára öll batterý þessa helgi eins og ég gerði næstum því.

Þorrinn er skemmtilegur tími í Neskaupstað, ríkar hefðir í þorrablótshópum, og í raun mikill samverutími vina og kunningja. Eyrún Björg dóttir okkar kom heim á þorrablót og með henni vinur hennar Björn Þór sem kynntist fjölskyldunni og okkar Þorrahefðum. Nú eru þau farinn aftur norður þar sem Eyrún er að klára stúdentspróf í vor og Björn er að stúdera fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri.

Sveitablótið var fyrir rúmri viku hvar við Gunna vorum í hópi með Jóni Birni og Hildi Völu. Þar söng ég eitt lag á skemmtiatriðunum og söng svo með sömu sveit á ballinu. Reyndar var Helgi Gogga ekki með okkur þar en Bjarni Halldór Kristjánsson vinur minn "Halli í SúEllen" spilaði á gítar og söng með okkur. Það var mjög gaman að fá þann góða vin minn í heimsókn og hann stóð sig með prýði á ballinu eins og við var að búast.

Þorrakveðjur frá Litlu Moskvu, næsta ár er 50. Kommablótið... usss, það verður eitthvað!

Guðmundur R. Gíslason


Hlutur Austurlands

"Útfluttar iðnaðarvörur voru 55,4% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 34,3% meira en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í verðmæti útflutnings iðnaðarvara, aðallega áls. Einnig varð aukning í útflutningi sjávarafurða en samdráttur varð í útflutningi á skipum og flugvélum."

Nú væri gaman að sjá útreikning um það hversu stór hluti útflutnings þjóðarinnar kemur frá Austurlandi. Í þessu sambandi hefur verið rætt um að allt af 25% komi frá Fjarðabyggð þar sem Alcoa og 3 stór sjávarútvegsfyrirtæki starfa. Ég hef hins vegar ekki staðreynt þessar tölur en auglýsi hér með eftir nánari útreikningum á því hvar verðmætin verða til.

Gaman að fá svona jákvæðar fréttir í byrjun árs.


mbl.is 109 milljarða afgangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínir menn í stuði!

Þetta verkefni er búið að vera lengi í farvatninu og vonandi verður þetta að veruleika. Gaman væri ef blaðmenn skrifuðu aðeins ítarlegri frétt um málið. Hverjir eru hvatamenn að þessu og hverjir eru væntanlegir með hlutafé? Þó við fyrir austan þekkjum þetta vel, þá á alþjóð að vita.

Áfram Seyðfirðingar og svo vil ég göng á milli okkar ;-)


mbl.is Færa verksmiðju í heilu lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásta Ragnheiður - Forseti Íslands

"Það hitnaði í þingsal Alþingis í dag þegar þingmenn ræddu störf þingsins og fundarstjórn forseta í dag. Meðal annars sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, að Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, ætti að skammast sín. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Íslands, bað þingheim í heild að gæta orða sinna."

Hvenær hætti Ólafur Ragnar?

Er Ragnheiður Ásta... fyrirgefið Ásta Ragnheiður ekki forseti Alþingis? Kannski er hún handhafi forsetavalds þar sem Ólafur er í Kína, jamm ætli það ekki :-)

Annars: "Eru ekki allir í stuði?"


mbl.is Og skammastu þín Árni Johnsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg framtíðarsýn!

Ég hef fulla trú á Möller.

Það vantar samt betri skýringar á því hvernig á að fækka sveitarfélögum svona með sameiningum. Þeir sem hafa lesið hugmyndir mínar á þessari síðu um Austurland sem eitt sveitarfélag skilja hvað ég meina. Flutningur á málefnum aldraðra og fatlaðra er eitt og sér ekki nóg til þess að sveitarfélögin verði sú sterka stjórnsýsla sem mig dreymir um.

Stærsta hagsmunamál okkar í Fjarðabyggð eru Norðfjarðargöng. Ég fagna því að framkvæmdir hefjist sem fyrst og ljúki eigi seinna en 2015. Kristján er búinn að lofa Stebba Þorleifs tengdaafa að hann nái að keyra þarna í gegn. Hann er 94 ára gamall og eldhress. Ég rétt vona að Stebbi sjái þennan gamla draum sinn rætast.

Gangi þér vel Kristján!


mbl.is Vill 20 sveitarfélög árið 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg reiði granna minna

Miðað við allt bullið og sukkið sem hefur átt sér stað í bankakerfinu skilur maður svo sem að það þurfi að hagræða en góðan dag!

Reyndar er það mín tillaga að íbúar Fjarðabyggðar mótmæli allir og láti Landsbankann finna fyrir því að við erum ekki ánægð.

Svo vona ég að Sparisjóður Norðfjarðar sem nú er að stórum hluta í eigu Fjarðabyggðar og fyrirtækja í Fjarðabyggð íhugi alvarlega að opna útibú á Stöðvarfirði. Það væri lausn á þessu leiðinlega máli.

Kær kveðja!

Guðmundur R. Gíslason,

íbúi í Fjarðabyggð sem er ekki í viðskiptum við Landsbanka Íslands og hefur aldrei verið svo ég muni.


mbl.is Þungt hljóð í íbúum á Stöðvarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Læknamálið á Eskifirði - Sorglegt í alla staði!

Okkur í bæjarstjórn var tjáð á sínum tíma að það væri komin á "heimastjórn" hjá Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Valdimar O. Hermansson (bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins)  og Lilja Aðalsteinsdóttir áttu að sjá um ráðningar og daglegan rekstur. Ég var frekar gáttaður á orðum Einars Rafns í fréttum Rúv sem sjá má hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4498039/2010/06/30/9/

Hann virðist ennþá í skotgröfunum og virðist ekki hafa lært ennþá hvernig á að sætta mismunandi sjónarmið. Ég spyr líka um heimastjórnina, er hún ennþá til?

Nú verður spennandi að sjá hvað bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur um málið að segja. Fyrrverandi bæjarstjórn ályktaði um málið og á framboðsfundum eignaði Jens Garðar sér málið. Nú er hann í meirihluta, formaður bæjarráðs. Við hlið hans er áðurnefndur Valdimar. þetta er snúið fyrir suma!

 


Nýr meirihluti í Fjarðabyggð

Hvers vegna? Í fjölmiðlum var það látið líta svo út að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft valið því hann var sigurvegari kosninganna. Í raun var það þannig að Framsóknarflokkurinn ákvað að hætta núverandi meirihlutasamstarfi og hoppa upp í hjá íhaldinu. Það er svo sem í lagi en mér finnst Framsókn verða að skýra þetta betur út fyrir okkur kjósendum.

Nú bíð ég spenntur eftir svörum frá Framóknarflokknum hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Já og líka hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka boði Framsóknar í stað þess að neita og taka upp viðræður við Fjarðalistann.

Ágreiningur í kosningabaráttunni var töluverður á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og m.a. fór Guðmundur Þorgrímsson yfir það á fundi í Neskaupstað hvernig sjálfstæðismenn fóru frjálslega með staðreyndir. Eiður Ragnarssson rak lygi ofan í Jens Garðar í blaði Framsóknar og er enn að pönkast í þeim sem sjá má hér í athugasemdum:  http://www.austurglugginn.is/index.php/Frettir/Frettir/Valdimar_fekk_flestar_utstrikanir_i_Fjardabyggd

Framsókn velur semsagt frekar að vinna með andstæðingum sem fara með fleipur í kosningabaráttu í stað þess að vinna áfram með samstarfsflokki sem fór fram með málefnalega kosningabaráttu og hefur verið góður samstarfsflokkur. Ég sem fyrrverandi samstarfsmaður í meirihluta hef allavega ekki fengið kvartanir frá fyrrverandi samstarfsflokki, Framsóknarflokknum í Fjarðabyggð.

Sjálfstæðisflokkur vill frekar vinna með flokki sem sakar þá um lygar og staðreyndafölsun.

"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur."

Ég bíð spenntur eftir útskýringum frá öllum flokkunum þremur á því hvernig stendur á því að nýr meirihluti var myndaður eins og raun ber vitni.

Svo væri gaman að vita hvers vegna niðurstaðan varð sú að auglýsa eftir bæjarstjóra. Ég hélt að báðir flokkar vildu leita að reyndum heimamanni. Ég spái því að eftir auglýsingaferlið verði ráðinn sjálfstæðismaður. Mjög líklega er um það samið á bakvið tjöldin að Sjálfstæðisflokkurinn ráði þessu.

Svo spyr ég eins og sumir hafa spurt. Hvar er meirihlutasamningurinn? Afhverju er hann ekki opinberaður strax?

Annars er ég bara hress og sef ágætlega út af þessu en hef þungar áhyggjur af því að Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð þurrkist út í næstu kosningum. Eða nei... ég hef engar áhyggjur af því :-)


Hvernig er staðan á austurvígstöðvunum?

Ég mætti á 3 af 6 sameiginlegum fundum sem framboðin voru með í Fjarðabyggð. Almennt fundust mér framsögur og fyrirspurnir málefnalegar. Það var kominn smá hiti í mannskapinn í lokin, þó sérstaklega Jens Garðar vin minn sem fór mikinn á síðasta fundinum í Neskaupstað. Jens er eins og "Séð og heyrt" - "gerir lífið skemmtilegra" :-) Mér fannst þó mikil mistök... og umtöluð að Valdimar hafi ekki mætt á fundinn á Eskifirði. Kannski var hann löglega forfallaður.

Þegar maður er ekki í hringiðunni þá er erfitt að gera sér grein fyrir hvernig stemmningin er. Hvað haldið þið gott fólk?

Er Fjarðalistinn að fara að rústa þessu? Besti flokkurinn í Fjarðabyggð!

Er Jón Björn kannski að sópa til sín atkvæðum eins og honum tókst í prófkjörinu?

Hvað með hægri sveifluna sem greinilega varð fyrir 4 árum. Er Jens að meika það?

 

Endilega segið mér hvað þið eruð að hugsa og hvað þið heyrið.

Þetta er jú alltaf jafn spennandi... finnst mér.

Kær kveðja!

Gummi Stalín (II)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband