Færsluflokkur: Umhverfismál

Allt hefur sinn tíma

í gær sat ég síðasta bæjarstjórnarfund minn (í bili allavega:-)) Fyrir 20 árum sat ég þann fyrsta. Helmingur af minni ævi hefur farið í sveitarstjórnarmál og sé ég ekki eftir einni einustu mínútu. Fundurinn var enn sögulegri fyrir Smára Geirsson vin minn sem ég hef starfað með allan þennan tíma. Hann á 28 ára glæsilegan feril að baki. Við Smári fluttum svohljóðandi tillögu á fundinum í gær.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkir að í tengslum við uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu verði gert ráð fyrir minningarreit um snjóflóðin sem féllu 1974. Minningarreiturinn verði innan við þéttbýlið á þeim slóðum er Mánahúsið stóð áður. Bæjarstjórn felur umhverfissviði að gera tillögu að reitnum í samvinnu við umhverfishönnuði varnarvirkjanna. 

 

Málþing var haldið í Egilsbúð sunnudaginn 16. maí. Það var byrjun á sýningunni "Flóðin" sem verður opin í Egilsbúð í sumar. Málþingið var mögnuð stund og sáust víða tár á hvarmi. Jón Hilmar Kárason í Egilsbúð er hvatamaður að sýningunni og hefur hann fengið félaga sinn Jón Knút Ásmundsson til að vinna í verkefninu með sér í upplýsingaöflun m.a. með viðtölum. Meðal þeirra sem voru með erindi á málþinginu voru séra Svavar Stefánsson  er var sóknarprestur í Neskaupstað árin eftir snjóflóðin og Árni Þorsteinsson er bjargaðist eftir 20 tíma, innilokaður í rústum og snjó. Þá var Harpa Grímsdóttir frá Veðurstofunni með áhrifamiklar myndir af snjóflóðum og gott yfirlit yfir söguna og þróun byggðar.

Rósa Margrét Sigursteinsdóttir var ung kona er flóðin féllu og bjargaðist ásamt ungri dóttur sinni á undraverðan hátt. Hún lenti í seinna flóðinu er kom úr Miðstrandaskarði. Á meðal mannvirkja sem urðu fyrir síðara flóðinu var bifreiðaverkstæði, steypustöð og íbúðarhúsið Máni en það var ysta byggingin sem lenti í flóðinu. Í risi hússins var Rósa stödd og eins árs dóttir hennar, Sigrún Eva Karlsdóttir. Er flóðið skall á Mána rifnaði húsið af grunni og brotnaði í smátt, að undanskildu risinu sem barst um 80 metra með flóðinu. Í risinu höfðu Rósa og dóttir hennar verið sofandi er flóðið féll og  lifðu þær flóðið af. Það var áhrifamikið að hlusta á frásögn Rósu og heyra um hennar líf eftir flóðin. Tillaga okkar Smára er í raun frá henni komin en hún færði þetta í tal á málþinginu.

Ég mun svo mælast til þess að hugmyndir um minningarreitin verði gerðar í samráði við þá er málið varðar mest.

12 fórust í snjóflóðunum. Blessuð sé minning þeirra er fórust, þeirra sem aldrei fundust og megi góður guð forða okkur frá því að svona nokkuð gerist aftur.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband