Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

Allt hefur sinn tíma

í gær sat ég síðasta bæjarstjórnarfund minn (í bili allavega:-)) Fyrir 20 árum sat ég þann fyrsta. Helmingur af minni ævi hefur farið í sveitarstjórnarmál og sé ég ekki eftir einni einustu mínútu. Fundurinn var enn sögulegri fyrir Smára Geirsson vin minn sem ég hef starfað með allan þennan tíma. Hann á 28 ára glæsilegan feril að baki. Við Smári fluttum svohljóðandi tillögu á fundinum í gær.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkir að í tengslum við uppbyggingu snjóflóðavarnarmannvirkja ofan Urðarteigs og Hlíðargötu verði gert ráð fyrir minningarreit um snjóflóðin sem féllu 1974. Minningarreiturinn verði innan við þéttbýlið á þeim slóðum er Mánahúsið stóð áður. Bæjarstjórn felur umhverfissviði að gera tillögu að reitnum í samvinnu við umhverfishönnuði varnarvirkjanna. 

 

Málþing var haldið í Egilsbúð sunnudaginn 16. maí. Það var byrjun á sýningunni "Flóðin" sem verður opin í Egilsbúð í sumar. Málþingið var mögnuð stund og sáust víða tár á hvarmi. Jón Hilmar Kárason í Egilsbúð er hvatamaður að sýningunni og hefur hann fengið félaga sinn Jón Knút Ásmundsson til að vinna í verkefninu með sér í upplýsingaöflun m.a. með viðtölum. Meðal þeirra sem voru með erindi á málþinginu voru séra Svavar Stefánsson  er var sóknarprestur í Neskaupstað árin eftir snjóflóðin og Árni Þorsteinsson er bjargaðist eftir 20 tíma, innilokaður í rústum og snjó. Þá var Harpa Grímsdóttir frá Veðurstofunni með áhrifamiklar myndir af snjóflóðum og gott yfirlit yfir söguna og þróun byggðar.

Rósa Margrét Sigursteinsdóttir var ung kona er flóðin féllu og bjargaðist ásamt ungri dóttur sinni á undraverðan hátt. Hún lenti í seinna flóðinu er kom úr Miðstrandaskarði. Á meðal mannvirkja sem urðu fyrir síðara flóðinu var bifreiðaverkstæði, steypustöð og íbúðarhúsið Máni en það var ysta byggingin sem lenti í flóðinu. Í risi hússins var Rósa stödd og eins árs dóttir hennar, Sigrún Eva Karlsdóttir. Er flóðið skall á Mána rifnaði húsið af grunni og brotnaði í smátt, að undanskildu risinu sem barst um 80 metra með flóðinu. Í risinu höfðu Rósa og dóttir hennar verið sofandi er flóðið féll og  lifðu þær flóðið af. Það var áhrifamikið að hlusta á frásögn Rósu og heyra um hennar líf eftir flóðin. Tillaga okkar Smára er í raun frá henni komin en hún færði þetta í tal á málþinginu.

Ég mun svo mælast til þess að hugmyndir um minningarreitin verði gerðar í samráði við þá er málið varðar mest.

12 fórust í snjóflóðunum. Blessuð sé minning þeirra er fórust, þeirra sem aldrei fundust og megi góður guð forða okkur frá því að svona nokkuð gerist aftur.

 

 


Hvernig er staðan á austurvígstöðvunum?

Ég mætti á 3 af 6 sameiginlegum fundum sem framboðin voru með í Fjarðabyggð. Almennt fundust mér framsögur og fyrirspurnir málefnalegar. Það var kominn smá hiti í mannskapinn í lokin, þó sérstaklega Jens Garðar vin minn sem fór mikinn á síðasta fundinum í Neskaupstað. Jens er eins og "Séð og heyrt" - "gerir lífið skemmtilegra" :-) Mér fannst þó mikil mistök... og umtöluð að Valdimar hafi ekki mætt á fundinn á Eskifirði. Kannski var hann löglega forfallaður.

Þegar maður er ekki í hringiðunni þá er erfitt að gera sér grein fyrir hvernig stemmningin er. Hvað haldið þið gott fólk?

Er Fjarðalistinn að fara að rústa þessu? Besti flokkurinn í Fjarðabyggð!

Er Jón Björn kannski að sópa til sín atkvæðum eins og honum tókst í prófkjörinu?

Hvað með hægri sveifluna sem greinilega varð fyrir 4 árum. Er Jens að meika það?

 

Endilega segið mér hvað þið eruð að hugsa og hvað þið heyrið.

Þetta er jú alltaf jafn spennandi... finnst mér.

Kær kveðja!

Gummi Stalín (II)


Kosningabarátta

Það óneitanlega skrýtið að vera ekki í slagnum fyrir þessar kosningar. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér eða af því að ég er ekki í framboði að mér finnst umræðan vera frekar dauf. Það er varla talað um kosningarnar. Framboðin hafa öll verið að senda bæklinga þar sem sést að skoðanaágreingur framboðanna er lítill. Það kemur svo sem ekki á óvart. Þessi 4 ár sem ég haf starfað sem forseti bæjarstjórnar hafa verið góð að því leyti að allir hafa unnið saman og lítið verið um misklíð.

Ég stend sáttur upp úr mínu sæti og þakka samstarfsfólki öllu fyrir gott starf og góð kynni. Helst vil ég þakka Smára Geirssyni og Guðmundi Bjarnasyni fyrrverandi bæjarstjóra fyrir gott samstarf og vináttu. Einnig vil ég þakka Guðmundi Þorgrímssyni og Helgu Jónsdóttur bæjarstýru góð kynni og farsælt samstarf.

það sem þarf að ræð fyrir þessar kosningar er m.a:

-Nýr Leikskóli í Neskaupstað

-Endurfjármögnun lána. Lengja lánstíma til að skapa svigrúm til framkvæmda. Það er varla hægt að skera mikið meira niður án þess að það bitni á þjónustunni.

-Stjórnsýslan. Breytingar? Samanþjöppun valds á Reyðarfirði eða dreifð stjórnsýsla? Mér finnst skrýtið að ekki sé stafkrókur um þetta hjá B-listanum en Jón Björn oddviti þeirra lét nú aldeilis að sér kveða er skrifstofunni var lokað (hún færð) í Neskaupstað.

-Hugsanlega sala á Hitaveitu Eskifjarðar

-Hugsanleg sala á Rafveitu Reyðarfjarðar

-Hugsanlega sala á Félagslundi á Reyðarfirði (sem ég er á móti)

-Huga þarf sérstaklega að útjöðrum sveitarfélagsins, Stöðvarfirði og Mjóafirði. Á báðum stöðum er lítið atvinnustarfsemi. Það hlýtur að vera metnaður bæjarstjórnar að reyna að efla staðina.

-Umhverfismál. Vel hefur tekist til að mínu mati með snyrtingu bæjarkjarnana en betur má ef duga skal.

Svo verða samgöngumál örugglega í umræðunni. Þar eru allir sammála en áfram verður að þrýsta á að framkvæmdir hefjist við Norðfjarðargöng.

Margt annað verður rætt en eitt að lokum:

Mér finnst leiðinlegt að framboðin bjóði ekki fram bæjarstjóraefni. Fjarðalistinn hefur að vísu skýrt sitt mál en aðrir þaga þunnu hljóði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband