Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Diskurinn fæst í Tónspil

Þá er diskurinn kominn í eina búð á landinu, einskonar forsala. Þetta er að sjálfsögðu hin frábæra plötubúð Tónspil í heimabæ mínum Neskaupstað. Aðrir landsmenn verða að sýna biðlund eða bregða sér austur. Ég verð með útgáfutónleika á Neistaflugi um næstu helgi www.neistaflug.is Nánar um það síðar.

Nú er bara 20 stiga hita og sól hér fyrir austan og Eyrún Björg dóttir mín og pabbi eiga afmæli í dag. Til hamingju bæði tvö. Þetta er yndislegur dagur!

kveðja!

Guðmundur R


Sjálfstæð útgáfa á tónlist. 2. hluti

Þá er ég kominn aftur austur. Ég fór til Reykjavíkur í gærmorgun til að sækja diskinn og dreifa til fjölmiðla. Halli Reynis og Sölvi litli strákurinn hans tóku á móti mér og Sölvi rétti mér fyrsta eintakið af geisladiskinum. Hvílík tilfinning! Ég reif hann úr plastinu eins og lítill strákur með fyrsta jólapakkann. Hjartað hamaðist í brjósti mér þegar ég skoðaði gripinn og sá mér til mikils léttis að allt var eins og það átti að vera. Framleiðsla og uppsetning til fyrirmyndar og allt eins og ég bað hönnuð og framleiðendur um.

Eftir góð ráð frá Halla Reynis, sem hefur gefið út 7 diska á ferlinum, fór ég af stað og Rúv í Efstaleitinu var fyrsta stoppistöð. Ég hitti Óla Palla, Erlu Dúkkulísu og fleira gott fólk á Rásinni. Þar var mér tekið vel og allir jákvæðir. Óli Palli spilaði "Augun mín" sem Magni "Rockstar" syngur með mér þannig að ég var komin í spilun á Rás 2 áður en ég fór út úr húsinu. Takk fyrir Rás 2!

Svo fór ég inn á Sjónvarp og hitti Helga Seljan fyrrum félaga minn úr bæjarstjórn Fjarðabyggðar sem tók mér vel. Eftir að hafa rætt málin og sagt Helga fréttir að heiman kvaddi ég Kastljósið og fór sáttur úr Efstaleitinu og vona að fólki þar líki diskurinn og geri honum góð skil á næstu vikum.

Bylgjan FM 98,9 var næsta stoppistöð. Hitti Frissa trommara þar fyrir utan. Frissi var í "Spoon" með Emilíönu Torrini í denn og hefur oft spilað með okkur í Súellen þegar Jói hefur ekki átt heimangengt. Frissi var hissa að sjá mig og sagði: "Hva, ert þú ekki að villast?" Hann var hissa að hitta mig á Bylgjunni og hafði ekki hugmynd um að ég væri að gefa út plötu. Bylgjan hefur ekki verið sérlega hrifin af Súellen í mörg ár þannig að hann skildi ekki hvað ég var að þvælast þarna... skiljanlega. Ég skildi eftir diska handa Bjarna Ara sem er tónlistarstjóri Bylgjunnar og ræður ásamt öðrum þar innan dyra hvað er spilað og hvað ekki. Nú er bara að vona að Bjarni og félagar verði jákvæðir og spili mig á Bylgjunni. Ég læt ykkur frétta þegar ég fæ að vita af því. Spennandi!!!!!

Útvarp Saga er góð stöð segir Lóló amma þannig að ég fór þangað. Þar tók Arnþrúður Karlsdóttir á móti mér og var jákvæð. Hún lofaði að spila diskinn. "Stilltu á okkur og þú heyrir þetta á eftir" lofaði hún og vildi líka taka viðtal við mig á næstu dögum. Ég stillti á Útvarp Sögu og viti menn. "Samkomulag" hljómaði nokkrum mínútum eftir að ég kvaddi Arnþrúði. Þetta eru viðbrögð í lag. Takk fyrir Útvarp Saga.

Eftir þetta heimsótti ég Gísla bróður og Bergrós verðandi konu hans. Alltaf indælt að koma til þeirra. Fór líka til Halla gítarleikara í Súellen og gaf honum disk. Hann og Nanna áttu 15 ára brúðkaupsafmæli. Til lukku með það!

Svo endaði ég kvöldið hjá Ingvari Lundberg sem vann mikið með mér við plötuna. Við fórum á Ölstofu Kormáks og Skjaldar til að skála fyrir útgáfunni. Hittum þar skemmtilega bræður sem eitt sinn voru í "Kátum piltum". Algjörir snillingar sem gaman var að tala við. Samt skrýtið að allir vilja ræða virkjun og álver við mig og sumir ekki glaðir. Skrýtið! Eða hvað?

Vel lukkaður dagur í Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna.

Diskurinn fer svo í almenna dreifingu í ágúst en verður til sölu fyrir austan á næstu dögum.

Bless í bili!

Guðmundur R

 


Afleiðingar ekki ljósar

Niðurskurður á þorskvótanum kemur til með að hafa gríðarleg áhrif, sérstaklega í minni sjávarplássum landsins. Við í bæjarstjórn Fjarðabyggðar erum að afla upplýsinga um hver áhrifin verða í Fjarðabyggð og verður auka bæjarráðsfundur á miðvikudag til að fjalla um þetta mál. Afleiðingar niðurskurðarins eru ekki ljósar á þessari stundu. Við í Fjarðabyggð erum samt betur sett en mörg önnur sveitarfélög með mikla atvinnuuppbyggingu á öðrum sviðum en samt óttast ég áhrifin sem koma munu í ljós. Ég skora á ríkisstjórn landsins að fylgjast með og reyna að milda þessi áhrif með mótvægisaðgerðum.

Síðan er merkilegt hversu lítið fjallað er um kjaraskerðingu sem sjómenn landsins verða eflaust fyrir. Gunnar vinur minn, háseti á Bjarti NK segist undrast að alltaf sé fjallað um um hve mikil áhrif þetta hafi á fyrirtækin og útgerðirnar en ekki um áhrifin sem þetta mun hafa á sjómenn og fjölskyldur þeirra.

kveðja, Guðmundur R


mbl.is Smábátaeigendur á Austurlandi álykta um niðurskurð á kvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæð útgáfa á tónlist. Fyrsti hluti

Diskurinn minn kom til landsins fyrir viku en erfiðlega gengur að fá hann austur. Mér líður eins og föður sem fær ekki að sjá nýfætt barnið sitt. Halli Reynis snillingur og trúbador er þessa stundina að sækja hann í vöruhúsið og þá nálgast gleðistund! Ég ætla svo að bregða mér til Reykjavíkur á miðvikudag og kynna diskinn fyrir fjölmiðlafólki og freista þess að fá hann spilaðan í útvarpi. Það er jú forsenda þess að hann seljist og fólk viti af honum. Ég gef þennan disk út sjálfur og býst við að dreifa sjálfur. Það er ekki um marga kosti að ræða í þessu sambandi. Stærsta útgáfufyrirtæki landsins sem ræður 65-75% af markaðnum, samkvæmt þeirra heimasíðu, er hætt að dreifa fyrir sjálfstæða útgefendur og er það miður. Reyndar var það svo að ég bauð þeim að heyra plötuna mína þegar hún var nánast tilbúin. En svarið var kurteisilega orðað "nei takk, erum búnir að skipuleggja alla útgáfu þetta árið". Þetta var í apríl. Þeir eru vel skipulagðir fram í tímann, það verður ekki tekið af þeim! Samt skrýtið að vilja ekki hlusta á nýtt efni. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref fyrir 20 árum með Súellen þá voru Steinar Berg og Pétur Kristjáns alltaf til í að hlusta, enda opnir fyrir nýjungum. Er það ekki annars forsenda þróunar?

Fyrir ykkur hin sem ekki eruð búin að loka á nýja tónlist bendi ég á spilarann hér til hliðar. 2 splunkuný lög, njótið!

Kær kveðja,

Guðmundur R


Í upphafi...

Góðan dag góðir Íslendingar!

Þá er ég kominn af stað og nú getur ekkert stoppað mig. Á þessari bloggsíðu ætla ég að kynna fyrir íslendingum nýjan  geisladisk sem ég er að gefa út. Auk þess mun ég blogga um daglegt líf og tjá mig um málefni líðandi stundar. Diskurinn minn "Íslensk tónlist" kemur út á Austurlandi á næstu dögum en verður settur í almenna dreifingu um allt land í haust. Það er ekki einfalt mál að gefa út geisladisk þegar maður gerir það einn og óstuddur. Mig grunar að þessi ferð sem ég legg upp í með þessari útgáfu verði forvitnileg og mun ég hiklaust deila með ykkur þessari ferðasögu. Tónlistarbransinn á Íslandi er lítill og ákaflega sérstakur, því munið þið kynnast.

Ekki meira í bili,

Kær kveðja!

Guðmundur Rumslag


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband