Sjálfstæð útgáfa á tónlist. 2. hluti

Þá er ég kominn aftur austur. Ég fór til Reykjavíkur í gærmorgun til að sækja diskinn og dreifa til fjölmiðla. Halli Reynis og Sölvi litli strákurinn hans tóku á móti mér og Sölvi rétti mér fyrsta eintakið af geisladiskinum. Hvílík tilfinning! Ég reif hann úr plastinu eins og lítill strákur með fyrsta jólapakkann. Hjartað hamaðist í brjósti mér þegar ég skoðaði gripinn og sá mér til mikils léttis að allt var eins og það átti að vera. Framleiðsla og uppsetning til fyrirmyndar og allt eins og ég bað hönnuð og framleiðendur um.

Eftir góð ráð frá Halla Reynis, sem hefur gefið út 7 diska á ferlinum, fór ég af stað og Rúv í Efstaleitinu var fyrsta stoppistöð. Ég hitti Óla Palla, Erlu Dúkkulísu og fleira gott fólk á Rásinni. Þar var mér tekið vel og allir jákvæðir. Óli Palli spilaði "Augun mín" sem Magni "Rockstar" syngur með mér þannig að ég var komin í spilun á Rás 2 áður en ég fór út úr húsinu. Takk fyrir Rás 2!

Svo fór ég inn á Sjónvarp og hitti Helga Seljan fyrrum félaga minn úr bæjarstjórn Fjarðabyggðar sem tók mér vel. Eftir að hafa rætt málin og sagt Helga fréttir að heiman kvaddi ég Kastljósið og fór sáttur úr Efstaleitinu og vona að fólki þar líki diskurinn og geri honum góð skil á næstu vikum.

Bylgjan FM 98,9 var næsta stoppistöð. Hitti Frissa trommara þar fyrir utan. Frissi var í "Spoon" með Emilíönu Torrini í denn og hefur oft spilað með okkur í Súellen þegar Jói hefur ekki átt heimangengt. Frissi var hissa að sjá mig og sagði: "Hva, ert þú ekki að villast?" Hann var hissa að hitta mig á Bylgjunni og hafði ekki hugmynd um að ég væri að gefa út plötu. Bylgjan hefur ekki verið sérlega hrifin af Súellen í mörg ár þannig að hann skildi ekki hvað ég var að þvælast þarna... skiljanlega. Ég skildi eftir diska handa Bjarna Ara sem er tónlistarstjóri Bylgjunnar og ræður ásamt öðrum þar innan dyra hvað er spilað og hvað ekki. Nú er bara að vona að Bjarni og félagar verði jákvæðir og spili mig á Bylgjunni. Ég læt ykkur frétta þegar ég fæ að vita af því. Spennandi!!!!!

Útvarp Saga er góð stöð segir Lóló amma þannig að ég fór þangað. Þar tók Arnþrúður Karlsdóttir á móti mér og var jákvæð. Hún lofaði að spila diskinn. "Stilltu á okkur og þú heyrir þetta á eftir" lofaði hún og vildi líka taka viðtal við mig á næstu dögum. Ég stillti á Útvarp Sögu og viti menn. "Samkomulag" hljómaði nokkrum mínútum eftir að ég kvaddi Arnþrúði. Þetta eru viðbrögð í lag. Takk fyrir Útvarp Saga.

Eftir þetta heimsótti ég Gísla bróður og Bergrós verðandi konu hans. Alltaf indælt að koma til þeirra. Fór líka til Halla gítarleikara í Súellen og gaf honum disk. Hann og Nanna áttu 15 ára brúðkaupsafmæli. Til lukku með það!

Svo endaði ég kvöldið hjá Ingvari Lundberg sem vann mikið með mér við plötuna. Við fórum á Ölstofu Kormáks og Skjaldar til að skála fyrir útgáfunni. Hittum þar skemmtilega bræður sem eitt sinn voru í "Kátum piltum". Algjörir snillingar sem gaman var að tala við. Samt skrýtið að allir vilja ræða virkjun og álver við mig og sumir ekki glaðir. Skrýtið! Eða hvað?

Vel lukkaður dagur í Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna.

Diskurinn fer svo í almenna dreifingu í ágúst en verður til sölu fyrir austan á næstu dögum.

Bless í bili!

Guðmundur R

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SigrúnSveitó

Vá, frábærar móttökur sem þú ert að fá.  Til hamingju með þetta allt.

Ljós&kærleikur... 

SigrúnSveitó, 26.7.2007 kl. 18:47

2 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Good luck.......þetta er eins og endurspilun á ferð minni suður.

Einar Bragi Bragason., 26.7.2007 kl. 23:50

3 identicon

Til hamingju með diskinn Gummi, það er frábært hjá þér að ráðast í svona verkefni.

Margrét Þórðar (IP-tala skráð) 27.7.2007 kl. 10:47

4 identicon

Hæ lagði það á mig að finna Augun mín hjá Óla Palla á RÚV.IS og er bara kátur með þessa útgáfu. Til hamingju með gripinn.

Bárður Örn Bárðarson (IP-tala skráð) 28.7.2007 kl. 19:59

5 Smámynd: Lindan

Innilega til hamingju með diskinn.  Er búin að heyra Augun mín og bíð spennt eftir að geta keypt mér eintak.  Gangi þér vel. 

Lindan, 29.7.2007 kl. 11:42

6 Smámynd: Lindan

Vá ég verð að skrifa framhald.  Hlustaði á lögin sem eru hérna á síðunni þinni og fékk gæsahúð þegar ég hlustaði á Ástrósina.  Fallegt lag og svo á ég 9 ára skvísu sem heitir Ástrós ;)   Diskurinn verður pottþétt keyptur á þessu heimili. 

Lindan, 29.7.2007 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband