Kraftaverk? Grein í Morgunblaðinu í dag 19. febrúar 2009
19.2.2009 | 09:46
Margt hefur verið skeggrætt um áhrif íslensks áliðnaðar á efnahagslífið undanfarið og hafa andstæðingar atvinnuuppbyggingar á sviði álframleiðslu gjarnan verið þar fremstir í flokki. Út frá mismunandi forsendum hafa menn komist að mjög mismunandi niðurstöðu, allt frá því að efnahagsleg áhrif íslensks áliðnaðar séu nánast engin, upp í að þau séu svo mikil að Íslendingar séu í stórhættu af því að setja öll eggin í sömu körfu.
Því hefur jafnvel verið haldið fram að íslensk álver skapi nánast engin störf í landinu. Ástæðan sé sú að hefði uppbygging í áliðnaði ekki komið, hefði það fólk sem nú hefur atvinnu af því að framleiða ál til útflutnings, einfaldlega gert eitthvað annað. Í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði starfa 450 manns. Á álverslóðinni starfa auk þess 250-300 verktakar við margvísleg störf fyrir álverið. Þetta eru samanlagt nær 750 störf. Að auki hafa bæst við á Austurlandi fjölmörg störf sem beinlínis má rekja til framkvæmdanna hér eystra, auk starfa annars staðar á landinu. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að efnahagsleg áhrif álversins í Reyðarfirði eru mikil. Það er mikilvæg ný kjölfesta í atvinnumálum fjórðungsins og hafi einhverntíma verið þörf fyrir styrkar stoðir í íslensku atvinnulífi er það núna, þegar um fjórtán þúsund manns eru komnir á atvinnuleysisskrá og fer fjölgandi.
Íbúum í Fjarðabyggð fjölgar um 19%Á árunum 1990 til 2002 fækkaði íbúum á Mið-Austurlandi um 1200 manns vegna samdráttar í hefðbundnum atvinnugreinum, eða um tæp 13%, á meðan landsmönnum öllum fjölgaði um 13%. Þetta svarar til þess að allir íbúar Eskifjarðar hefðu flutt burt. Á sama tíma og álverið var í byggingu töpuðust um 300 störf í sjávarútvegi í Fjarðabyggð. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hafa meðallaun á landsbyggðinni þrátt fyrir það verið hæst á Austurlandi frá árinu 2002, en þá voru komin upp áform um að fara í virkjunar- og álversframkvæmdir þar. Ný störf tengd starfsemi álversins hafa orðið til þess að fjölskyldur sem höfðu flutt burt hafa fengið störf við hæfi í heimabyggð og snúið til baka. Ef borinn er saman fjöldi íbúa í Fjarðabyggð árið 2002 og árið 2008 er fjölgunin um 740 manns eða 19%. Við núverandi aðstæður, þegar atvinnuleysi fer vaxandi, er hægt að gera sér í hugarlund hvernig atvinnuástandið væri í Fjarðabyggð hefði bygging álversins ekki komið til.
Aukin umsvif annarra fyrirtækjaFram hefur komið að fyrir utan kaup á raforku, hafi Alcoa Fjarðaál keypt ýmsa þjónustu á Íslandi fyrir níu og hálfan milljarð króna árið 2008. Stór hluti þessarar upphæðar hefur runnið til atvinnustarfsemi á Austurlandi. Hér starfa skipafélög, verkfræðistofur, hugbúnaðarfyrirtæki, vélsmiðjur, rafverktakar og fjölmörg önnur fyrirtæki sem hafa getað aukið umsvif sín á Austurlandi verulega vegna þjónustu við álverið.
700-800 milljónir til sveitarfélagaTekjur sveitarfélaganna á Austurlandi af fasteignagjöldum, hafnargjöldum og útsvari þeirra sem vinna hjá álverinu í Reyðarfirði og verktökum á álverslóðinni, voru 700 til 800 milljónir króna árið 2008. Meirihluti teknanna rennur til Fjarðabyggðar og þær eru mikilvægur tekjustofn til að viðhalda og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Þá eru ótalin áhrif áhrif ýmissa styrkja sem Alcoa hefur veitt í samfélagsleg málefni á Austurlandi, svo sem til menningarviðburða, íþrótta, Vatnajökulsþjóðgarðs og fleira. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu nema þessir styrkir samtals rúmlega 300 milljónum króna frá árinu 2003 til 2008. Fyrirtækið hefur einnig haft ýmis óbein, jákvæð áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu, m.a. vegna áherslu á öryggismál starfsmanna og umhverfismál.
Álverið og tengd starfsemi skapa mikilvægar gjaldeyristekjur og virðisauka fyrir Austurland og íslenskt samfélag úr endurnýjanlegum orkuauðlindum. Þó að kraftaverk séu álíka sjaldgæf hér á Austurlandi og annars staðar, er einfaldlega fráleitt að halda því fram að áhrif álversins og Kárahnjúkavirkjunar á samfélagið hér á Austurlandi hafi valdið vonbrigðum, eins og nýr umhverfisráðherra hefur haldið fram.
Guðmundur R. Gíslason,forseti bæjarstjórnar FjarðabyggðarMeginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:49 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gummi og takk fyrir. Þetta eru orð í tíma töluð og væntanlega sendir þú þessi skrif í landsmálablöðin. Kannski Kolbrún Halldórsdóttir og aðrir VG sem hvöttu til fjallagrasa- og hreindýramosasöfnunar reki þá augun í þau.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 19.2.2009 kl. 10:11
Vel mælt, Guðmundur!
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.2.2009 kl. 10:40
fullt hús stiga fyrir þessa grein. Mjög góð.
Valdi (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 11:33
Tek sannarlega undir með þeim sem á undan mér hafa skrifað.
Kkv.
SigrúnSveitó, 20.2.2009 kl. 10:55
Flott grein á máli sem að allir skilja ( vonandi Kolbrún líka )
Verður að komast í dagblöðin.
Bubbi (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.