Færsluflokkur: Fjármál

Sveitarfélagið Austurland?

Þegar ég var ungur (yngri) dreymdi mig um 3. stjórnsýslustigið. Ég var svo einfaldur að halda að kannski gæfi Alþingi eftir völd til héraðsstjórna og Austurland yrði eitt fylki sem réði sínum málum sjálft og hefði sjálfstæða tekjustofna miðað við það sem við öflum. Austurland væri góssenland ef þetta hefði orðið að veruleika.

Ég held að þetta sé ennþá hægt. Við förum bara aðra leið að settu marki. Mínar hugmyndir eru:

  • Sameina sveitarfélög á Austurlandi í eitt.
  • Kjósa á 4. ára fresti í stjórn Austurlands og kjósa einnig í stjórnir þjónustueininga sem væru nokkrar á meðan samgöngur eru ekki betri. t.d. ein stjórn í Neskaupstað, önnur fyrir Eskifjörð, Reyðarfjörð og Fáskrúðsfjörð og svo framvegis svo ég taki dæmi úr mínu sveitarfélagi. Þegar samgöngur batna fækkaði þessum stjórnum. Með þessu færum við völdin aftur nær íbúunum. Stjórn Austurlands færi með stærri málin og yfirstjórn.
  • Semja við ríkið um niðurfellingu skulda hins nýja sveitarfélags. Bara dropi í hafið miðað við allt ruglið sem verið er að fella niður í dag.
  • Semja við ríkið um að við tökum yfir rekstur allra opinberra stofnanna á Austurlandi, heilbrigðisþjónustu, vegagerð og fl.
  • Gera bindandi samgönguáætlun við ríkið sem fæli í sér stórfelldar vegabætur og jarðgöng til Neskaupstaðar, Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Vopnafjarðar..... Mætti vera 20 ára áætlun, helst styttri.
  • Sameina stoðstofnanir sveitarfélaga að einhverju marki undir stjórn Austurlands og nýta betur samvinnu í þágu alls Austurlands. T.d. Menningarráð Austurlands og Markaðsskrifstofu Austurlands, Þróunarfélag og ..... af mörgu er að taka.

Eflaust er hægt að hafa þetta mun lengra og ítarlegra en ég nenni ekki að skrifa meira í bili.

Ef þessar forsendur væru til staðar væri ég til í að sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.

Samþykkt SSA var svohljóðandi:

43. aðalfundur SSA, haldinn á Seyðisfirði 25. - 26. september 2009, samþykkir að fela stjórn SSA að skipa starfshóp sem hafi það meginverkefni að fjalla um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna á starfssvæði SSA í eitt sveitarfélag.

Hópnum er falið eftirfarandi:

  • að gera tillögur að stjórnkerfi nýs sameinaðs sveitarfélags
  • að leita eftir samvinnu við ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála um mögulega sameiningu
  • að kanna vilja ríkisvaldsins til sameiginlegrar stefnumörkunar um opinberar framkvæmdir og verkaskiptingu slíks sveitarfélags og ríkisvaldsins
  • að fjalla um þau áhrif sem tilkoma hins nýja sveitarfélags hefði í för með sér fyrir austfirskt samfélag með sérstakri áherslu á þau tækifæri sem sköpuðust

Hér er um að ræða ótvírætt tímamótaverkefni, sem ekki á sér hliðstæðu á Íslandi. Því er mikilvægt að allir sem að því koma standi að því af metnaði og með vönduðum hætti.

Samþykkt einróma.

Klárlega snillingur!

þeir sem efast um hæfileika Bjarkar eru annað hvort skrýtnir eða fordómafullir. Ekki finnst mér allt hennar efni skemmtilegt en klárlega er hún söngkona sem á engan sinn líka og tónskáld sem fer sínar eigin leiðir. Ef Björk hefði ákveðið að fara auðveldu leiðina og syngja auðmeltanleg popplög væri hún skör neðar og sennilega ekki heimsfræg.

Björk vill Íslandi vel, um það efast ég ekki um. Hún var á móti virkjun og álveri hér fyrir austan en ekki dettur mér til hugar að bera kala til hennar vegna þess. Hún má hafa sína skoðun. Hún fær líka stærri plús en aðrir andstæðingar atvinnuuppbyggingar því hún hefur reynt að benda á aðrar leiðir og hefur staðið fyrir ráðstefnu og vinnuhópum ef ég man rétt. Björk er hugmyndarík með einsdæmum og hver veit nema eitthvað komi út úr þessari vinnu. Mér finnst vanta fréttir af þessari vinnu, hvar er þetta verkefni á vegi statt? Ætli Björk geti ekki lagt peninga í ýmislegt ef hún hefur áhuga? Kannski er hún eini ríki Íslendingurinn sem tapaði ekki aleigunni í kreppunni? Hvað veit maður svo sem? Allavega hef ég ekki heyrt um gjaldþrot hennar eins og Baugs, Samsonar og Bjórgólfs.

Við sem vorum fylgjandi virkjun og álveri fyrir austan megum heldur ekki vera svo meðvirk að við samþykkjum virkjanir og stóriðju út um allt. Öll viljum við jú vernda náttúruna líka... er það ekki?

Mikið væri nú gaman ef Björk gæti komið með okkur hér fyrir austan í hugmyndavinnu því við viljum halda áfram að byggja upp Austurland sem okkur þykir svo vænt um.

Svo væri upplagt fyrir hana að halda tónleika í Fjarðabyggðarhöllinni. Hefur hún komið fram út á landi síðan hún söng á Uxa hér um árið?

Svo finnst mér svo gaman að tengja farsælt fólk við Norðfjörð. (Án ábyrgðar-held ég muni þetta rétt) Fósturpabbi Bjarkar til margra ára átti afa á Norðfirði sem hét Jósef, Jobbi gamli. Hann er þá fóstur-langafi Bjarkar. Húsið hans er enn í eigu fjölskyldunnar og ég var alltaf að vona að Björk kæmi og tæki sumarfrí sitt hér á Norðfirði. Hver veit? Hún kom jú einu sinni á Neistaflug og sigldi með Fjarðaferðum. Munið þið eftir því?


mbl.is Björk fær Schola cantorum til liðs við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðrið og volið!

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað? Allavega fer veðrið meira og meira í taugarnar á mér hér á þessu annars yndislega (gjaldþrota) landi. Ég er að hlaupa úti 4-5 sinnum í viku og það er alveg hending ef hitinn nær 10 stigum á Celsíus kvarða.

Mín yndislega eiginkona hlær alltaf þegar ég fer að bölsótast út af rokinu og rigningunni. Við áttum annars yndislegt kvöld (og nótt) með góðum vinum þegar Ívar Sæm varð fertugur 16. júní. Þá var veðrið yndislegt þó það rigndi aðeins og hitinn var sennilega undir 10. Lognið hló þó dátt eins og það gerir yfirleitt á sumarnóttum í Neskaupstað.

Kannski á þessi geðvonska mín dýpri rætur, lífið er jú ekki bara dans á rósum. Pabbi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem hann fær frábæra ummönnun en batahorfur virðast ekki góðar. Hann og mamma eru þó ótrúlega dugleg og við reynum að vera það líka. Það er engin ástæða til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Kraftaverk gerast á hverjum degi.

Ég hef reynt að forðast allt þunglyndi út af gjaldþroti þjóðarinnar, Ice Save skuldunum og alls þess neikvæða sem dynur á. Hjá Fjarðabyggð aukast skuldir um 2 milljarða út af hruninu, það er nett óþolandi. Ég hef ekki nennu í mér til að skoða bílalánið okkar eða húsnæðisskuldir. Örugglega hefur þetta rokið upp en í þessu tilviki er gott að búa út á landi og skulda lítið. Eftir því sem hrunið færist nær okkur þeim mun meiri tökum nær það á sálu okkar. Sennilega endar með því að ég fer út á svalir eitt kvöldið og öskra út yfir fjörðinn.... eins hátt og ég get. Kannski skrifa ég líka lag um ástandið og þá ætti ég að vera laus við þetta úr sálu minni. Það er ekkert betra en að öskra og semja lag. Það jafnast á við djúphreinsun.

Ég hlakka ógurlega til að hitta Maríu Bóel í dag en hún hefur dvalið í sumarbúðum á Eiðum síðan á mánudag. Eyrún mín er byrjuð að vinna hjá bænum, er að fara norður til Akureyrar á mánudag í fótboltaferð og til Reykjavíkur á þriðjudag á fund! Já, ég er ekki að skrifa um mig. Dóttir mín er að fara suður á fund!!! Hún sótti um og var tekin inn í Ungmennaráð SAFT. Flott hjá henni. Snemma beygist krókurinn.

Dætur mínar elska ég út af lífinu og fjölskylduna alla.

Svo skulum við muna það að lífið er alltof stutt til að vera í fýlu eða hatast við fólk. Lærum að fyrirgefa og hættum að mótmæla. því fyrr því betra. Ástandið lagast ekki fyrr en við lögumst.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband