Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Mogginn sker niður á Austurlandi

Steinunn Ásmundsdóttir hefur að mínu viti staðið sig vel sem blaðamaður á Austurlandi en nú ætlar Morgunblaðið að skera niður. Austurland er ekki nógu merkilegt lengur til þess að hafa þar blaðamann. Þá er það bara RÚV sem er með starfandi blaðamenn/fréttamenn á Austurlandi. Stöð 2 var áður með starfsmenn hér en þeirra hausar þurftu að fjúka og nú fer Mogginn sömu leið. Synd og skömm!

MBL logo    Kross

Eftirfarandi tilkynningu fékk ég í tölvupósti í dag:

Vegna breytinga á rekstrarumhverfi og vegna skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum Árvakurs hf., er félagið að fækka störfum og breyta áherslum.

 

Nýr ritstjóri Morgunblaðsins, Ólafur Stephensen, hefur tilkynnt að ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins á Austurlandi verði lokað 1. júní.

Jafnframt mun sérstök Austurlandssíða í Morgunblaðinu leggjast af.

Framvegis tekur því ritstjórn í Reykjavík við efni til birtingar.

 Ég legg til að við mótmælum þessu. Ég skora á góða og gilda Sjálfstæðismenn að láta ekki þessa niðurlægingu yfir okkur ganga.

Gjaldfrjáls leikskóli - skref í rétta átt

Frá og með 1. júní 2008 greiða foreldrar í Fjarðabyggð aðeins vistunargjald fyrir eitt barn á leikskóla. Á bæjarráðsfundi þriðjudaginn 27. maí var ákveðið að fella niður vistunargjald af öðru barni en áður hafði sveitarfélagið samþykkt fjögurra klukkustunda gjaldfrjálsa vistun fyrir fimm ára börn. Með þessari ákvörðun vill sveitarfélagið sýna í verki að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem barnafólk finnur að það er á góðum stað.

Þetta samþykkti bæjarráð einróma á síðasta fundi. Stóru málin eru samþykkt af meiri- og minnihluta. Alltaf hingað til.

Litlu málin eru gerð að stórmálum og eru jafnvel blásin upp í fjölmiðlum og greint rangt frá sbr. litla pottamálið á Fáskrúðsfirði. í öllum fjölmiðlum var sagt að meirihlutinn hefði klofnað (sem er rangt) og einnig var sagt að þetta hefði verið samþykkt í bæjarráði (sem var líka rangt). Staðsetning heitra potta við sundlaugina á Fáskrúðsfirði var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum Framsóknar og Fjarðalista í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn voru á móti. Rétt skal vera rétt.

Eru fjölmiðlar landsins að endurskrifa vitleysuna eftir hver öðrum?


Aukin harka í Svæðisútvarpi Austurlands?

Svæðisútvarpið er að sjálfsögðu mín uppáhaldsútvarpsstöð auk Rásar 2. Ég reyni alltaf að hlusta á Svæðisútvarpið enda oftast fjallað um mál sem skipta okkur íbúa Austurlands miklu máli. Svo hef ég oft lent í viðtölum þar og átt góð samskipti við alla sem þar hafa unnið, held ég.

Nýlega heyrði ég viðtal við Signýju Ormarsdóttur menningarfulltrúa Austurlands og undir lok viðtalsins gerðist spyrillinn nokkuð kræfur og saumaði að Signýju og virtist vera að reyna að fletta ofan af spillingu í úthlutunum Menningarráðsins. Signý svaraði þessu af mestu rósemi og slökkti þann eld sem reynt var að kveikja. Forvitnilegt verður að vita hvort kafað verður í næstu úthlutanir ráðsins og þær krufðar til mergjar. Ég fylgist spenntur með.

Svo heyrði ég viðtal við Einar Rafn Haraldsson framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands í gær um málefni fæðingardeildarinnar á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Ég varð opinmynntari eftir því sem leið á viðtalið því þetta minnti mig á 3. gráðu yfirheyrslu og voru sumar spurningarnar í sleggjudómastíl en kannski var gott að fá svör við þessum spurningum eins og:

"Væri ekki rétt að flytja Fjórðungssjúkrahúsið?"

"Hefur verið hugsað um að loka fæðingardeildinni og nota peningana í annað?"

Einar Rafn svaraði þessu í föðurlegum tóni og komst vel frá því. Hann hitti naglann á höfuðið og sagði þetta fyrst og fremst spurningu um betri samgöngur. Ég held að flestir geti verið sammála því. Svo vil ég bæta við að þetta er líka spurning um að leggja niður fordóma og hreppa- og sveitarfélagaríg.

Nú er spurning hvort Svæðisútvarpið er búið að skipta um stefnu og muni framvegis taka alla viðmælendur í 3. gráðu yfirheyrslu og sauma þétt að í framtíðinni.

Gaman væri að heyra í lesendum þessarar síðu um þetta og almennt um svæðisútvarpið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband