Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2015
Guðmundur Bjarnason - Minning
18.7.2015 | 07:11
Í dag verður borinn til grafar í Neskaupstað Guðmundur Bjarnason fyrrverandi bæjarstjóri í Neskaupstað og Fjarðabyggð. Hin síðari ár vann Guðmundur hjá Alcoa Fjarðaáli.
Guðmundur Bjarnason var einn allra besti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Leiðir okkar lágu fyrst saman árið 1990 þegar ég hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum þá 20 ára gutti. Það var svo skrítið að það var Ágúst Ármann sem gabbaði mig í pólitík, ég lét til leiðast því ég leit svo mikið upp til Smára Geirs og Einars Más sem þarna voru fyrir. Svo varð það algjör bónus að kynnast Guðmundi sem varð einn af mínum bestu vinum. Guðmundur fór fljótlega að kalla mig nafna og þótti mér vænt um það. Þetta ár varð Guðmundur aðalmaður í bæjarstjórn Neskaupstaðar og ári seinna var hann orðinn bæjarstjóri. Ég tók strax eftir því að Guðmundur var leiðtogi í húð og hár, fæddur til að stjórna og gerði það vel alla tíð. Þegar Ásgeir Magnússon hætti þótti það eiginlega sjálfgefið að Guðmundur tæki við. Sem ungum manni fannst mér gott hvað hann var tilbúinn að taka mark á okkur yngra fólkinu í starfinu og aldrei fann ég annað en hann liti á okkur sem jafningja.
Árið 1997 fór ég að reka Egilsbúð ásamt félaga mínum og þá urðu samskipti okkar Gumma enn nánari því skrifstofa mín var undir skrifstofu bæjarstjóra. Ég heyrði oft þegar lyklinum var snúið og Gumma kallaði á mig: Nafni minn, ertu þarna? Þá fór ég upp til hans og við fórum yfir málin. Ekkert endilega málefni bæjarstjórnar því Guðmundur hafði sannkallaðan innri áhuga á að allt innan fjallahringsins gengi vel. Hann hvatti mig til dáða með reksturinn í Egilsbúð, hafði brennandi áhuga á tónlistinni hjá Brján og SúEllen, var reyndar heilmikill rokkari inn við beinið þó að hann hafi hvorki sungið eða spilað. Reyndar söng hann á Kommablótunum en bara í upphafs- og lokasöng. Hann var annálsritarinn í nærri hálfa öld. Það var árið 2003 sem mér var boðið að koma í þennan hóp sem skrifaði og flutti annálinn á þorrablótinu. Upphaf þessarar vinnu var alltaf eins. Gummi og Smári Geirs komu til mín á milli jóla og nýjars og við tókum rúnt um bæinn. Í þessum bíltúrum var alltaf mikið hlegið og mest af því sem ekki var hægt að nota í annálinn.
Guðmundur var alveg ótrúlegur húmoristi og er vinnan við þorrablótin eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri á hverju ári. Nú síðastliðin 2 skipti var Gummi ekki með okkur vegna veikinda en hann kom með hugmyndir og sló á puttana á okkur þegar honum fannst við á rangri leið. Það verða mikil viðbrigði fyrir okkur Smára og Jón Björn að galdra fram annál án Gumma. Það sem einum finnst fyndið finnst öðrum ekki. Húmor Gumma var mjög lúmskur og ekki hægt að skýra út fyrir leikmönnum og eins fannst mér stundum skrítið hvað Gumma fannst ekki fyndið þegar við hinir veltumst um af hlátri.... Já, finnst ykkur þetta fyndið? Jæja sjáum til... Svo tók hann niður punkta í kurteisisskyni og ef til vill fann hann einhvern nýjan flöt á sama máli sem honum fannst fyndinn og þá komst atriðið inn í annálinn. Það er nú alveg efni í heila ritgerð að fjalla um Gumma og þorrablótin. Yfirleitt stóð ritun annáls fram á síðasta dag, jafnvel fram eftir blótsdegi. Mér fannst Gummi stundum eins og sagnfræðingur sem er alltaf að bíða eftir að nýjar heimildir dúkki upp og geti því ekki klárað söguritun en svona var Gummi, hann vildi gera vel og var sífellt að betrumbæta og fá nýjar hugmyndir. Svo skammaði hann okkur, þó aðallega Smára, þegar á hólminn var komið því þessi annálsritun tók á minn mann og eins framkoman. Allir út í sal halda að þetta hafi alltaf verið létt en oft tók þetta á Guðmund Bjarnason að koma fram. Helstu áhyggjuefni Gumma var alltaf það sama. Að annállinn yrði of langur og ef hann varð það, að hans mati, þá var það Smára að kenna... alltof langir söngtextar! Þegar ég lít nú til baka þá er það nöturleg staðreynd að bæði Gummi og Aggi séuð farnir. Við hinir stöndum eftir hálf vopnlausir en munum að sjálfsögðu gera okkar besta til að halda húmornum á lofti.
Árið 2006 veiktist Gummi alvarlega, barðist hetjulega og virtist sigra, átti mörg góð ár. Faðir minn veiktist af samskonar sjúkdómi árið 2007 og þá leitaði ég mikið til Gumma sem reyndist bæði mér og pabba vel. Gummi var mér stoð og stytta þegar pabbi dó, því gleymi ég aldrei.
Gummi vann síðustu árin hjá Alcoa Fjarðaáli. Þar lágu leiðir okkar aftur saman og í raun finnst mér eins og við Gummi höfum unnið saman síðan ég var tvítugur. Okkar samband var þó fyrst og fremst vinasamband og get ég ekki líst því með orðum hversu sorgmæddur ég er nú þegar hann hefur kvatt. Ég fékk fréttina þar sem við Gunna mín stóðum í dynjandi rigningu á Eistnaflugi. Smári Geirs hringdi í mig. Í gegnum hugann þutu alls kyns hugsanir, ég vorkenndi Smára hans besta vini, ég hugsaði til Klöru, til vina minna Ívars og Stellu... Ég var ekki tilbúinn og fann hvernig tilveran í Neskaupstað varð einhvern veginn fátækari. Tár okkar Gunnu streymdu eins og rigningin og enn gráta himnarnir þegar þetta er skrifað, mér finnst það eðlilegt. (Innskot, í gær 17. júlí á afmælisdaginn þinn skein svo sól í fyrsta skipti í langan tíma)
Það er ekki gaman eða þægilegt að heimsækja þá sem við elskum á sjúkrahús, vitandi í hvað stefnir. Ég spurði þig um daginn hvort það væri mikill gestagangur. Þú svaraðir: Klara mín er hér alltaf og fjölskyldan, svo komið þið vinir mínir. Manni þykir vænt um það hvað maður á marga góða vini. Ég svona fékk það á tilfinninguna undir það síðasta að þú vildir kannski bara fá að hvíla þig en skildir vel að við vildum halda áfram að hitta þig. Þú varst jú einu sinni akkeri okkar margra og leiðtogi í svo mörgu.
Elsku vinur, eins og við ræddum um daginn þá eru bara tveir möguleikar að loknu þessu jarðlífi og við vorum sammála um báðir væru bara ágætir. Á þessari stundu kýs ég að trúa þeim seinni og segi bara bless í bili nafni minn.
Ég mun aldrei gleyma þér og þú munt aldrei gleymast. Nafn þitt og gjörðir hafa fyrir löngu ratað á spjöld sögunnar. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Innilegar samúðarkveðjur til allra frá okkur Guðrúnu Smára og dætrum.
(Styttri útgáfa birtist í Morgunblaðinu í dag eða næstu daga)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)