Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015
49. Kommablótið
2.2.2015 | 09:52
Þá er 49. Kommablótið afstaðið. Mér leið í gær eins og ég hafi orðið undir valtara. Það tekur á að semja og undirbúa annálinn, þó ekki séu stífar æfingar, því eins og flestir vita er þessi annáll okkar alltaf óæfður í heild sinni og því alltaf mikið "happening" hvað gerist á sviðinu. Við æfum bara lögin og tölum um hvað við ætlum að leika og ákveðum út á hvað leikþættir ganga, svo er bara spunnið. Þá er oft spennandi að sjá hvort maður nær að skipta um búninga á milli atriða og oftast gengur þetta upp en ég var í 10 mismunandi búningum þetta árið. Við Smári semjum söngtextana og í ár skrifuðu Jón Björn og Smári Geirsson talaða málið. Guðmundur Bjarnason sem skrifað hefur annál í næstum 50 ár, var því miður fjarri góðum gamni þetta árið eins og síðast sökum veikinda. Hann veitti okkur þó góð ráð og las yfir annálinn. Ég sakna samvinnunnar við Gumma og vona innilega að kraftaverk gerist í hans veikindum og hann verði með að ári. Hlynur Sveinsson gerði myndbönd með okkur sem var nýlunda þetta árið ásamt því að stjórna tæknimálum á þorrablótinu. Guðjón Birgir sá svo um hljóðstjórn. Aðrir flytjendur auk mín, Smára og Jóns Björns voru: Svanhvít Aradóttir, Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir og Páll Björgvin Guðmundsson.
Viðtökur við annálnum voru frábærar, svaka mikið stuð allan tímann, mikið hlegið og klappað. Það er laun alls erfiðisins að fá hrós eftir annál og góðar umsagnir á Facebook. Eins og ein vinkona mín sagði: "Maður er alltaf að koma af besta blótinu til þessa". Á meðan það er tilfinning fólks höldum við áfram á sömu braut.
Þetta árið, rétt eins og í fyrra, söng ég með félögum mínum Maríasi B. Kristjánssyni, Jóni Hilmari Kárasyni, Viðari Guðmundssyni og Helga Georgssyni á dansleiknum á eftir. Þetta er hljómsveitin "Hin alþjóðlega danshljómsveit Ágústar Ármanns" sem í daglegu tali er nefnd "Alþjóðlega bandið". Við Aggi heitinn voru fyrir löngu hættir að skemmta á þessu balli enda yfirdrifið nóg að skemmta í annálnum og svo sá Aggi líka alltaf um undirleik í fjöldasöngnum. Ég lét þó til leiðast að syngja á ballinu í fyrra og gerði það aftur í ár. Það gekk fínt, gríðarlega mikið stuð og þó ég segi sjálfur frá er þetta mjög góð hljómsveit. Ég ætla hins vegar ekki að gera þetta aftur, þ.e. koma fram í annálnum og syngja á balli. Annað hvort er nóg ef maður á ekki að klára öll batterý þessa helgi eins og ég gerði næstum því.
Þorrinn er skemmtilegur tími í Neskaupstað, ríkar hefðir í þorrablótshópum, og í raun mikill samverutími vina og kunningja. Eyrún Björg dóttir okkar kom heim á þorrablót og með henni vinur hennar Björn Þór sem kynntist fjölskyldunni og okkar Þorrahefðum. Nú eru þau farinn aftur norður þar sem Eyrún er að klára stúdentspróf í vor og Björn er að stúdera fjölmiðlafræði í Háskólanum á Akureyri.
Sveitablótið var fyrir rúmri viku hvar við Gunna vorum í hópi með Jóni Birni og Hildi Völu. Þar söng ég eitt lag á skemmtiatriðunum og söng svo með sömu sveit á ballinu. Reyndar var Helgi Gogga ekki með okkur þar en Bjarni Halldór Kristjánsson vinur minn "Halli í SúEllen" spilaði á gítar og söng með okkur. Það var mjög gaman að fá þann góða vin minn í heimsókn og hann stóð sig með prýði á ballinu eins og við var að búast.
Þorrakveðjur frá Litlu Moskvu, næsta ár er 50. Kommablótið... usss, það verður eitthvað!
Guðmundur R. Gíslason