Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Gjaldfrjáls leikskóli - skref í rétta átt

Frá og með 1. júní 2008 greiða foreldrar í Fjarðabyggð aðeins vistunargjald fyrir eitt barn á leikskóla. Á bæjarráðsfundi þriðjudaginn 27. maí var ákveðið að fella niður vistunargjald af öðru barni en áður hafði sveitarfélagið samþykkt fjögurra klukkustunda gjaldfrjálsa vistun fyrir fimm ára börn. Með þessari ákvörðun vill sveitarfélagið sýna í verki að vera fjölskylduvænt samfélag þar sem barnafólk finnur að það er á góðum stað.

Þetta samþykkti bæjarráð einróma á síðasta fundi. Stóru málin eru samþykkt af meiri- og minnihluta. Alltaf hingað til.

Litlu málin eru gerð að stórmálum og eru jafnvel blásin upp í fjölmiðlum og greint rangt frá sbr. litla pottamálið á Fáskrúðsfirði. í öllum fjölmiðlum var sagt að meirihlutinn hefði klofnað (sem er rangt) og einnig var sagt að þetta hefði verið samþykkt í bæjarráði (sem var líka rangt). Staðsetning heitra potta við sundlaugina á Fáskrúðsfirði var samþykkt af öllum bæjarfulltrúum Framsóknar og Fjarðalista í bæjarstjórn. Sjálfstæðismenn voru á móti. Rétt skal vera rétt.

Eru fjölmiðlar landsins að endurskrifa vitleysuna eftir hver öðrum?


Minningartónleikar um Höskuld Stefánsson

Ég hef ekki í langan tíma verið jafn ánægður með nokkra tónleika.

Tónlistarmennirnir voru hver öðrum betri og minning Höskuldar var heiðruð á mjög vandaðan hátt.

Það var Tónlistarskóli Neskaupstaðar sem hafði veg og vanda að undirbúningi tónleikanna. Enn ein skrautfjöðrin í hatt Agga, Jóns Hilmars og Egils.

Það muna allir Norðfirðingar og margir á Austurlandi eftir Höskuldi. Hann var þó kannski þekktastur fyrir að vera húsgagnasali, fyrst man ég eftir Höskuldi á Norðfirði með bókabúð og húsgagnaverslun. Svo var Höskuldur svo framsýnn að hann byggði stóra og flotta verslun á Reyðarfirði og rak hana í mörg ár þangað til að hann seldi hana Svanbirni Stefánssyni sem nú rekur búðina.

Kynni mín af Höskuldi voru góð. Hann var skemmtilegur karakter og eru til margar góðar sögur af Höskuldi um orðhnyttni hans og húmor sem var nokkuð sérstakur. Það sameinaði okkur Höskuld að báðir spiluðum við á básúnu sem ungir menn og báðir veittum við Egilsbúð forstöðu um árabil. Höskuldi þótti vænt um Egilsbúð enda er það hús sérstaklega gott tónleikahús sem sannaðist í gær. Tónlist eins og flutt var á tónleikunum í gær, nánast öll órafmögnuð, hljómaði vel um allan sal. Það er öfugmælavísa að sumir telji að selja eigi félagsheimilin, sem eru okkar menningarhús, á meðan önnur sveitarfélög berjast í bökkum við að byggja slík hús. Egilsbúð er menningarhús Norðfirðinga, punktur. Ég er þess viss að hvergi annars staðar hefði Höskuldur vilja halda svona tónleika.

Þegar Súellen gaf út fyrstu plötuna og Símon er lasinn hljómaði á öldum ljósvakans hitti ég Höskuld. "Já þetta er bara svolítið sniðugt þetta lag þarna um þennan veika, já bara nokkuð sniðugt" Sagði Höskuldur. Hann spurði mig um hljómsveitarmeðlimi og gat hann tengt okkur alla við tónlistarmenn sem hann þekkti og hafði jafnvel spilað með á sínum yngri árum. "Svo er gítarleikarinn okkar frá Seyðisfirði en býr nú á Egilsstöðum, hann heitir Tómas Tómasson" sagði ég. Höskuldur hugsaði sig um í smá stund og átti væntanlega enga ættartengingu á þennan mann við tónlistarmenn á Norðfirði. "Tómas! Ha, ha, hann á gott rúm!" sagði Höskuldur svo undirtók í búðinni og málið var útrætt.

Höskuldur var kannski ekki mjög hrifinn af popptónlist og spurði hvort við spiluðum ekki jazz. Ég kvað lítið um það. "En kunnið þið ekki improvisasjon?" Ég var nú hræddur um það og sagði að við værum alltaf að leika okkur og lögin væru nánast aldrei flutt eins. Það líkaði honum. Höskuldur var örugglega sammála því sem einhver vitur maður sagði. Það er til einskis að lesa nótur ef tónlistin kviknar ekki í hjartanu. Til gamans má geta þess að systkinin þrjú sem skipa Bloodgroup eru barnabörn Höskuldar. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni sannast á syni Höskuldar honum Stefáni Ragnari sem er þverflautuleikari á heimsmælikvarða, ef ég veit rétt, og svo á Bloodgroup. Ég minni á tónleika með Bloodgroup sem verða í Egilsbúð á sjómannadaginn.

Ég heyrði Höskuld oft spila. Hann spilaði með hjartanu. Hann spilaði dinner fyrir mig í Egilsbúð eftir að hann hafði veikst en gerði það listavel. Svo mikil virðing var borin fyrir Höskuldi að það mátti heyra saumnál detta á meðan hann spilaði. Þannig að dinnertónlistin var í raun tónleikar Höskuldar. Ég man líka eftir honum á þjóðlagaveislu sem haldin var í Egilsbúð í kringum 1990 og svo kom Höskuldur einu sinni suður með okkur í Brján og spilaði á fína flygilinn á Broadway og var að sjálfsögðu vel tekið.

Ég óska fjölskyldu Höskuldar og Tónskóla Neskaupstaðar til hamingju með frábæra tónleika. Takk fyrir mig. 


Baby, we were born to run!

Eins og Sprinsteen félagi minn sagði.

Mér gekk vel í hlaupinu, lauk keppni á 4:17 og skemmti mér vel allt hlaupið. Fann aldrei fyrir verulegum verkjum en auðvitað var þetta erfitt, smá:-)

Dáni braut 4 tíma múrinn en Bjössi vann eins og vanalega á 3:52. Gaman að vera með þeim í Köben, þeirra egtakvindum og sonum Erlu Hálfdáns.

Er nú hjá Hödda (Harðar Stefáns flugvellinum) og Önnu, erum að fara grilla og det er dejligt! Stelpurnar þeirra eru sætar og góðar og Úlfhildur sú yngsta er bara að fíla Gumma frænda frá Íslandi mjög vel.

Meira seinna. Takk fyrir góðar kveðjur og hvatningu.

 


Akureyri - Köben

Jebb, fer til Köben á morgun. Slaka á þar á laugardaginn, næ í rásnúmer og tilheyrandi út af hlaupinu og hitti Hálfdán og fjölskyldu og Björn og Önnu.

Svo er maraþonið á sunnudagsmorgun 9:30 (7:30 á íslenskum)

Ég set inn fréttir hvernig gekk, ég ætla mér að klára þetta með stolti.

Minn eini keppinautur er ég sjálfur.


30 km í dag

Fín vika að baki hjá mér.  Ég hljóp 20 km á sunnudag, svo 15 og 7 km. Svo fór ég 30 km í dag og varð það lengsti leggurinn sem ég fer í þessari þjálfun. Vikan gerir því 72 km. Ég rann þessa 30 km á 3:07 með smá stoppi heima þegar ég fyllti á brúsana. Annars skokkaði ég þetta á jöfnum hraða, kláraði 20 km á 2 tímum sléttum og var þar af leiðandi 1:07 með síðustu 10. Er bara nokkuð sprækur eftir. Drakk fullt af vatni og Powerade seinnihlutann á hlaupinu, gataði hægri hæl og er með blöðrur á 3 támJAnnars eru axlirnar aðallega að stríða mér, helv... vöðvabólga sem byggist upp á hlaupunum, þó er þetta að skána eftir að ég fór að halda höndum neðar og reyna að slaka á.

Með þessu áframhaldi er ég bjartsýnn á að klára þetta fyrsta maraþon mitt á 4:30. Samt setur strik í reikninginn og undirbúninginn að ég er að fara í vinnuferð til Munchen og Köben sem tekur 6 daga og ekki útséð hversu mikið ég get hlaupið í þeirri ferð.

Bless í bili

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband