Veðrið og volið!

Ég veit ekki hvort það er aldurinn eða hvað? Allavega fer veðrið meira og meira í taugarnar á mér hér á þessu annars yndislega (gjaldþrota) landi. Ég er að hlaupa úti 4-5 sinnum í viku og það er alveg hending ef hitinn nær 10 stigum á Celsíus kvarða.

Mín yndislega eiginkona hlær alltaf þegar ég fer að bölsótast út af rokinu og rigningunni. Við áttum annars yndislegt kvöld (og nótt) með góðum vinum þegar Ívar Sæm varð fertugur 16. júní. Þá var veðrið yndislegt þó það rigndi aðeins og hitinn var sennilega undir 10. Lognið hló þó dátt eins og það gerir yfirleitt á sumarnóttum í Neskaupstað.

Kannski á þessi geðvonska mín dýpri rætur, lífið er jú ekki bara dans á rósum. Pabbi er á sjúkrahúsinu í Neskaupstað þar sem hann fær frábæra ummönnun en batahorfur virðast ekki góðar. Hann og mamma eru þó ótrúlega dugleg og við reynum að vera það líka. Það er engin ástæða til að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Kraftaverk gerast á hverjum degi.

Ég hef reynt að forðast allt þunglyndi út af gjaldþroti þjóðarinnar, Ice Save skuldunum og alls þess neikvæða sem dynur á. Hjá Fjarðabyggð aukast skuldir um 2 milljarða út af hruninu, það er nett óþolandi. Ég hef ekki nennu í mér til að skoða bílalánið okkar eða húsnæðisskuldir. Örugglega hefur þetta rokið upp en í þessu tilviki er gott að búa út á landi og skulda lítið. Eftir því sem hrunið færist nær okkur þeim mun meiri tökum nær það á sálu okkar. Sennilega endar með því að ég fer út á svalir eitt kvöldið og öskra út yfir fjörðinn.... eins hátt og ég get. Kannski skrifa ég líka lag um ástandið og þá ætti ég að vera laus við þetta úr sálu minni. Það er ekkert betra en að öskra og semja lag. Það jafnast á við djúphreinsun.

Ég hlakka ógurlega til að hitta Maríu Bóel í dag en hún hefur dvalið í sumarbúðum á Eiðum síðan á mánudag. Eyrún mín er byrjuð að vinna hjá bænum, er að fara norður til Akureyrar á mánudag í fótboltaferð og til Reykjavíkur á þriðjudag á fund! Já, ég er ekki að skrifa um mig. Dóttir mín er að fara suður á fund!!! Hún sótti um og var tekin inn í Ungmennaráð SAFT. Flott hjá henni. Snemma beygist krókurinn.

Dætur mínar elska ég út af lífinu og fjölskylduna alla.

Svo skulum við muna það að lífið er alltof stutt til að vera í fýlu eða hatast við fólk. Lærum að fyrirgefa og hættum að mótmæla. því fyrr því betra. Ástandið lagast ekki fyrr en við lögumst.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Þú hefur eitthvað misskilið færslu mína. Ég var ekki að tala um Jóhönnu eða Steingrím en svarið er Nei!

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 19.6.2009 kl. 10:22

2 identicon

        Komdu sæl Guðmundur minn.Langar bara að senda ykkur kveðju,hugurinn dvelur mikið hjá ykkur ,og þá ekki síst mömmu þinni, en hún er svo dugleg og raunsæ .Auðvitað höldum við í vonina,annað væri eytthvað skritið.Guð veri með ykkur. Kær kveðja.Rósa S

Rósa Skarphéðinsd. (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 21:18

3 identicon

Sæll frændi

Mig langar að biðja þig fyrir kveðju frá mér til mömmu þinnar og pabba. Gott að pabbi þinn geti verið fyrir austan en þurfi ekki að vera hérna. Fjörðurinn er alltaf bestur.- Ég get alveg skilið að það pirri þig að geta ekki stjórnað veðrinu Gummi minn!! En það er líka rosalega gott að þurfa nú ekki að hafa ábyrgð á því!!

Ég sendi ykkur öllum góðar hugsanir og sé ykkur í næsta mánuði, fæ kannski að vera í kjallaranum:)

Dæja

Dagrún Ársælsdóttir (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 00:34

4 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Já, þessi haustveðrátta er búin að vera pirrandi í sumar.

Flott mál hjá að hlaupa og það var ekki dónalegt að sjá Austfirsku kempurnar fara hamförum á Mývatni um daginn.

Lánin okkar hækka með lækkandi gengi krónunnar og mér virðist við lítið geta gert í því máli. Þó er verið að vinna samkvæmt plani í  samstarfi við norðurlandaþjóðirnar og IMF til að laga efnahag landsins og freista þess að endurheimta tiltrú annarra á okkar ágæta gjaldmiðil.

Við verðum bara að þrauka og reyna að vera raunsæ, jákvæð og góð við annað á meðan þetta óvissuástand varir.

Ég held að við finnum okkar frelsi og hamingju í samstarfi og með sáttargjörð við aðra en ekki með því að steyta hnefann í áttina að öðrum.

Steinöldin er liðin,  --  vona ég.

Jón Halldór Guðmundsson, 20.6.2009 kl. 14:50

5 identicon

Sæll Gummi

Já, haustið kemur snemma þetta árið en þá verðum við bara að klæða okkur samkvæmt því:)

Ég sendi ykkur innilegar kveðjur og vona að þið haldið jákvæðninni og bjartsýninni á þessu erfiður tímum.

Kveðja Eyja

Eyja (IP-tala skráð) 21.6.2009 kl. 23:16

6 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Ég þakka kveðjurnar og kem þeim til skila.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 22.6.2009 kl. 11:54

7 identicon

Hæ hæ . Kem nú reglulega á síðuna þína að lesa það sem þú hefur að segja, fyrirgefðu að ég hef ekki "kvittað" en ég vildi bara senda ykkur öllum mínar bestu kveðjur og ég hugsa oft til ykkar hvernig gangi og fæ ég fréttir hjá mömmu af og til sérstaklega vil ég biðja þig um að skila góðri kveðju til mömmu þinnar og pabba. ( gefðu mömmu þinni knús frá mér) Kær kveðja Hólmfríður Jónsdóttir

Hólmfríður Jónsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 16:48

8 identicon

Sæll vinur. FLott blogg. Ég vona að pabbi þinn ná fyrri styrk aftur. Ég fer og klappa mömmu þinni á bakið á netó næst þegar ég sé jeppan þar. Haltu þínu striki vinur.

Valdi (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 11:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband