Minningartónleikar um Höskuld Stefánsson
30.5.2008 | 10:51
Ég hef ekki í langan tíma verið jafn ánægður með nokkra tónleika.
Tónlistarmennirnir voru hver öðrum betri og minning Höskuldar var heiðruð á mjög vandaðan hátt.
Það var Tónlistarskóli Neskaupstaðar sem hafði veg og vanda að undirbúningi tónleikanna. Enn ein skrautfjöðrin í hatt Agga, Jóns Hilmars og Egils.
Það muna allir Norðfirðingar og margir á Austurlandi eftir Höskuldi. Hann var þó kannski þekktastur fyrir að vera húsgagnasali, fyrst man ég eftir Höskuldi á Norðfirði með bókabúð og húsgagnaverslun. Svo var Höskuldur svo framsýnn að hann byggði stóra og flotta verslun á Reyðarfirði og rak hana í mörg ár þangað til að hann seldi hana Svanbirni Stefánssyni sem nú rekur búðina.
Kynni mín af Höskuldi voru góð. Hann var skemmtilegur karakter og eru til margar góðar sögur af Höskuldi um orðhnyttni hans og húmor sem var nokkuð sérstakur. Það sameinaði okkur Höskuld að báðir spiluðum við á básúnu sem ungir menn og báðir veittum við Egilsbúð forstöðu um árabil. Höskuldi þótti vænt um Egilsbúð enda er það hús sérstaklega gott tónleikahús sem sannaðist í gær. Tónlist eins og flutt var á tónleikunum í gær, nánast öll órafmögnuð, hljómaði vel um allan sal. Það er öfugmælavísa að sumir telji að selja eigi félagsheimilin, sem eru okkar menningarhús, á meðan önnur sveitarfélög berjast í bökkum við að byggja slík hús. Egilsbúð er menningarhús Norðfirðinga, punktur. Ég er þess viss að hvergi annars staðar hefði Höskuldur vilja halda svona tónleika.
Þegar Súellen gaf út fyrstu plötuna og Símon er lasinn hljómaði á öldum ljósvakans hitti ég Höskuld. "Já þetta er bara svolítið sniðugt þetta lag þarna um þennan veika, já bara nokkuð sniðugt" Sagði Höskuldur. Hann spurði mig um hljómsveitarmeðlimi og gat hann tengt okkur alla við tónlistarmenn sem hann þekkti og hafði jafnvel spilað með á sínum yngri árum. "Svo er gítarleikarinn okkar frá Seyðisfirði en býr nú á Egilsstöðum, hann heitir Tómas Tómasson" sagði ég. Höskuldur hugsaði sig um í smá stund og átti væntanlega enga ættartengingu á þennan mann við tónlistarmenn á Norðfirði. "Tómas! Ha, ha, hann á gott rúm!" sagði Höskuldur svo undirtók í búðinni og málið var útrætt.
Höskuldur var kannski ekki mjög hrifinn af popptónlist og spurði hvort við spiluðum ekki jazz. Ég kvað lítið um það. "En kunnið þið ekki improvisasjon?" Ég var nú hræddur um það og sagði að við værum alltaf að leika okkur og lögin væru nánast aldrei flutt eins. Það líkaði honum. Höskuldur var örugglega sammála því sem einhver vitur maður sagði. Það er til einskis að lesa nótur ef tónlistin kviknar ekki í hjartanu. Til gamans má geta þess að systkinin þrjú sem skipa Bloodgroup eru barnabörn Höskuldar. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni sannast á syni Höskuldar honum Stefáni Ragnari sem er þverflautuleikari á heimsmælikvarða, ef ég veit rétt, og svo á Bloodgroup. Ég minni á tónleika með Bloodgroup sem verða í Egilsbúð á sjómannadaginn.
Ég heyrði Höskuld oft spila. Hann spilaði með hjartanu. Hann spilaði dinner fyrir mig í Egilsbúð eftir að hann hafði veikst en gerði það listavel. Svo mikil virðing var borin fyrir Höskuldi að það mátti heyra saumnál detta á meðan hann spilaði. Þannig að dinnertónlistin var í raun tónleikar Höskuldar. Ég man líka eftir honum á þjóðlagaveislu sem haldin var í Egilsbúð í kringum 1990 og svo kom Höskuldur einu sinni suður með okkur í Brján og spilaði á fína flygilinn á Broadway og var að sjálfsögðu vel tekið.
Ég óska fjölskyldu Höskuldar og Tónskóla Neskaupstaðar til hamingju með frábæra tónleika. Takk fyrir mig.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Tónlist | Facebook
Athugasemdir
Eftirminnilegur og góður maður.
Mér finnst glæsilegt framtak að minnast hans á þennan fallega hátt.
Jón Halldór Guðmundsson, 30.5.2008 kl. 11:21
Ég get víst ekki verid allsstadar en hefdi mikid viljad vera á tessum tónleikum. H.S var afskaplega vandadur og gódur madur vid vorum miklir vinir.
Hulda Elma Guðmundsdóttir, 30.5.2008 kl. 19:02
Ég steingleymdi þessu...ætlaði mér að fara.
Gunnar Th. Gunnarsson, 30.5.2008 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.