Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
Nýr meirihluti í Fjarðabyggð
7.6.2010 | 10:02
Hvers vegna? Í fjölmiðlum var það látið líta svo út að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft valið því hann var sigurvegari kosninganna. Í raun var það þannig að Framsóknarflokkurinn ákvað að hætta núverandi meirihlutasamstarfi og hoppa upp í hjá íhaldinu. Það er svo sem í lagi en mér finnst Framsókn verða að skýra þetta betur út fyrir okkur kjósendum.
Nú bíð ég spenntur eftir svörum frá Framóknarflokknum hvers vegna þessi ákvörðun var tekin. Já og líka hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að taka boði Framsóknar í stað þess að neita og taka upp viðræður við Fjarðalistann.
Ágreiningur í kosningabaráttunni var töluverður á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og m.a. fór Guðmundur Þorgrímsson yfir það á fundi í Neskaupstað hvernig sjálfstæðismenn fóru frjálslega með staðreyndir. Eiður Ragnarssson rak lygi ofan í Jens Garðar í blaði Framsóknar og er enn að pönkast í þeim sem sjá má hér í athugasemdum: http://www.austurglugginn.is/index.php/Frettir/Frettir/Valdimar_fekk_flestar_utstrikanir_i_Fjardabyggd
Framsókn velur semsagt frekar að vinna með andstæðingum sem fara með fleipur í kosningabaráttu í stað þess að vinna áfram með samstarfsflokki sem fór fram með málefnalega kosningabaráttu og hefur verið góður samstarfsflokkur. Ég sem fyrrverandi samstarfsmaður í meirihluta hef allavega ekki fengið kvartanir frá fyrrverandi samstarfsflokki, Framsóknarflokknum í Fjarðabyggð.
Sjálfstæðisflokkur vill frekar vinna með flokki sem sakar þá um lygar og staðreyndafölsun.
"Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur."
Ég bíð spenntur eftir útskýringum frá öllum flokkunum þremur á því hvernig stendur á því að nýr meirihluti var myndaður eins og raun ber vitni.
Svo væri gaman að vita hvers vegna niðurstaðan varð sú að auglýsa eftir bæjarstjóra. Ég hélt að báðir flokkar vildu leita að reyndum heimamanni. Ég spái því að eftir auglýsingaferlið verði ráðinn sjálfstæðismaður. Mjög líklega er um það samið á bakvið tjöldin að Sjálfstæðisflokkurinn ráði þessu.
Svo spyr ég eins og sumir hafa spurt. Hvar er meirihlutasamningurinn? Afhverju er hann ekki opinberaður strax?
Annars er ég bara hress og sef ágætlega út af þessu en hef þungar áhyggjur af því að Framsóknarflokkurinn í Fjarðabyggð þurrkist út í næstu kosningum. Eða nei... ég hef engar áhyggjur af því :-)
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvernig er staðan á austurvígstöðvunum?
25.5.2010 | 11:09
Ég mætti á 3 af 6 sameiginlegum fundum sem framboðin voru með í Fjarðabyggð. Almennt fundust mér framsögur og fyrirspurnir málefnalegar. Það var kominn smá hiti í mannskapinn í lokin, þó sérstaklega Jens Garðar vin minn sem fór mikinn á síðasta fundinum í Neskaupstað. Jens er eins og "Séð og heyrt" - "gerir lífið skemmtilegra" :-) Mér fannst þó mikil mistök... og umtöluð að Valdimar hafi ekki mætt á fundinn á Eskifirði. Kannski var hann löglega forfallaður.
Þegar maður er ekki í hringiðunni þá er erfitt að gera sér grein fyrir hvernig stemmningin er. Hvað haldið þið gott fólk?
Er Fjarðalistinn að fara að rústa þessu? Besti flokkurinn í Fjarðabyggð!
Er Jón Björn kannski að sópa til sín atkvæðum eins og honum tókst í prófkjörinu?
Hvað með hægri sveifluna sem greinilega varð fyrir 4 árum. Er Jens að meika það?
Endilega segið mér hvað þið eruð að hugsa og hvað þið heyrið.
Þetta er jú alltaf jafn spennandi... finnst mér.
Kær kveðja!
Gummi Stalín (II)
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Kosningabarátta
14.5.2010 | 10:54
Það óneitanlega skrýtið að vera ekki í slagnum fyrir þessar kosningar. Ég veit ekki hvort það er rétt hjá mér eða af því að ég er ekki í framboði að mér finnst umræðan vera frekar dauf. Það er varla talað um kosningarnar. Framboðin hafa öll verið að senda bæklinga þar sem sést að skoðanaágreingur framboðanna er lítill. Það kemur svo sem ekki á óvart. Þessi 4 ár sem ég haf starfað sem forseti bæjarstjórnar hafa verið góð að því leyti að allir hafa unnið saman og lítið verið um misklíð.
Ég stend sáttur upp úr mínu sæti og þakka samstarfsfólki öllu fyrir gott starf og góð kynni. Helst vil ég þakka Smára Geirssyni og Guðmundi Bjarnasyni fyrrverandi bæjarstjóra fyrir gott samstarf og vináttu. Einnig vil ég þakka Guðmundi Þorgrímssyni og Helgu Jónsdóttur bæjarstýru góð kynni og farsælt samstarf.
það sem þarf að ræð fyrir þessar kosningar er m.a:
-Nýr Leikskóli í Neskaupstað
-Endurfjármögnun lána. Lengja lánstíma til að skapa svigrúm til framkvæmda. Það er varla hægt að skera mikið meira niður án þess að það bitni á þjónustunni.
-Stjórnsýslan. Breytingar? Samanþjöppun valds á Reyðarfirði eða dreifð stjórnsýsla? Mér finnst skrýtið að ekki sé stafkrókur um þetta hjá B-listanum en Jón Björn oddviti þeirra lét nú aldeilis að sér kveða er skrifstofunni var lokað (hún færð) í Neskaupstað.
-Hugsanlega sala á Hitaveitu Eskifjarðar
-Hugsanleg sala á Rafveitu Reyðarfjarðar
-Hugsanlega sala á Félagslundi á Reyðarfirði (sem ég er á móti)
-Huga þarf sérstaklega að útjöðrum sveitarfélagsins, Stöðvarfirði og Mjóafirði. Á báðum stöðum er lítið atvinnustarfsemi. Það hlýtur að vera metnaður bæjarstjórnar að reyna að efla staðina.
-Umhverfismál. Vel hefur tekist til að mínu mati með snyrtingu bæjarkjarnana en betur má ef duga skal.
Svo verða samgöngumál örugglega í umræðunni. Þar eru allir sammála en áfram verður að þrýsta á að framkvæmdir hefjist við Norðfjarðargöng.
Margt annað verður rætt en eitt að lokum:
Mér finnst leiðinlegt að framboðin bjóði ekki fram bæjarstjóraefni. Fjarðalistinn hefur að vísu skýrt sitt mál en aðrir þaga þunnu hljóði.
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)