Færsluflokkur: Menning og listir

Þorrablót

Til hamingju með daginn kæru bændur!
Bóndadagur í dag og engin ennþá óskað mér til hamingju. Ekki er ég bóndi í eiginlegum skilningi en húsbóndi er ég á mínu heimili, jú svei!
Ég hlakka mikið til að fara á þorrablót sveitamanna í Norðfjarðarsveit, sem haldið er í Egilsbúð eins og undanfarin ár. Jón Björn vinur minn og forseti og hans eiginkona Hildur Vala bjóða okkur Gunnu með sér - takk!
Jón Björn skrifar og flytur annálinn af sinni alkunnu snilld. Já, ég hlakka til.

Svo er það Kommablótið eftir liðlega viku. Við erum að semja á fullu en að venju eru það Gummi Bjarna, Smári Geirs, ofannefndur Jón og ég sjálfur sem semjum þann annál og söngtexta. Meira um það síðar.

Gleðilegan þorra og gangið hægt... en örugglega um gleðinnar dyr!


Klárlega snillingur!

þeir sem efast um hæfileika Bjarkar eru annað hvort skrýtnir eða fordómafullir. Ekki finnst mér allt hennar efni skemmtilegt en klárlega er hún söngkona sem á engan sinn líka og tónskáld sem fer sínar eigin leiðir. Ef Björk hefði ákveðið að fara auðveldu leiðina og syngja auðmeltanleg popplög væri hún skör neðar og sennilega ekki heimsfræg.

Björk vill Íslandi vel, um það efast ég ekki um. Hún var á móti virkjun og álveri hér fyrir austan en ekki dettur mér til hugar að bera kala til hennar vegna þess. Hún má hafa sína skoðun. Hún fær líka stærri plús en aðrir andstæðingar atvinnuuppbyggingar því hún hefur reynt að benda á aðrar leiðir og hefur staðið fyrir ráðstefnu og vinnuhópum ef ég man rétt. Björk er hugmyndarík með einsdæmum og hver veit nema eitthvað komi út úr þessari vinnu. Mér finnst vanta fréttir af þessari vinnu, hvar er þetta verkefni á vegi statt? Ætli Björk geti ekki lagt peninga í ýmislegt ef hún hefur áhuga? Kannski er hún eini ríki Íslendingurinn sem tapaði ekki aleigunni í kreppunni? Hvað veit maður svo sem? Allavega hef ég ekki heyrt um gjaldþrot hennar eins og Baugs, Samsonar og Bjórgólfs.

Við sem vorum fylgjandi virkjun og álveri fyrir austan megum heldur ekki vera svo meðvirk að við samþykkjum virkjanir og stóriðju út um allt. Öll viljum við jú vernda náttúruna líka... er það ekki?

Mikið væri nú gaman ef Björk gæti komið með okkur hér fyrir austan í hugmyndavinnu því við viljum halda áfram að byggja upp Austurland sem okkur þykir svo vænt um.

Svo væri upplagt fyrir hana að halda tónleika í Fjarðabyggðarhöllinni. Hefur hún komið fram út á landi síðan hún söng á Uxa hér um árið?

Svo finnst mér svo gaman að tengja farsælt fólk við Norðfjörð. (Án ábyrgðar-held ég muni þetta rétt) Fósturpabbi Bjarkar til margra ára átti afa á Norðfirði sem hét Jósef, Jobbi gamli. Hann er þá fóstur-langafi Bjarkar. Húsið hans er enn í eigu fjölskyldunnar og ég var alltaf að vona að Björk kæmi og tæki sumarfrí sitt hér á Norðfirði. Hver veit? Hún kom jú einu sinni á Neistaflug og sigldi með Fjarðaferðum. Munið þið eftir því?


mbl.is Björk fær Schola cantorum til liðs við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rokkveisla á Broadway 13. febrúar

Rokkveisla austfirðinga á Broadway 13. febrúar

-Frumsýning í Reykjavík þetta árið.

 Stórhljómsveit Ágústar Ármanns á Broadway 2004

Svona leit bandið út á Broadway 2004 

Tónlistarveisla austfirðinga í Reykjavík er að þessu sinni helguð gamla rokkinu frá 1950-1964. Rokkveisla síðasta árs á Norðfirði var jólasýning með jólalögum og því er þessi sýning sérstaklega sett upp fyrir brottflutta og gesti þeirra sem hafa jafnan fjölmennt á Broadway. Það er stórhljómsveit Ágústar Ármanns sem sér um undirleik í sýningunni. Hana skipa auk Ágústar Ármanns, Jón Hilmar Kárason, Marías B. Kristjánsson, Viðar Guðmundsson, Helgi Georgsson og Einar Bragi Bragason, ásamt brottfluttum tónlistarmönnum að austan. 

Söngvarar í sýningunni eru: Smári Geirsson, Guðmundur R. Gíslason, Hlynur Benediktsson, Bjarni Freyr Ágústsson , Heiðrún Helga Snæbjörnsdóttir, Stella Steinþórsdóttir, Sigurjón Egilsson, Jóhanna Seljan, Sigfús Ó Guðmundsson og Soffía Björgúlfsdóttir. 

 Kynnar í sýningunni eru Ágúst Ármann og Smári Geirsson. Dansleik eftir sýningu sjá austfirðingar um og hljómsveitin MONO með Hlyn Ben í broddi fylkingar. Boðið er upp á veislumáltíð fyrir sýningu.Einnig er hægt að kaupa miða sérstaklega á sýningu og dansleikinn.Miðapantanir á Broadway í í síma 533-1100.

Minningartónleikar um Höskuld Stefánsson

Ég hef ekki í langan tíma verið jafn ánægður með nokkra tónleika.

Tónlistarmennirnir voru hver öðrum betri og minning Höskuldar var heiðruð á mjög vandaðan hátt.

Það var Tónlistarskóli Neskaupstaðar sem hafði veg og vanda að undirbúningi tónleikanna. Enn ein skrautfjöðrin í hatt Agga, Jóns Hilmars og Egils.

Það muna allir Norðfirðingar og margir á Austurlandi eftir Höskuldi. Hann var þó kannski þekktastur fyrir að vera húsgagnasali, fyrst man ég eftir Höskuldi á Norðfirði með bókabúð og húsgagnaverslun. Svo var Höskuldur svo framsýnn að hann byggði stóra og flotta verslun á Reyðarfirði og rak hana í mörg ár þangað til að hann seldi hana Svanbirni Stefánssyni sem nú rekur búðina.

Kynni mín af Höskuldi voru góð. Hann var skemmtilegur karakter og eru til margar góðar sögur af Höskuldi um orðhnyttni hans og húmor sem var nokkuð sérstakur. Það sameinaði okkur Höskuld að báðir spiluðum við á básúnu sem ungir menn og báðir veittum við Egilsbúð forstöðu um árabil. Höskuldi þótti vænt um Egilsbúð enda er það hús sérstaklega gott tónleikahús sem sannaðist í gær. Tónlist eins og flutt var á tónleikunum í gær, nánast öll órafmögnuð, hljómaði vel um allan sal. Það er öfugmælavísa að sumir telji að selja eigi félagsheimilin, sem eru okkar menningarhús, á meðan önnur sveitarfélög berjast í bökkum við að byggja slík hús. Egilsbúð er menningarhús Norðfirðinga, punktur. Ég er þess viss að hvergi annars staðar hefði Höskuldur vilja halda svona tónleika.

Þegar Súellen gaf út fyrstu plötuna og Símon er lasinn hljómaði á öldum ljósvakans hitti ég Höskuld. "Já þetta er bara svolítið sniðugt þetta lag þarna um þennan veika, já bara nokkuð sniðugt" Sagði Höskuldur. Hann spurði mig um hljómsveitarmeðlimi og gat hann tengt okkur alla við tónlistarmenn sem hann þekkti og hafði jafnvel spilað með á sínum yngri árum. "Svo er gítarleikarinn okkar frá Seyðisfirði en býr nú á Egilsstöðum, hann heitir Tómas Tómasson" sagði ég. Höskuldur hugsaði sig um í smá stund og átti væntanlega enga ættartengingu á þennan mann við tónlistarmenn á Norðfirði. "Tómas! Ha, ha, hann á gott rúm!" sagði Höskuldur svo undirtók í búðinni og málið var útrætt.

Höskuldur var kannski ekki mjög hrifinn af popptónlist og spurði hvort við spiluðum ekki jazz. Ég kvað lítið um það. "En kunnið þið ekki improvisasjon?" Ég var nú hræddur um það og sagði að við værum alltaf að leika okkur og lögin væru nánast aldrei flutt eins. Það líkaði honum. Höskuldur var örugglega sammála því sem einhver vitur maður sagði. Það er til einskis að lesa nótur ef tónlistin kviknar ekki í hjartanu. Til gamans má geta þess að systkinin þrjú sem skipa Bloodgroup eru barnabörn Höskuldar. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni sannast á syni Höskuldar honum Stefáni Ragnari sem er þverflautuleikari á heimsmælikvarða, ef ég veit rétt, og svo á Bloodgroup. Ég minni á tónleika með Bloodgroup sem verða í Egilsbúð á sjómannadaginn.

Ég heyrði Höskuld oft spila. Hann spilaði með hjartanu. Hann spilaði dinner fyrir mig í Egilsbúð eftir að hann hafði veikst en gerði það listavel. Svo mikil virðing var borin fyrir Höskuldi að það mátti heyra saumnál detta á meðan hann spilaði. Þannig að dinnertónlistin var í raun tónleikar Höskuldar. Ég man líka eftir honum á þjóðlagaveislu sem haldin var í Egilsbúð í kringum 1990 og svo kom Höskuldur einu sinni suður með okkur í Brján og spilaði á fína flygilinn á Broadway og var að sjálfsögðu vel tekið.

Ég óska fjölskyldu Höskuldar og Tónskóla Neskaupstaðar til hamingju með frábæra tónleika. Takk fyrir mig. 


Plötumslög á sólóplötum

Plötur

Hvers vegna eru tónlistarmenn mjög oft með mynd af sér framan á diskunum sínum? Ég fór reyndar milliveginn eins og sjá má. Á engri mynd inn í textabók er ég þekkjanlegur þar sem markmiðið með útgáfunni var ekki að verða þekkt andlit.

Ekki eru rithöfundar svona athyglissjúkir. Pælið í því ef það væri alltaf stór mynd framan á kápu bóka af höfundunum. það væri fáránlegt!


Rokkveisla í kvöld

rock-n-rollNú eru vinir mínir í Brján að frumsýna í kvöld í Egilsbúð. Ég ætla að mæta ásamt gamla genginu sem oft hefur borið uppi þessar sýningar. Nú eru kynslóðaskipti og sýnir það styrk okkar hér í rokkinu. Hér er svo mikið af hljóðfæraleikurum og söngvurum að það hálfa væri nóg... fyrir stærra þorp:) Annars er aldrei  of mikið af tónlist, hún er svo yndisleg... oftast.

Ég birti svo lærða gagnrýni á sýninguna eftir helgi þar sem ég kem til með að rakka alla í mig sem standa sig ekki. Því á ég von á litlu rakki, en miklu rokki.

Gangi ykkur vel, kæru vinir!


Er líf eftir tónleikaferð?

Já, segi ég. Maður er ekki samur á eftir en lífið heldur áfram. Ég og Halli Reynis vorum í fanta formi og fengum góðar viðtökur. Þökk þeim sem mættu, svei þeim sem sátu heima. Halli kenndi mér á gítar og mér fór gríðarlega fram og nú er bara að halda áfram að æfa sig. Sérstaklega gaman var að flytja Súellen lögin í kassagítarútsetningum. Einungis góð lög þola það að vera flutt með kassagítar og raddböndum. Elísa, Kona, Ferð án enda og Svo blind voru á dagskránni hjá mér. Einnig flutti ég nýtt lag sem er vals sem ég samdi til Gunnu minnar. "Sennilega besta lag sem þú hefur samið" sagði Halli... takk fyrir það. Ég er þá í framför, he, he! MARTIN_HD28

Ég og Halli skokkuðum svo hringinn á Norðfirði á föstudaginn og fengum mínus 20 rokkstig fyrir það. Skokkuðum svo 8 kílómetra á sunnudaginn í roki og rigningu... þar með fuku af okkur öll rokkstig sem til voru.

Svo er Bubbi að koma á Norðfjörð að leita að söngvara. Það verður gaman að fylgjast með því. Nóg er af góðum söngvurum á Austurlandi. Nú er bara að mæta kæru söngvarar framtíðarinnar.

Eftir ræðu mína á Egilsstöðum um útlensku/íslensku böndin á Airwaves kviknaði hugmynd hjá Auði Hótelstjóra á Héraði sem gaman verður að vinna að. Íslenska innrásin verður vonandi að veruleika. Meira um það síðar.


Skiptir máli hvaðan við komum?

Auðvitað skiptir það máli. Ég hef oft velt þessu fyrir mér varðandi tónlist.

Mig langar að benda á frábæra grein í Mogganum í dag á bls. 46 eftir Ingveldi Geirsdóttur sem heitir Er sprengjuhöllin sveitó?

Megin inntak greinarinnar er að Sprengjuhöllin er töff... af því hún er skipuð sætum strákum úr Menntaskólanum í Hamrahlíð. Ef þeir væru frá Selfossi, Akranesi eða Egilsstöðum þætti þetta MJÖG hallærislegt. Miðbæjarrotta með trefil myndi aldrei viðurkenna þá. Ég held að þetta sé rétt.

Landsbyggðarbönd hafa alltaf sætt fordómum... hjá gagnrýnendum í Reykjavík. Þeir sem hafa reynt að skrifa tónlistarsöguna hafa líka átt erfitt með að fjalla um tónlist frá landsbyggðinni en þess í stað skrifað margar blaðsíður um bönd sem komu fram á örfáum tónleikum í Reykjavík... en voru frábær. Enn hefur ekki verið skrifuð poppsaga Íslands sem mark er á takandi, því miður. Væri ekki hægt að fá sagnfræðing í verkið með tónlistaráhuga?

Já, já, ég veit hvað þið hugsið... hann er bara með minnimáttarkennd... enda frá Neskaupstað... eins og Glúmur!


Tónleikar á Austurlandi

Fimmtudag 18. okt. Fjarðahótel Reyðarfirði kl. 21:00

Föstudag 19. okt. Hótel Hérað Egilsstöðum kl. 22:00

Laugardag 20. okt. Hótel Framtíð Djúpavogi kl. 22:00

Sunnudag 21. okt. Kaffi Sumarlína Fáskrúðsfirði kl. 21:00

 Gummi og Halli trúbb Lög af diskinum “Íslensk tónlist”, Bestu lög Halla Reynis, Súellen lög og fl.

Miðaverð 1500 kr.

Laugardaginn 1. des. ásamt Hnökkunum. Dansleikur í Skrúð á Fáskrúðsfirði 

Trúbadorahátíð gekk vel

Hátíðin var vel sótt og stóðu allir tónlistarmenn sig með sóma. Tónleikar í safnahúsinu á föstudag voru hreint út sagt FRÁBÆRIR! föstudagstrúbbarSjá mynd hér til hægri: Gummi Jóns, Magnús Þór, Auðunn Bragi, Halli Reynis og Guðmundur R.

Því miður voru veður válynd á laugardegi og því komust Ingvar Valgeirs og Einar Ágúst ekki austur. Guðmundur Haukur og Marinó fylltu þeirra skarð og fóru létt með það Wink

Ég og Arnar Guðmundsson brunuðum svo í Mjóafjörð á sunnudagskvöld og héldum þar skemmtilega tónleika og fengum góðar viðtökur eins og við var að búast hjá Mjófirðingum.

Ég vil þakka öllum sem komu fram fyrir yndislega tónlist og styrktaraðilum fyrir stuðninginn. Sjáumst að ári... vonandi!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband